Gerum lífið betra

Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar 

Sá sem ekki hef­ur setið lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins á erfitt með að skilja og skynja þann ótrú­lega kraft sem sjálf­stæðis­menn um allt land búa yfir. Sá sem ekki hef­ur reynt átt­ar sig illa á því hvernig hægt er að móta stefnu stjórn­mála­flokks með þátt­töku á annað þúsund manns.

Lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins er eins kon­ar suðupott­ur hug­mynda og hug­sjóna, þar sem kraum­ar vel und­ir. Tek­ist er á um ein­stök mál af festu, stund­um hörku en með hrein­skiptn­um hætti. Stjórn­mála­flokk­ur sem forðast átök, nýj­ar hug­mynd­ir og skoðana­skipti, fær aldrei byr í segl­in. Í logn­mollu felst dauði og þá dug­ar ekki að reyna að rugga bara bátn­um.

Líkt og oft áður létu ung­ir sjálf­stæðis­menn til sín taka á lands­fund­in­um um liðna helgi, með skýr­um mál­flutn­ingi og beitt­um til­lög­um sem náðu flest­ar fram að ganga. Á lands­fundi er dag­skrár­valdið í hönd­um lands­fund­ar­full­trúa sem koma alls staðar að af land­inu – sjó­menn og út­gerðar­menn, bænd­ur og iðnaðar­menn, kenn­ar­ar og for­stjór­ar, lækn­ar og eldri borg­ar­ar, fram­halds­skóla­nem­end­ur og há­skóla­stúd­ent­ar, for­rit­ar­ar og versl­un­ar­menn, fisk­eld­is­menn og nátt­úru­vernd­arsinn­ar. Þversk­urður þjóðar­inn­ar sem sam­ein­ast und­ir gömlu kjör­orði; stétt með stétt.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sló tón­inn í setn­ing­ar­ræðu síðastliðinn föstu­dag:

„Ég stend hér og segi ykk­ur að stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur gert lífið betra fyr­ir Íslend­inga í gegn­um tíðina. Við höf­um byggt allt okk­ar starf á trúnni á frelsi ein­stak­ling­ins.

Að hlut­verk stjórn­valda væri að hvetja og styðja við fram­taks­semi fólks. Við það myndi kak­an stækka og all­ir njóta góðs af því.

Síðustu ár eru sönn­un þess að sú kenn­ing er rétt. Við get­um verið stolt af ár­angr­in­um.“

Báknið burt

Í stjórn­mála­álykt­un fund­ar­ins er und­ir­strikað að skatt­kerfi og reglu­verk at­vinnu­lífs­ins eigi að vera ein­falt og sann­gjarnt og að lækka þurfi skatta. Bent er á það sem öll­um ætti að vera aug­ljóst en virðist vefjast fyr­ir mörg­um: „At­vinnu­frelsi, virk sam­keppni og hag­kvæm nýt­ing auðlinda eru for­send­ur efna­hags­legra fram­fara og und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins.“

„Ríki sem reyn­ir að sinna verk­efn­um sem aðrir geta séð um og ger­ir það í þokka­bót illa, er bákn,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son í setn­ing­ar­ræðunni og bætti við:

„Þegar hið op­in­bera kæf­ir fram­taks­samt fólk í skriffinnsku, læt­ur það þvæl­ast milli stofn­ana með eyðublöðin, er það bákn. Sama gild­ir ef inn­heimt­ir skatt­ar og gjöld fara í of mikl­um mæli í óþarfa út­gjöld.

Los­um okk­ur við slíkt bákn, en ver­um á móti stolt af því þegar okk­ur vex styrk­ur til að gera bet­ur í mik­il­vægri op­in­berri þjón­ustu.“

Ég full­yrði að eng­inn ann­ar formaður stjórn­mála­flokks á Íslandi tal­ar með þeim hætti sem Bjarni ger­ir eða sýn­ir meiri skiln­ing á því hve mik­il­væg það er að op­in­ber­ir aðilar séu ekki að leggja steina í göt­ur frum­kvöðla og sjálf­stæðra at­vinnu­rek­enda en um leið sé staðið mynd­ar­lega að vel­ferðar- og mennta­mál­um. Hann vill ein­falda sam­skipt­in við hið op­in­bera og inn­leiða ra­f­ræna stjórn­sýslu. Taka op­in­ber­ar leyf­is­veit­ing­ar til gagn­gerr­ar end­ur­skoðunar – snúa kerf­inu á röng­una og ganga „út frá því að fólk í at­vinnu­rekstri vilji al­mennt standa sína plikt“.

