Okkur hefur orðið verulega ágengt

„Staðreyndin er sú að ef tölurnar eru skoðaðar af einhverri sanngirni hefur okkur orðið verulega ágengt á þeim sviðum sem hér skipta mestu máli. Réttindabætur til lífeyrisþega sem eiga rætur sínar að rekja til lagabreytinga á Alþingi haustið 2016 eru eitt dæmið. Áform um réttindabreytingar og -bætur til öryrkja, sem eru fjármagnaðar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, eru annað dæmið. Lítið atvinnuleysi er þriðja dæmið. Lágir raunvextir, lægstu vextir á húsnæðislánum sem sést hafa, eru enn eitt dæmið,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við óundirbúinni fyrirspurn frá Ingu Sæland á Alþingi í dag um baráttuna gegn fátækt.

„Ég hef ávallt lagt á það áherslu að það sé langfarsælast til þess að ríkið geti risið undir þessari ábyrgð sinni, til þess að við getum sinnt þessum mikilvægu verkefnum af myndarbrag, að leggja áherslu á verðmætasköpun í landinu. Það hefur skilað okkur getu í gegnum tíðina til þess að gera betur,“ sagði ráðherra.

Hann sagði að ef við horfðum nokkur ár aftur í tímann þá mætti sjá að slíkar áherslur hafi skilað sé beint til allra landsmanna. „Þess vegna höfum við getað aukið framlög til almannatryggingakerfisins um tugi milljarða á undanförnum árum á örfáum árum. Þess vegna höfum við getað stutt betur við þá sem háttvirtur þingmaður er helst að berjast fyrir, vegna þess að hér hafa orðið til aukin verðmæti.“

Þá sagði ráðherra að hann hafi á síðasta ári farið til Frakklands til að veita viðtöku viðurkenningu fyrir að Íslands væri þá í fyrsta sæti á lífskjaramælikvarða sem þar var verið að kynna til sögunnar.

Finna má alla umræðuna hér.