Hvað er dánaraðstoð?

Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu euthanasia (góður dauði/að deyja með reisn) sem merkir að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum. Oft á tíðum hefur verið notast við orðið líknardráp eða sjálfsvíg með aðstoð.

Á umræða um dánaraðstoð erindi?

Umræða um dánaraðstoð eða líknardauða hefur reglulega komið upp í íslensku samfélagi, og reyndar víða um heim. Hollendingar eru ákveðnir frumkvöðlar í þessum efnum en þeir lögleiddu dánaraðstoð í kringum aldamótin, Svisslendingar og Belgar hafa fylgt þeim eftir og í sumum ríkjum Bandaríkjanna er dánaraðstoð leyfð. Dánaraðstoð vekur eðlilega margar siðfræðilegar spurningar. Ekki eru allir sammála um hvort rétt sé að veita slíka aðstoð og margir hræðast hvað slíkt leyfi gætti leitt af sér. Mun fólk kjósa dánaraðstoð af ótta við að vera byrði á ættingjum og samfélaginu? Hverjir ættu að taka slíka ákvörðun og undir hvaða kringumstæðum gæti slíkt verið réttlætanlegt, eða er það yfirhöfuð einhvern tímann réttlætanlegt að velja dauðann fram yfir lífið? Spurningarnar eru margar og flóknar. Staðreyndin er samt sú að ákveðin lönd leyfa dánaraðstoð og Íslendingar hafa nýtt sér slíka aðstoð. Ég tel því að hvort sem okkur líki betur eða verr þá þurfi að taka þessa umræðu. En umræðan þarf að vera málefnaleg, byggð á rökum og reynslu. Hún þarf að vera af yfirvegun og það þarf aðhorfa til margar ólíkra þátta.

Þingsályktun um dánaraðstoð

Í þeim tilgangi að fram geti farið yfirveguð umræða sem byggist á staðreyndum og reynslu annarra landa, lagði ég ásamt fleiri þingmönnum nýverið fram þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Þingsályktunartillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, sem og tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið. Einnig viljum við að kannað sé hvort í þeim löndum sem ekki heimila dánaraðstoð sé umræða um að leyfa slíkt, þá nefnum við sérstaklega Norðurlöndin, Þýskaland og Kanada. Ásamt þessari samantekt um stöðu í öðrum löndum viljum við að gerð verði skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar, annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum. Við óskum eftir því að þessar upplýsingar liggi fyrir í formi skýrslu í lok ágúst 2018.

Afstaða almennings og afstaða fagfólks

Í skoðanakönnun sem Siðmennt gerði í nóvember 2015 á lífsskoðunum og trú Íslendinga var könnuð meðal annars afstaða almennings til dánaraðstoðar, spurningin var: „Ertu hlynnt/ur eða andvíg/ur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“ 74,9% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því, 18% voru hvorki né en 7,1% mjög eða frekar andvíg. Flestum kom á óvart þessi mikli stuðningur almennings við dánaraðstoð. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni vísum við í tvær eldri kannanir sem gerðar hafa verið meðal heilbrigðisstarfsmanna. Árið 1997 birtist grein í Læknablaðinu þar sem fjallað var um rannsókn þar sem aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk. Árið 2010 var gerð önnur könnun og þá var niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk. Þannig er ljóst að töluverð breyting hafði átt sér stað meðal heilbrigðisstarfsfólks á árunum 1997 til 2010, áhugavert er að vita hver afstaða heilbrigðisfólks er í dag. Umtalsverður munur er á afstöðu almennings og heilbrigðisstarfsfólks, það kann að vera skiljanlegt að einhverju leyti. Umræða um dánaraðstoð innan heilbrigðisgeirans er einhver þó að umræða og áhersla á líknandi meðferð, framþróun og gæði hennar fái eðlilega meira rými. Umsagnir um þingsályktunina eru mismunandi. Þannig virðist mörgum rétt að skoða málið frekar en fagstéttir telja umræðuna þegar til staðar meðal þeirra og engin ástæða sé til að færa hana inn á Alþingi. Þessu er ég ósammála enda myndi það að leyfa dánaraðstoð kalla á töluverða breytingu á löggjöf, þess vegna tel ég nauðsynlegt að umræðan um dánaraðstoð sé ekki eingöngu meðal fagfólks heldur líka meðal almennings. Hér er um að ræða stórar siðfræðilegar spurningar sem eiga erindi við okkur öll.

Höfundur er þingmaður bryndish@althingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2018.