Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:
Umhverfismál eru stærstu viðfangsefni samtímans. Þau snerta okkur öll og um þau ætti að ríkja samstaða. Því fylgir áskorun að búa í neyslusamfélagi en vilja samtímis stuðla að sjálfbærni og umhverfisvernd. Flokkun sorps og endurvinnsla eru lykilþættir á þeirri vegferð.
Reykjavík er höfuðborg Íslands. Hún ætti að vera í fararbroddi – hún ætti að gefa tóninn – hún ætti að setja fordæmi. En Reykjavík er í reynd eftirbátur annarra sveitarfélaga hvað varðar umhverfisvernd.
Það er vilji Sjálfstæðisflokksins að Reykjavík verði fyrirmynd erlendra borga í umhverfismálum. Það er vilji okkar að Reykjavík setji sér metnaðarfullt markmið um plastlausa borg. Við viljum auðvelda íbúum flokkun sorps. Það er trú okkar að borgarbúar vilji gera vel. Þeir vilji gera betur. En til þess þarf ferlið að vera einfalt og aðgengilegt.
Við viljum auka flokkun á lífrænum úrgangi. Það verkefni viljum við hefja í Vesturbænum. Við viljum auðveldað íbúum aðgengi að nauðsynlegum flokkunarbúnaði svo endurvinna megi lífrænan heimilisúrgang á umhverfisvænan og hagkvæman hátt. Við viljum fjölga grenndarstöðvum og flokkunarmöguleikum – og leggja áherslu á bætt aðgengi að stöðvum í göngufæri.
Við viljum umhverfisvænni borg – og viljum hefja þá vegferð í Vesturbænum.
Birtist fyrst í Vesturbæjarblaðinu 18. mars 2018