Samstaða vestrænna ríkja

Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum, ákvað ríkisstjórn Íslands á dögunum að taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. Allt bendir til þess að taugaeitrinu Novichok hafi verið beitt í árásinni. Ekki er vitað til þess að nokkuð annað ríki en Sovétríkin hafi framleitt þetta taugaeitur, en framleiðslan er það flókin að hún fer ekki fram án aðkomu ríkisvalds.

Norðurlöndin, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins ákváðu að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri. 

Samstaða vestrænna ríkja skiptir hér afar miklu máli. Um var að ræða lífshættulega árás gegn almennum borgurum úti á götu í friðsælum enskum smábæ, en fjöldi Íslendinga býr og starfar í Bretlandi, sem er eitt af okkar nánustu samstarfsríkjum.