Valgerður Sigurðardóttir, 3. sæti í Reykjavík:
Við sem búum í efri byggðum Reykjavíkur og sækjum vinnu nálægt miðbænum þekkjum það vel flest hvernig það er að sitja í umferðaröngþveiti. Það veldur gjarnan miklu ergelsi í minni fjölskyldu enda hefur umferðarteppan áhrif á daglegt líf allra borgarbúa, með mismunandi hætti þó, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Í mínu tilfelli er það þannig að þegar klukkan slær 15:00 byrja ég mjög gjarnan á því að hugsa með sjálfri mér: Kemst ég af stað á undan öllum öðrum eða næ ég að koma mér heim áður en umferðin fer að þyngjast?
Aðstæður eru nefnilega þannig hjá okkar fjölskyldu að ef ég er ekki lögð af stað úr Borgartúni heim til mín í Grafarvog rétt fyrir klukkan fjögur, þá næ ég ekki á leikskólann til að sækja dóttir mína í tæka tíð. Þannig er ég mjög gjarnan allt of sein, á stanslausum hlaupum, í stressi og með hnút í maganum yfir því að vera ekki á undan umferðinni.
Við þessar aðstæður byrja afsakanir að fljúga í gegnum hugann á mér, afsakanir gagnvart sjálfri mér, starfsfólki leikskólans og auðvitað dóttur minni.
Myndi heldur vilja eyða tíma með börnunum
Sökum umferðarinnar þarf dóttir mín oftar en ekki að vera klukkustund lengur á leikskólanum en ég er í vinnunni. Þannig má segja að vikuleg leikskólaviðvera hennar sé góðum fimm stundum lengri en vinnuvikan mín. Það eru yfir tveir og hálfur vinnudagur á mánuði, sé reiknað með 7,5 stunda vinnudegi. Ef reiknað er með fjórum vikum í sumarfrí þá eru þetta samtals rúmlega 29 dagar á ári sem barnið mitt þarf að vera lengur í vistun vegna þess að ég er föst í umferðarsúpu (5×4=20×11=220/7,5=29,3). Þetta eru gæðastundir sem ég held að vel flestir ef ekki allir foreldrar myndu heldur vilja eyða með börnunum sínum fremur en í umferðinni í Reykjavík.
Nú spyrja sig eflaust margir: Af hverju er hún að mála myndina upp með þessum hætti? Er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt að þurfa að aka til og frá vinnu og reikna með tíma í aksturinn? Svar mitt er: JÁ – vissulega tekur tíma að koma sér til og frá vinnu en við getum gert svo miklu, miklu, miklu betur en þetta. Íbúafjöldi Reykjavíkur er ekki nema rúmlega 120.000 sem samsvarar einu hverfi í milljónaborg.
Samverustundir sem umferðaröngþveitið gleypir
Þá er enn fremur rétt að taka fram að samkvæmt mælingum Ólafs Guðmundssonar, tæknistjóra EuroRAP á Íslandi, ætti eðlilegur ferðatími fyrir 11 km, á milli Borgartúnsins og Grafarvogs, að vera 14 mínútur. Ef rétt reyndist ætti ég auka 14 daga á ári með dóttur minni, samverustundir sem umferðaröngþveitið gleypir frá mér og henni.
Þessu viljum við breyta tafarlaust. Og þessu ætlum við að breyta! Við óbreytt ástand verður ekki unað mikið lengur.
Tafalaus gatnamót
Náum við kjöri verður eitt af okkar fyrstu verkum að segja upp samningi við ríkið um framkvæmdastopp og fara í stórátak í umferðarmálum. Með einföldum lausnum er hægt að ná heilmiklum árangri á stuttum tíma. Ég leyfi mér að nefna eitt augljósasta dæmið sem er að koma ljósastýringu í samt lag en það myndi strax létta á umferðinni. Ljósastýrðum gatnamótum þarf svo að fækka og koma fyrir tafalausum gatnamótum enda eru ljósastýrð gatnamót stórhættuleg.
Verði þetta að veruleika mun það hafa stórvægileg keðjuverkandi áhrif á líf allra borgarbúa. Ávinningurinn felst ekki eingöngu í auknum tíma fyrir þá sem búa í efri byggðum, heldur minni mengun fyrir alla borgarbúa. Bifreið sem situr föst í umferð mengar yfir 340% meira heldur en bíll sem kemst leiðar sinnar óhindrað, samanber mælingar Ólafs.
Tafatími kemur okkur öllum við og með því að minnka hann njótum við öll góðs af: Hreinna loft, fleiri samverustundir og álag á börn og þá er sinna þeim fyrir okkur sem vinnandi erum kemur til með að minnka til muna.
Breytum borginni!
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2018