Reykjavík kemur okkur öllum við

Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins:

Þeir sem búa í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ þurfa oft að sækja Reykjavík heim. Flestir finna fyrir því að umferðin hefur þyngst mikið. Ferðatími í Reykjavík hefur aukist um 26% að jafnaði á fjórum árum samkvæmt ferðakönnun Samtaka iðnaðarins. Sífellt meiri tími fer í tafir og bílar bíða í lausagangi með tilheyrandi mengun og auknu svifryki. Í staðinn fyrir að fækka ljósastýrðum gatnamótum hefur Reykjavík hafnað vegafé síðustu sex árin. Framkvæmdastopp ásamt manngerðum þrengingum hefur hægt á allri umferð og er svo komið að vinnuvikan hefur í raun lengst um margar klukkustundir fyrir flesta. Það er því hagsmunamál fyrir allt höfuðborgarsvæðið að breytt verði um stefnu í borginni. Það er löngu kominn tími á framkvæmdir sem nýtast fólki til að komast leiðar sinnar.

Húsnæðisvandinn í Reykjavík

Á meðan önnur sveitarfélög undirbjuggu uppbyggingu íbúðarhverfa svaf Reykjavíkurborg á verðinum. Höfuðborgin, sem átti að leiða húsnæðismálin, sat eftir. Á síðasta ári voru færri íbúðir byggðar í Reykjavík en Mosfellsbæ. Lóðaskortur og há gjöld hafa ýtt sífellt fleiri Reykvíkingum burt og þrýst á verðhækkanir í öðrum sveitarfélögum. Ekki minnkar umferðin við þessa þróun. Þrátt fyrir kynningar, glærur, skóflustungur og úthlutanir hefur húsnæðisvandinn aukist ár frá ári. Óvissa meðal framkvæmdaaðila og langur afgreiðslutími hafa stóraukið kostnað við byggingar í Reykjavík og lagst ofan á verðið. Á endanum borgar fólkið, eða gefst upp og flytur burt.

Reykjavík á að vera brimbrjóturinn

Höfuðborgin á að vera leiðandi sveitarfélag enda hefur hún burði til þess ef henni er rétt stjórnað. Hún er langstærsta sveitarfélagið og ætti því að vera hagkvæmasta rekstrareiningin. Sú er ekki raunin. Borgin ætti að vera leiðandi í umhverfismálum en ekki vera umvafin svifryki. Reykjavík ætti að keppa við alþjóðlegar borgir í skólamálum en ekki vísa börnum frá vegna manneklu. Höfuðborgin ætti alltaf að vera með hagstæðar lóðir og lausnir svo Íslendingar geti valið hana sem búsetukost óháð efnahag. Í dag eru aðallega byggðar dýrar lúxusíbúðir sem almenningur hefur ekki efni á. Ég vil sjá Reykjavík sem snjallborg þar sem tækni er notuð til að einfalda líf okkar allra. Ég vil að í Reykjavík geti kynslóðir unnið betur saman og eldri borgarar fái tækifæri til að taka þátt í samfélaginu með virkum hætti. Ein stærsta áskorun okkar tíma er að virkja eldri borgara og þá eigum við að létta álögum af þeim. Höfuðborgin á að vera snyrtileg og hrein. Hún á að þjóna öllu landinu og vera okkur öllum til sóma.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2018