Póli­tísk­ur kraft­ur

Styrk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins felst ekki síst í því dag­skrár­valdi sem al­menn­ir flokks­menn hafa á lands­fund­um. Full­trú­ar á lands­fundi eru bak­bein flokks­ins um allt land. Þeir eru til­bún­ir að taka þátt í póli­tísku starfi til að hafa áhrif á sam­fé­lagið – gera lífið betra fyr­ir alla. Skoðanir eru skipt­ar í mörg­um mál­um en und­ir gunn­fána frels­is eru all­ir þess full­viss­ir að Íslend­ing­um vegni best þegar ein­stak­ling­ur­inn fær að njóta sín, fær svig­rúm til at­hafna. Á lands­fund kem­ur sam­an fólk sem vill koma bönd­um á rík­is­valdið – fólk sem hafn­ar sérrétt­ind­um en berst fyr­ir því að hver og einn fái að vera hann sjálf­ur, að all­ir séu jafn­ir fyr­ir lög­um og njóti jafnra tæki­færa í líf­inu. Það er eng­in til­vilj­un að sjálf­stæðis­menn leggja áherslu á öfl­ugt mennta­kerfi eða eins og Bjarni Bene­dikts­son sagði í ræðu sinni:

„Mennta­kerfið er besta tækið sem við eig­um til að tryggja að börn­in okk­ar búi við jöfn tæki­færi þegar þau halda af stað út í lífið. Með góðum skól­um get­um við hjálpað öll­um, lyft öll­um þannig að öll börn séu í fær­um að nýta það sem í þeim býr.“

Mér hef­ur alltaf fund­ist magnað að upp­lifa hvernig sam­keppni hug­mynda og skoðana­skipti á lands­fundi leysa úr læðingi póli­tísk­an kraft. Lands­fund­ur­inn um liðna helgi var þar eng­in und­an­tekn­ing. Bjarni Bene­dikts­son hef­ur aldrei staðið sterk­ar sem formaður en hann var end­ur­kjör­inn með yfir 96% at­kvæða. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir hlaut glæsi­lega kosn­ingu í embætti vara­for­manns eða tæp 96%. Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir sem var end­ur­kjör­in rit­ari með tæp 94% at­kvæða. Umboð þeirra þriggja er skýrt og þau fara vel nestuð af lands­fundi.

Fyr­ir þann sem hér skrif­ar var það sér­stak­lega ánægju­legt að hlusta á fram­boðsræðu Þór­dís­ar Kol­brún­ar síðastliðinn laug­ar­dag þar sem hún und­ir­strikaði að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn væri flokk­ur tæki­fær­anna – tæki­færa hins venju­lega manns:

„Við sjálf­stæðis­menn eig­um er­indi við framtíðina, af því að við skilj­um hvers hún krefst af okk­ur. Hún krefst þess að ein­stak­lings­frelsi og at­hafna­frelsi blómstri sem aldrei fyrr, í allra þágu. Því að þannig nær venju­legt fólk óvenju­leg­um ár­angri.“

„Að nenna að leggja á sig “

Kon­ur voru áber­andi í öllu starfi á lands­fund­in­um og hafa aldrei verið í sterk­ari stöðu til að móta og skerpa stefnu flokks­ins á kom­andi árum. Í átta mál­efna­nefnd­um sem kosið var í eru kon­ur í meiri­hluta sjö nefnda og for­menn í fimm. Af þeim sem náðu kjöri í stjórn­ir mál­efna­nefnd­anna voru 26 kon­ur og 14 karl­ar. Kon­ur leika því lyk­il­hlut­verk þegar kem­ur að því að efna lof­orð Sjálf­stæðis­flokks­ins um að gera lífið betra fyr­ir alla.

En auðvitað skipt­ir það litlu hvort það er karl eða kona sem tek­ur að sér að móta stefnu stjórn­mála­flokks, ef hug­sjón­in og dugnaður­inn til að berj­ast fyr­ir fram­gangi henn­ar er ekki til staðar. Bjarni Bene­dikts­son, eldri, orðaði þetta með sín­um hætti þegar hann brýndi lands­menn til virkr­ar þátt­töku í þjóðlíf­inu á 25 ára af­mæli lýðveld­is­ins:

„Menn koma engu góðu til veg­ar, nema þeir séu sjálf­ir virk­ir þjóðfé­lagsþegn­ar, geri upp eig­in hug, þori að hugsa sjálf­stætt, fylgja hugs­un sinni eft­ir og átti sig á því, að fátt næst fyr­ir­hafn­ar­laust. Menn verða í senn að nenna að leggja á sig hugs­un og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær um­bæt­ur, er löng­un þeirra stend­ur til.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 21. mars 2018.