Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður
„Á næstu dögum mun ég leggja aftur fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag.
Benti hann í máli sínu á nýlega könnun sem birtist í Fréttablaðinu 5. mars sl. þar sem borgarbúar voru spurðir út í afstöðu sína til flugvallarins. Samkvæmt henni vilja 59% Reykvíkinga halda flugvellinum í Vatnsmýrinni og um 30% að hann fari. Aðrir eru hlutlausir. Sambærilega könnun Fréttablaðsins meðal allra landsmanna síðasta haust sýndi að um 74% Íslendinga vilji hafa flugvöllinn áfram á sama stað.
„Þannig við gefum þjóðinni möguleika á að segja já eða nei við þessari einföldu spurningu. Ég hyggst koma með þessa tillögu á næstu dögum og mun […] gefa öllum þingmönnum kost á því að vera meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu,“ sagði Njáll Trausti.
Tillagan gerir ráð fyrir að eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu:
,,Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?“
Svarmöguleikar verði „Já“ eða „Nei“.
Njáll var fyrsti flutningsmaður að sambærilegri tillögu til þingsályktunar á 146. löggjafarþingi, en þá tillögu má finna hér.