Hringlandaháttur Viðreisnar

Þingmenn Viðreisnar samþykktu tillögu dómsmálaráðherra um 15 dómara við Landsrétt m.a. með orðunum;  „vel ígrunduð og rökstudd“, „Hæfir einstaklingar, jafnt kynjahlutfall“ og „Þetta eru góð vinnubrögð.“

Þegar Alþingi felldi tillögu Pírata og Samfylkingar um vantraust á dómsmálaráðherra greiddu allir fjórir þingmenn Viðreisnar atkvæði með vantraustinu.

Þetta er ekki síst athygli vert ef nefndarálit meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um málið er skoðað, en einn af þeim sem skrifaði undir álitið er þáverandi þingmaður Viðreisnar.

Orðrétt segir í meirihlutaálitinu: „Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um hlutverk Alþingis en fyrir nefndinni komu þau sjónarmið fram að það væri fyrst og fremst að kanna hvort ráðherra hafi gætt réttra vinnubragða og undirbúið ákvörðun sína í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar. Einnig hvort fram hafi farið viðeigandi samanburður umsækjenda með hliðsjón af þörfum Landsréttar og verkefna hans ásamt því að ráðherra hafi byggt tillögu sína á málefnalegum sjónarmiðum.

Þannig fer Alþingi með eftirlit með framkvæmd ráðherra, þ.e. veitingarvaldshafans, á málinu. Meiri hlutinn tekur fram að hann hefur fjallað um þær forsendur sem liggja að baki tillögu ráðherra um tilnefningar einstakra dómara í Landsrétt, þ.m.t. um að breyta út frá tillögu dómnefndar, og fellst á þær.“

Tillagan „vel ígrunduð og rökstudd“

Við atkvæðagreiðslu í þinginu um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar: „Við höfðum uppi verulegar efasemdir í umfjöllun okkar um málið, að það hefði ekki verið nægilega vel rannsakað.“

Þessar efasemdir þingmannsins er þó hvorki að finna í nefndarálitinu né sáu hann né aðrir þingmenn Viðreisnar ástæðu til að tiltaka þær í atkvæðaskýringum um málið þegar þeir studdu tillögu um skipan 15 dómara við Landsrétt sumarið 2017.

Þar sagði Þorsteinn sjálfur: „Ég tel dómsmálaráðherra bera hina endanlegu ábyrgð í málinu og tel að sú tillaga sem liggur fyrir þinginu sé vel ígrunduð og rökstudd. Því segi ég já.“

„Þetta eru góð vinnubrögð“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í umræðum um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra: „Þegar hæstv. dómsmálaráðherra er byrjuð að skýla sér á bak við jafnréttislög og kynjahlutföll þá er margt orðið skrýtið í kýrhausnum.“

Þessi orð formannsins vekja athygli þegar þau eru sett í samhengi við kröfu Viðreisnar vorið 2017 um að bæta kynjahlutföll í tillögu að skipan dómara við Landsrétt. Þær kröfur komu skýrt fram í fjölmiðlum og þingmönnum flokksins var tíðrætt um þær við umræður og atkvæðaskýringar með málinu í þingsal 1. júní 2017

Þar sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar: „Við greiðum núna atkvæði um lista, fjölbreyttan lista, með 15 hæfum einstaklingum að undangengnu hæfnismati. Sá listi hefur það líka til að bera, sem hefur verið býsna sjaldgæft undanfarin 100 ár, að búa yfir jöfnu kynjahlutfalli. Hæfir einstaklingar, jafnt kynjahlutfall. Ég segi já.“

Jóna Sólveig Elínardóttir, þáverandi varaformaður Viðreisnar, sagði: „Ég geri hér grein fyrir atkvæði mínu og þeirri sannfæringu minni að hér hafi verið vandað til verka, að hér sé um góðan lista að ræða og betri en þann sem hæstvirtur ráðherra fékk upphaflega í hendurnar, enda uppfyllti sá listi ekki nauðsynleg sjónarmið um jafnræði kynjanna. […] Breytingar þær sem ráðherrann gerir verður til þess að listinn mætir hvoru tveggja, skilyrðum um jafnræði kynjanna og sjónarmiðum um dómarareynslu auk þess sem allir dómararnir hafa verið metnir hæfir. Þetta eru góð vinnubrögð. Sá rökstuðningur sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er góður og ég fellst á hann. Samkvæmt minni bestu sannfæringu og samvisku. Ég segi því já.“

Hefðu sjálf leiðrétt kynjahalla

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í ræðu sinni að þingflokkur Viðreisnar hefði sjálfur leiðrétt kynjahalla hefði málið verið á þeirra ábyrgð.

Orðrétt sagði þingmaðurinn: „Þau rök hefði ég hiklaust notað hefði verið lagður til listi með óásættanlegum kynjahalla. Það hefði þingflokkur Viðreisnar gert.“

Síðar í ræðunni sagði hann svo: „Dómsmálaráðherra hefur einnig bent á að dómarareynsla væri ekki metin að verðleikum að hennar mati í matsreglum dómnefndarinnar og þeirri reikniformúlu sem stuðst var við. Þetta þykja mér ágætlega gild rök. Með allt ofangreint í huga mun ég styðja tillöguna sem hér er fjallað um.“

Erfitt er að sjá hvernig orð þingmanna Viðreisnar fara saman, annars vegar við meðferð og afgreiðslu málsins þar sem Alþingi samþykkti tillögur dómsmálaráðherra með öllum atkvæðum þingmanna Viðreisnar 1. júní 2017 og hins vegar þar sem þeir lýsa yfir vantrausti á sama dómsmálaráherra 6. mars 2018.