Auglýst eftir framboðum til prófkjörs í Hafnarfirði

Samkvæmt ákvörðun fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði fer fram prófkjör þann 10. mars næstkomandi um val frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir sveitarstjórnarkosningar sumarið 2018.

Atkvæðisrétt í prófkjörinu hafa allir skráðir félagsmenn sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði
sem þar eru búsettir og þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eiga munu
kosningarétt í Hafnarfirði við kosningarnar og hafa undirritað inntökubeiðni í sjálfstæðisí
Hafnarfirði fyrir lok kjörfundar.

Frambjóðendur til prófkjörs skulu valdir þannig:

A. Gerð er tillaga til kjörnefndar innan framboðsfrests
sem kjörnefnd setur. Tillagan er því aðeins gild að hún sé bundin við einn
flokksmann. Enginn flokksmaður getur staðið að fleiri tillögum en sex.

B. Tillagan skal borin fram af 20 flokksmönnum búsettum í Hafnarfirði.
Kjörnefnd er heimilt að tilnefna prófkjörsframbjóðendur til viðbótar
frambjóðendum samkvæmt a-lið.

Hér með er auglýst eftir tillögum að framboðum til prófkjörs, sbr. a- og b-liði hér að ofan. Framboð skal vera bundið við flokksbundinn einstakling, enda liggi fyrir skriflegt samþykki hans um að hann gefi kost á sér til prófkjörs. Frambjóðendur skulu vera kjörgengir í sveitarstjórnarkosningunum.

Tillögum að framboðum ber að skila, ásamt mynd af viðkomandi og stuttu æviágripi á
tölvutæku formi, á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins, Valhöll, Háaleitisbraut 1, Reykjavík, eigi síðar en kl. 16.00, þriðjudaginn 20. febrúar 2018.

Um prófkjörið vísast til skipulagsreglna og prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins.

Kjörnefndin