Hæfileikar til að spinna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og ritari Sjálfstæðisflokksins.

Orðfæri og framkoma þingmanna er veigamikill þáttur í því hversu mikið eða lítið traust borið er til Alþingis. Í tæpan áratug hefur það traust verið lítið og að hluta til á það sér eðlilegar skýringar.

Að stórum hluta eru skýringarnar þó ekki eðlilegar. Festa og stöðugleiki er versti óvinur sumra stjórnmálamanna og því reyna þeir sífellt að grafa undan þessum mikilvægu þáttum. Það á ekkert skylt við heilbrigðar rökræður um málefni og baráttu um hugsjónir. Það væri óskandi að hægt væri að gefa hvoru tveggja meira svigrúm, en það er stundum erfitt þegar mótaðilann skortir hvort tveggja í senn, málefni og hugsjónir.

Fyrr í þessari viku var fjallað um vopnaflutninga íslensks flugfélags á milli fyrrum ríkja Júgóslavíu og Sádi-Arabíu. Það mátti öllum vera ljóst að þar væri pottur brotinn þar sem heimild íslenskra stjórnsýslustofnana þarf til að flytja slíkan varning. Sama kvöld og fréttir birtust af málinu ákvað ég sem formaður utanríkisnefndar Alþingis að málið skyldi rætt á fundi nefndarinnar daginn eftir. Fleiri fundir hafa átt sér stað og nú þegar er hafin vinna við að laga þetta ferli, sem allir eru sammála um að þurfi að gera.

Á miðvikudag sá Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ástæðu til að vega persónulega að formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, vegna málsins. Það var ekki liðinn sólarhringur frá því að fréttir voru fluttar um málið þar til Logi sakaði Bjarna, úr ræðustóli Alþingis, um leyndarhyggju og óheiðarleg vinnubrögð. Þó höfðu undirrituð sem og utanríkisráðherra, sem bæði eru sjálfstæðismenn, fordæmt flutningana og lýst því yfir að þetta þyrfti að laga. Loga mátti vel vera ljóst, eða það skyldi maður ætla, að Bjarni hefur aldrei haft undir höndum yfirlit um fraktskýrslur íslenskra fyrirtækja. Árás Loga var því hvort í senn ómálefnaleg og án tilefnis.

Það eru svona vinnubrögð sem skerða trúverðugleika stjórnmálanna. Þeir sem mest tala um lítið traust til stjórnmálanna eru oftast þeir sem ganga hvað harðast fram í gífuryrðum og dylgjum um aðra. Þá er vinsælt að nota orð eins og leyndarhyggja, spilling eða annað verra án þess að fyrir því sé nokkur innistæða.

Í setningarræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar í gær sagði Logi að þingflokkur hans væri lítið að stressa sig á því að leggja upp leikkerfi heldur hefðu þau hæfileika til að spinna og væru rík af réttlætiskennd.

Maður ætti alltaf að setja upp varnarskjöld þegar aðrir tala um sína eigin réttlætiskennd, en látum það liggja á milli hluta í bili. Stundum væri þó betra að spinna minna og koma sér frekar upp sanngjörnum leikkerfum. Ekki til að hlífa Sjálfstæðisflokknum eða Bjarna Benediktssyni, heldur stjórnmálunum og trúverðugleika þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars