4 milljarðar verið veittir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða frá árinu 2012

„Ég hallast þó að því að við séum á réttri leið, við sjáum vísbendingar um það og ákveðin merki. Við höfum komið okkur upp kerfi sem styður við markmið um fleiri gáttir inn í landið og einnig styðja reglur sjóðsins við markmið um fleiri ferðamenn utan háannar með hærri styrkjum til styrkþega á tímabilinu frá október og fram í apríl,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra við sérstaka umræðu á Alþingi í dag um dreifingu ferðamanna um landið. Málshefjandi var Líneik Anna Sævarsdóttir.

„Markmið sjóðsins er að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Sjóðurinn starfar í tveimur deildum, leiðaþróunardeild og markaðsþróunardeild, og fjármunir eru tryggðir í honum næstu ár,“ sagði ráðherra við umræðuna.

„Eins og fram kemur í Vegvísi í ferðaþjónustu sem gefinn var út síðla árs 2015 er dreifing ferðamanna einn af þeim áhersluþáttum sem skipta máli til að dreifa álagi og ávinningi. Flugþróunarsjóður tók til starfa í maí 2016 að undangenginni skýrslu um aukna möguleika í millilandaflugi,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagði að árið 2017 hafi verið gerð sú breyting að sjóðnum var heimilað að styðja við tengiflug innan starfssvæðis sjóðsins frá Keflavíkurflugvelli.

„Sjóðurinn hefur nú þegar stutt einn aðila vegna flugs til Egilsstaða og tvo aðila vegna flugs til Akureyrar. Þá ákvað ég á síðasta ári að ráðstafa 20 milljónum kr. til Markaðsstofu Norðurlands og 20 milljónum kr. til Austurbrúar til að styðja við markaðssetningu alþjóðaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum gagnvart beinu millilandaflugi,“ sagði ráðherra.

Ráðherra sagði að ferðamönnum yrði ekki dreift með handafli heldur þurfi að vekja áhuga þeirra á fleiri möguleikum til ferðalaga víða um land og að þjónusta stjórnvalda þurfi að vera í samræmi við það sem og uppbygging og markaðssetning svæðanna.

„Markmið stjórnvalda hefur verið að auka dreifinguna um landið og draga úr árstíðasveiflum. Þau markmið eru tilgreind í Vegvísi og koma einnig fram í nýrri fjármálaáætlun þar sem m.a. er tilgreindur sá mælikvarði á samfélagslega sjálfbæra ferðaþjónustu að hlutfall ferðamanna sem heimsæki valda ferðamannastaði á landsbyggðinni hækki um 2,5 prósentustig árlega frá grunngildi ársins 2017,“ sagði ráðherra.

Ráðherra sagði að ráðuneytið hafi lagt fjármagn í markaðsverkefnið „Ísland allt árið“ frá árin 2011 og að einnig hafi fjármagni verið forgangsraðað til eflingar markaðsstofa landshlutanna.

„Þá hafa rúmlega 4 milljarðar verið veittir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða frá árinu 2012 til dagsins í dag til þess að byggja upp og viðhalda áfangastöðum fyrir ferðamenn víðs vegar um land með bætt aðgengi og öryggi að leiðarljósi, en þar hefur aukin áhersla verið lögð á uppbyggingu nýrra segla sem geta stuðlað að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Við sáum það í nýjustu úthlutun sjóðsins,“ sagði ráðherra.

Hún sagði einnig að leggja þurfi aukna áherslu á vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. „Þá á ég bæði við hefðbundnar afþreyingarvörur, en einnig þarf að horfa sérstaklega á þá miklu möguleika sem tækniþróun og hagnýting upplýsingatækni felur í sér til að auka skilvirkni í rekstri fyrirtækja, en jafnframt þróun afþreyingar og ekki síður aðgangsstýringu,“ sagði ráðherra.

Umræðuna í heild sinni má finna hér.