Kirkjukór en ekki djass

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Um liðna helgi voru tveir helgi­dag­ar sam­kvæmt lög­um um helgi­dagafrið; páska­dag­ur og föstu­dag­ur­inn langi. Á þeim dög­um eru strang­ar regl­ur um hvað má og hvað ekki. Meðal þess sem er bannað eru eins og seg­ir í lög­un­um: „Skemmtan­ir, svo sem dans­leik­ir eða einka­sam­kvæmi á opinber­um veit­inga­stöðum eða á öðrum stöðum sem almenn­ing­ur hef­ur aðgang að. Hið sama gild­ir um op­in­ber­ar sýn­ing­ar og skemmt­an­ir þar sem happ­drætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.“

Þar að auki er lagt bann við starf­semi versl­un­ar og markaða. Á þessu eru svo tí­undaðar ýms­ar und­anþágur, leik­sýn­ing­ar mega hefjast eft­ir klukk­an 15:00 og starf­semi bens­ín­stöðva, lyfja­búða og mynd­banda­leiga er einnig leyfð. Þá er í greinagerð með lög­un­um gert upp á milli tón­list­ar­teg­unda, en popp­tón­leik­ar eru bannaðir á meðan tón­leik­ar með sí­gildri tónlist, kirkju- og kór­tónlist eru leyfðir. Það þykir tak­mörk­un sem sam­rým­ist best þeim friði sem stefnt er að um­rædda daga.

Hér er aug­ljós­lega um úr­elt lög að ræða, hvort sem fólk aðhyll­ist kristni eða ekki. Þá er ljóst að lög­regl­an læt­ur það mæta af­gangi þó að fólk spili ólög­legt bingó á páska­dag. Aðal­atriðið er það að lög­gjaf­inn þarf að treysta fólki til þess að ákveða hvernig það ger­ir sér dagamun sér á helg­ustu helgi­dög­um, hvort versl­un­ar­eig­end­ur hafi búðir sín­ar opn­ar eða ekki o.s.frv.

Í þess­um lög­um end­ur­spegl­ast bæði for­sjár­hyggja og miðstýr­ing rík­is­valds­ins sem er ekki ein­ung­is ætlað að vernda helgi­hald með lög­un­um held­ur einnig: „…að tryggja frið, næði, hvíld og afþrey­ingu al­menn­ings á helgi­dög­um þjóðkirkj­unn­ar.“ Lög­gjaf­inn ætti að leyfa hverj­um og ein­um að velja sjálf­ur hvenær sé þörf á næði og hvíld og hvenær eigi að fá frið frá afþrey­ingu eða öðru.

Dóms­málaráðherra áform­ar að leggja fram frum­varp um breyt­ingu á lög­um um helgi­dagafrið með það mark­miði að rýmka heim­ild­ir til að halda skemmt­an­ir og veita þjón­ustu á helgi­dög­um þjóðkirkj­unn­ar. Þá hafa Pírat­ar einnig lagt til að fella lög­in brott en bæta helgi­dög­um við frí­dag­ana sem tald­ir eru upp í lög­um um 40 stunda vinnu­viku. Þannig má áfram tryggja launþegum frí á þess­um dög­um eða greiða þeim yfirvinnu­kaup sem vinna.

Hvort sem verður er um minni­hátt­ar breyt­ingu á lög­um að ræða sem ger­ir þeim sem til­bún­ir eru að veita þjón­ustu þessa daga sem og aðra og þeim sem vilja fá hana mögu­legt að sækja hana án þess að lög­gjaf­inn beiti valdi sínu til að hefta eðli­legt at­hafna­frelsi fólks á til­tekn­um dög­um árs­ins.

Ég vona að þið hafið átt gleðilega páska­hátíð.

Greinin „Kirkjukjór en ekki djass“ sem birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2018.