Stefnuræða forsætisráðherra
13. september 2017
Hæstvirtur forseti, góðir landsmenn.
I.
Í kvöld munu þingmenn ræða komandi þingvetur. Við munum horfa á hlutina frá ólíkum sjónarhólum og leggja út af þeim á mismunandi hátt.
Þetta er hluti af hinu pólitíska landslagi og hefur sennilega alltaf verið. Það væri líka til lítils unnið að stefna saman 63 þingmönnum í þennan sal sem væru sammála um alla hluti. Það er í raun eðli lýðræðisins og um leið tilgangur Alþingis, að mynda suðupott ólíkra skoðana og leiða fram málefnalega niðurstöðu.
Ég mun meðal annars ræða heilbrigðismál, kjara- og skattamál, lífeyrismál og aldraða, efnahagsmál og veikleika á vinnumarkaði, sóknarfæri og framtíð ungra Íslendinga sem munu búa við allt annan veruleika í víðu samhengi en fyrri kynslóðir.
Ég mun segja ykkur að við stöndum styrkum fótum og sennilega aldrei sterkar. Að við höfum gert margt vel en getum gert betur. Að það felist mikil ábyrgð í því að spila úr þessari góðu stöðu.
II.
Um þessar mundir eru staða og horfur í efnahagsmálum einstaklega góðar.
Sterkir fiskistofnar og mikill fjöldi ferðamanna, betri viðskiptakjör á erlendum mörkuðum og farsæl lausn á slitabúum og aflandskrónuvandanum hefur styrkt efnahaginn og leyst mikinn kraft úr læðingi. Styrkur krónunnar hefur haldið verðlagi í skefjum þrátt fyrir miklar launahækkanir og skapað áður óþekktan kaupmátt launa.
Það er þess vegna fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið hvernig okkur tekst að viðhalda þeim mikla árangri sem við höfum náð. Við vitum að engin leið er að koma í veg fyrir sveiflur í náttúrunni. Við höfum upplifað það í gegnum tíðina. Eða óstöðugleika í alþjóðamálum, versnandi viðskiptakjör eða aðrar utanaðkomandi aðstæður. Við getum einungis þakkað fyrir að eins og sakir standa leggjast flestir þættir með okkur.
Svigrúm í ríkisfjármálum síðustu árin hefur einkum verið nýtt til að greiða upp skuldir og auka útgjöld til velferðarmála. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 400 milljarða á síðustu þremur árum auk þess sem greitt hefur verið inn á lífeyrisskuldbindingar.
Á sama tíma höfum við styrkt velferð í landinu. Síðustu þrjú árin hafa útgjöld til velferðarmála aukist um yfir 50 milljarða króna. Við munum halda áfram á þessari braut. Ríkisstjórnin starfar eftir þeirri skýru stefnu að efla félagslega innviði.
Það verður hins vegar að hafa þolinmæði til að byggja innviðina upp og það þarf að gerast í samræmi við efni og aðstæður hverju sinni.
Á síðasta ári náðist ágæt samstaða á þingi um verulega bætt kjör aldraðra. Bætur almannatrygginga hækkuðu mikið á yfirstandandi ári og um næstu áramót munu greiðslur til ellilífeyrisþega frá Tryggingastofnun ná 300 þúsund krónum á mánuði. Árið 2015 var þessi sama greiðsla 225 þúsund krónur. Á föstu verðlagi er þetta 25% hækkun á einungis þremur árum.
Þetta er að sjálfsögðu veruleg kjarabót á skömmum tíma. Hún byggir á árangri í efnahagsmálum. Ev við vitum á sama tíma að enn er verk að vinna. Ríkisstjórnin hefur sett í forgang að lyfta skerðingarþakinu vegna atvinnutekna á kjörtímabilinu.
III.
Það er sérstakt gleðiefni að nú stefni loks í að á vormánuðum verði tekin fyrsta skóflustungan að meðferðarkjarna nýs Landspítala.
Það er samt sem áður ljóst að þessi mikla fjárfesting dugir ekki ein til. Álag á sjúkrastofnanir mun ekki hverfa með þessari skóflustungu.
