„Það þarf ekki að boða nein ótíðindi“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Ég lýsi engum áhyggjum af því þó að hagvöxtur fari niður undir um 3% og jafnvel þótt hann lægi á bilinu 2,5–3% eins og vísað var til, og var það nokkuð viðbúið“, sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í svari við óundirbúinni fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanns Pírata, á Alþingi í dag varðandi nýjustu hagspá fyrir Ísland.

„Það er líka hægt að segja að ekki sé við því að búast að í þróuðum hagkerfum eins og okkar, sérstaklega eftir mjög langt hagvaxtarskeið, haldi hagvöxtur bara áfram inn í eilífðina og langt yfir heimsmeðaltali“, sagði ráðherra og bætti við að frekar mætti búast við slíku frá nýmarkaðsríkjum og löndum sem eru að rétta úr kútnum og í mikilli innviðauppbyggingu og sókn til bættra lífskjara.

„En þegar lönd mælast með lífskjör fremst meðal þjóða eins og á við um Íslendinga er mjög vandasamt að halda vextinum jafn kraftmiklum og átt hefur við undanfarin ár“, sagði fjármálaráðherra við umræðuna.

Sagðist hann þeirrar skoðunar að Íslendingar væru að sigla inn í nokkuð breytta tíma eftir það kraftmikla hagvaxtarskeið sem hefur verið einkennandi hér undanfarið. Við ættum eftir að sjá hér meira jafnvægi, minni vöxt milli ára og „færri óvænta vinninga eins og við höfum séð.“

„Það hefur nánast verið venjan að frá því að fjárlög hafa verið lögð fram þar til næsta hagvaxtarspá birtist höfum við úr 15–20 viðbótarmilljörðum að spila fyrir komandi fjárlagaár. Ég held að því tímabili sé að ljúka, við séum að fara inn í mun rólegri tíma. Það þarf ekki að boða nein ótíðindi“, sagði fjármálaráðherra.

Bjarni sagði ríkisstjórnina leggja sérstaka áherslu á nýsköpun og þróun á komandi árum og að með því séum við að auka verðmæti, framleiðni og styðja við að vöxtur haldi áfram. Með því verði til ný verðmætaskapandi störf í samfélaginu.

„Ef maður ætti að fara út í lengra svarið myndi ég benda á að það birtist í raun og veru í ríkisfjármálaáætluninni, í fjármálastefnunni. Ríkisstjórnin getur ekki tekið að sér ein og óstudd að viðhalda stöðugleika og vexti í hagkerfinu, heldur er það sameiginlegt verkefni stjórnvalda og þá á ég við ríkisstjórn ásamt með sveitarstjórnunum í samvinnu við vinnumarkaðinn“, sagði Bjarni og bætti við að lykillinn að því að geta viðhaldið stöðugleika og vexti á Íslandi væri samspil vaxtaákvarðana, stjórn opinberra fjármála og þess sem gerist á vinnumarkaði.

Alla umræðuna má sjá hér á vef Alþingis.