Gerum lífið betra

„Við ætlum að halda áfram að lækka skatta á þessu kjörtímabili. Tekjuskatturinn mun lækka. Tryggingagjald mun lækka. Þetta er stefna okkar,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu sinn í 43. landsfundi flokksins sem var settur í dag í Laugardalshöll.

Vel á annað þúsund manns sátu landsfund við setningu formanns, en yfirskrift landsfundarins að þessu sinni er „Gerum lífið betra“.

Í ræðu sinni sagði Bjarni að heimilin í landinu væru á uppleið, fyrirtækin standi betur og að ríkissjóður væri að greiða niður skuldir og hefði á undanförnum árum losað sig við 600 milljarða af skuldum.

„Það er ekkert nema bjart fram undan“, sagði Bjarni.

Hann sagði að á milli stjórnarflokkanna ríkti gott traust og að mikill vilji væri til samstarfs.

„Bæði til að vinna þau verk sem vitað er að þarf að vinna, en líka til að takast á við öll þau mál sem koma óvænt upp,“ sagði hann.

Þá sagði Bjarni að breytingar á menntakerfinu þurfi að miða að því að íslensk börn geti aðlagað sig þeirri veröld að tæknibreytingar í framtíðinni verði hraðari og hraðari.

Bjarni minntist á peningamál og Evrópusambandið í ræðu sinni og sagði: „Við skulum vera alveg skýr á hlutunum. Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og við höfnum þeirri hugmynd að Ísland eigi að ganga í ESB til að taka upp evruna.“

Skuldir heimilanna ekki lægri frá aldamótum

Bjarni minntist á fjárfestingu í atvinnulífinu sem væri að aukast. Skuldastaða heimilanna hefði ekki verið betri frá aldamótum og að í ríkisfjármálum hefði grettistaki verið lyft.

„Þegar við styrkjum vegakerfið, eflum menntun í landinu, kaupum þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, nýjan Herjólf, reisum nýjan spítala – þá erum við að styrkja samfélagið,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að hann myndi beita sér fyrir því að innheimtumaður ríkissjóðs hætti að senda gluggapóst og að samskipti almennings við innheimtumann yrðu rafræn. Með því myndu 500 milljónir króna sparast á ári í burðargjöldum.

„Næst eigum við að taka opinberar leyfisveitingar til gagngerrar endurskoðunar,“ sagði hann og að það þyrfti að einfalda samskiptin við ríkið.

„Ríki sem reynir að sinna verkefnum sem aðrir geta séð um, og gerir það í þokkabót illa, það er bákn. Þegar hið opinbera kæfir framtakssamt fólk í skriffinnsku, lætur það þvælast milli stofnana með eyðublöðin, það er bákn,“ sagði Bjarni í setningarræðu sinni.

Verkefnið að tryggja enn frekari stöðugleika

Þá sagði hann: „Verkefnið framundan er að tryggja enn frekar stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensk sjávarútvegs þannig að greinin geti verið áfram samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Það er loforð sem kjölfestuflokkur í íslenskum stjórnmálum getur gefið og staðið við.“

Hann ræddi einnig um íslenskan landbúnað og sagði: „Frelsi til athafna virkjar einna best þann kraft sem þarf til að nýta þau sóknarfæri sem sérstaða íslensks landbúnaðar býður upp á.  Bændur eiga skilið að fá tækifæri til að nýta þann kraft“, sagði hann.

„Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur gert lífið betra fyrir Íslendinga í gegnum tíðina,“ sagði Bjarni.