Aslaug Arna

Innantóm orð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins:

Marga­ret Thatcher hafði einu sinni á orði að al­vöru­leiðtogi þyrfti ekki að ganga um og segja öll­um að hann væri leiðtogi, meinti að verk­in myndu tala ef um al­vöru­leiðtoga væri að ræða.

Þetta á ágæt­lega við um stjórn­mál­in. Þeir eru til sem hafa mótað sér sterka hug­mynda­fræði, vinna eft­ir henni og láta verk­in tala. Síðan eru þeir sem nota frasa, tala mjög mikið um hvernig þær sjái hlut­ina fyr­ir sér, hvernig þeir ætli sér að gera hitt og gera þetta, hvernig þeir sjálf­ir séu í raun betri en all­ir aðrir og þannig mætti áfram telja. Það þarf varla að taka fram að þeim síðar­nefndu verður alla jafna lítið úr verki, jafn­vel þótt þeir látið mikið fyr­ir sér fara í umræðunni.

Það er til að mynda mjög auðvelt að tala fyr­ir svo­kölluðum kerf­is­breyt­ing­um án þess þó að lyfta litlafingri í því að taka á kerf­inu þegar þess þarf eða stuðla að um­fangs­mikl­um breyt­ing­um. Það er líka mjög auðvelt að segja sjálf­an sig tala fyr­ir „al­manna­hags­mun­um“ en ekki „sér­hags­mun­um“ og reyna þannig að stilla þeim sem kunna að vera ósam­mála þér upp við vegg. Enn auðveld­ara er að tala fyr­ir frjáls­lyndi án þess þó að vera sér­stak­lega frjáls­lynd­ur í verki.

Þeir sem tala fyr­ir hærri skött­um, aukn­um um­svif­um hins op­in­bera, aukn­um eft­ir­litsiðnaði og auknu reglu­verki geta ekki skreytt sig með frjáls­lynd­is­fjöðrum. Jafn­vel þótt þeir detti öðru hvoru inn á eitt og eitt mál sem kalla mætti frels­is­mál, þá fell­ur það í skugg­ann af stjórn­lynd­inu sem þeir boða á hverj­um degi.

Fras­inn um al­manna­hags­muni gegn sér­hags­mun­um er ekki jafn inni­halds­rík­ur og hann er lang­ur. Eru það al­manna­hags­mun­ir að hækka skatta á til­tekn­ar at­vinnu­grein­ar ef ske kynni að þeim gengi vel? Eru það al­mennt al­manna­hags­mun­ir að hækka skatta og halda að ríkið geti varið fjár­magn­inu bet­ur en þeir sem á hverj­um degi vinna hörðum hönd­um að því að skapa verðmæti? Eru það al­manna­hags­mun­ir að auka skriffinnsku, fjölga reglu­gerðum og auka af­skipti rík­is­ins af dag­legu lífi bæði al­menn­ings og at­vinnu­líf­is­ins?

Með ein­föld­um hætti mætti skipta stjórn­málaviðhorf­um upp í tvennt; ann­ars veg­ar þá sem vilja háa skatta og auk­in um­svif hins op­in­bera og hins veg­ar þá sem vilja lækka skatta og minnka um­svif hins op­in­bera. Þetta er vissu­lega ein­föld­un því stjórn­mál­in fjalla um margt annað, en engu að síður er tek­ist á um þessi grunn­atriði með reglu­bundn­um hætti. Þá kem­ur í ljós hverj­ir það eru sem eru frjáls­lynd­ir í raun og hverj­ir segj­ast bara vera frjáls­lynd­ir. Og þá kem­ur líka í ljós hverj­ir hafa talað í inn­an­tóm­um frös­um án nokk­urr­ar inni­stæðu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2018.