Landsfundur 2018

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að landsfundur verði helgina 16.-18. mars 2018 í Laugardalshöll. Fundurinn hefst kl. 8:00, föstudaginn 16. mars og stendur til kl. 17:00, sunnudaginn 18. mars.

Boðað hafði verið til landsfundar 3.-5. nóvember, en vegna óvæntra alþingiskosninga var honum frestað 19. september. Var þá þegar ákveðið að fundurinn yrði haldinn á fyrsta ársfjórðungs 2018. Nú liggur fyrir ákvörðun miðstjórnar flokksins um endanlega tímasetningu fundarins.

 

Dagskrá landsfundar

Dagskrá fundarins verður með hefðbundnu sniði og í samræmi við ákvæði skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins. Rétt er þó að geta þess að laugardagskvöldið 17. mars verður efnt til hátíðarkvöldverðar, þar sem flokksfélögum gefst tækifæri til að rifja upp gömul kynni og stofna til nýrra.

Taktu þátt í landsfundi!

Þeir sem áhuga hafa á því að sitja landsfund er bent á að hafa samband við formann þess sjálfstæðisfélags sem starfar á félagssvæði viðkomandi. Formenn sjálfstæðisfélaga sjá um að taka á móti þátttökubeiðnum og koma þeim í réttan farveg. Hér má nálgast lista yfir starfandi sjálfstæðisfélög og formenn þeirra. Frekari upplýsingar veitir skrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, s. 515-1700. Rétt er að geta þess að flokksráðsmenn eru sjálfkjörnir á landsfund og þurfa því ekki að sækja sérstaklega um. Um val á landsfundarfulltrúum fer skv. 9. gr. skipulagsreglna flokksins.

Stefna flokksins mótuð

Í aðdraganda landsfundar vinna málefnanefndir flokksins að drögum að landsfundarályktunum. Á vettvangi nefndanna gefst flokksmönnum tækifæri til að koma að mótun stefnu flokksins. Starf málefnanefnda verður kynnt á heimasíðu flokksins. Á heimasíðu flokksins er jafnframt hægt að nálgast yfirlit yfir málefnanefndir flokksins og formenn þeirra.

Kosningar

Á landsfundi er forysta flokksins kjörin. Þá eru stjórnir átta málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins kjörnar þar til þess að leiða málefnastarfið milli landsfunda. Við hvetjum áhugasama eindregið til að bjóða sig fram til starfa í málefnanefnd með því að skrá framboð sitt hér. Sjá nánar um nefndir í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins. Þá má ekki gleyma því að landsfundur einn er bær til þess að breyta skipulagsreglum flokksins. Breytingatillögur að þeim ber að senda miðstjórn flokksins fyrir 9. febrúar 2018 á netfangið landsfundur@xd.is

Tilboð fyrir landsfundargesti

Landsfundargestum munu bjóðast tilboð í tengslum við þátttöku á fundinum og verða þau auglýst þegar þau eru tilbúin.

Um landsfund

Landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af hundruðum fulltrúa. Hann er stærsta reglulega stjórnmálasamkunda á Íslandi og störf hans hafa mikil áhrif, bæði inn í stjórnmálin en einnig út á við til þjóðarinnar.