Við þurfum að efla uppbyggingu á þjónustu við aldraða sem hafa lagt mikið til þess góða árangurs sem íslenskt samfélag hefur náð á liðnum áratugum. Við þurfum að efla þjónustu við kynslóðina sem lagði grunninn að því sem við tökum í dag sem sjálfsögðum hlut, samgöngu-, mennta- og heilbrigðiskerfi svo eitthvað sé nefnt.
Við þurfum að gera gangskör að uppbyggingu hjúkrunarheimila. Slík fjárfesting mun að endingu ekki eingöngu gagnast öldruðum heldur einnig minnka álag á sjúkrastofnanir og greiða götu annarra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu á Íslandi að halda. Góð heilbrigðisþjónusta og jafnt aðgengi allra landsmanna er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar.
IV.
Þótt okkur Íslendingum hafi um margt gengið vel að stjórna málum á undanförnum áratugum og árangur náðst á mikilvægum sviðum, er það engu að síður svo að gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði okkur fjötur um fót. Við stöndum þar nálægum þjóðum langt að baki. Vítin til að varast eru svo mörg að það er ótrúlegt að við skulum leyfa okkur að halda uppteknum hætti.
Áttundi og níundi áratugurinn voru samfelld sorgarsaga víxlhækkana launa og verðlags. Þjóðarsáttarsamningarnir leiddu til betri vinnubragða og verðbólga var minni, en engu að síður hækkuðu laun og verðlag umtalsvert meira en hjá viðskiptaþjóðum okkar. Á síðustu árum hafa launahækkanir náð nýjum hæðum en samspil ýmissa þátta hefur enn sem komið er komið í veg fyrir að sá árangur tapaðist á verðbólgubáli.
Þegar við leitum góðra fordæma í öðrum löndum sjáum við að það er grundvallaratriði kjaraviðræðna á að hefja samtalið á því að sammælast um hve mikið laun geta hækkað heilt yfir svo stutt sé við efnahagslegan stöðugleika. Enginn vísir er að slíku samkomulagi hér á landi eftir að það er orðin sérstök íþrótt að tala niður SALEK samkomulagið og lýsa yfir andláti þess.
Í upphafi þeirra kjaraviðræðnalotu sem fram undan er hefur ríkisstjórnin óskað eftir samstöðu við opinber stéttarfélög um sterkan kaupmátt. Í því felst m.a. hvernig ríkið getur laðað til sín og haldið í hæft starfsfólk, t.d. með skoðun á vinnutilhögun og öðrum þáttum í vinnuumhverfi sem skipta launþega sífellt meira máli. Í þessu felast tækifæri til betri lífskjara.
Framundan eru mikilvægir samningar á vinnumarkaði. Það gera sér allir grein fyrir þessu. Allir aðilar verða að rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir með sama hætti. Augljóst er að ábyrgð fylgir því að semja, en rétturinn til að semja ekki er líka mjög vandmeðfarinn.
Þegar farið er út af sporinu í kjaraviðræðum á Íslandi með samningum sem þykja ekki samræmast stöðugleika hefst samkvæmisleikur sem við gætum kallað: Hver er sökudólgurinn? Hversu oft ætli við höfum tekið leikinn í þessum sal, að finna sökudólginn?
En það er allt of mikil einföldun að skella skuldinni á kröfugerð launþega, einstaka atvinnurekendur, eða eftir atvikum ríkisstjórn eða sveitarfélög sem látið hafa undan þrýstingi um samninga, þegar aðferðafræðin við að leiða fram niðurstöðu er jafn gölluð og raun ber vitni.
Leitin að sökudólgnum beinir sjónum frá aðalatriðinu, sem er að vinnumarkaðslíkanið er í raun ónýtt. Þetta eru stór orð. En hver getur mótmælt þessu þegar hver höndin er uppi á móti annarri, nær engin samvinna til staðar og skipulagið tilviljanakennt og breytilegt frá einum kjaraviðræðum til þeirra næstu.
Það hvað okkur hefur lítið miðað síðustu árin við að bæta úr þessu er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála um þessar mundir.
Þar sem tekist hefur að halda verðbólgu í skefjum um langt skeið hafa allir launþegar notið góðs af launaþróun síðustu ára. Tölur sýna að langtímalaunaþróun hefur verið svipuð á milli einstakra hópa, en í höfrungahlaupinu kemur hvert stéttarfélag með sína útgáfu af stöðunni.
Nú verðum við að ná meiri samstöðu um viðmiðunartímabil, bætta launatölfræði og umgjörð utan um kjarasamning. Við þurfum að koma betra skipulagi á kjaraviðræður þar sem samkeppnishæfni þjóðarbúsins er ráðandi um það svigrúm sem kjarasamningar byggjast á.
V.
Nýlega kom út skýrsla um skattbyrði launafólks frá því um aldamótin. Niðurstaða hennar var að skattbyrði hefði aukist, sér í lagi hjá þeim tekjulægstu. Þetta kann að vera rétt en breytir ekki því að annað sjónarhorn segir miklu meiri sögu. Við mælum framfarir og lífskjarasókn mun betur með því að horfa á þróun ráðstöfunartekna en skattbyrði.
Frá árinu 1998 hafa ráðstöfunartekjur sambúðaraðila á lágmarkslaunum með tvö börn hækkað um um það bil þriðjung á föstu verðlagi. Það er sem sagt mun auðveldara að framfleyta sér í dag en árið 1998. Jafnvel þótt hægt sé að sýna fram á að skattbyrði einstakra tekjuhópa hafi breyst til hins verra. Ég leyfi mér að benda á þetta því það sem skiptir máli fyrir velferð launafólks er ekki fjárhæð bóta eða skattbyrðiprósentur – heldur þær krónur sem það hefur milli handanna.
Krónunum hefur fjölgað. Kjörin hafa stórbatnað. Og þau hafa batnað með svipuðum hætti hjá öllum tekjuhópum.
Klisjan um vaxandi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræðunni. Staðreyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt árlegri úttekt OECD á jöfnuði meðal þjóða. En því er engu að síður haldið fram að launaójöfnuður sé sjálfstætt vandamál og vaxandi. Sá málflutningur stenst enga skoðun eins og niðurstöður OECD bera skýrt með sér.
Það væri nær að beina sjónum að tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar á störfum sem standa undir hærri launagreiðslum. Sterkari samkeppnishæfni landsins mun skila sér í betri kjörum allra, ekki síst launalægstu hópanna.
VI.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þetta þing eru vel á annað hundrað þingmál. Allt frá peningastefnu og heilbrigðismálum, til persónuverndar og sviðslista. Slíkur fjöldi getur gert torvelt að sjá skóginn fyrir trjánum. Stóra myndin er sú að samfélög standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði umhverfis, loftlags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis.
Sökum örrar þróunar á rannsóknum og tækni er nú stundum talað um fjórðu iðnbyltinguna. Breytingarnar munu að öllum líkindum hafa grundvallaráhrif á lífshætti fólks, atvinnu, frístundir og hvernig fólk tengist hvert öðru. Það er okkur nauðsynlegt að hafa augun á þessari þróun og aðlaga samfélagið að þessum breytingum. Í því felast tækifæri okkar.
Það er lykilatriði fyrir íslenskt samfélag að undirbúa þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi til þess að takast á við breytt samfélag og vinnumarkað. Ljóst er að ríflega þriðjungur starfa á vinnumarkaði mun breytast mikið eða jafnvel hverfa. Það er jafnfram ljóst að í stað þeirra starfa munu ný störf verða til, störf sem munu krefjast annarrar kunnáttu sem mikilvægt er að við búum komandi kynslóðir undir.
Framþróun og breytingar í menntamálum verða miklar á komandi árum. Hér skiptir öllu að Alþingi og stjórnvöld varði leiðina, sýni raunverulegt þor við að endurskoða menntakerfið og skapa með því nauðsynleg tækifæri fyrir komandi kynslóðir í nýjum veruleika.
En þessar breytingar munu ekki einvörðungu snerta börnin okkar og framtíð þeirra. Það er ljóst að stærstu fyrirsjáanlegu breytingar næstu ára munu einnig koma við þá sem eru nú þegar á vinnumarkaðnum. Starfsfólk á ýmsum sviðum mun á komandi árum og áratugum þurfa að bæta við þekkingu og hæfni sína til að fylgja straumi nýrra tíma.
Hér reynir mikið á stjórnvöld, atvinnulífið, verkalýðshreyfinguna og menntakerfið. Þessi þróun er og verður mikil áskorun, áskorun sem við verðum að rísa undir og leggja til tíma, kraft og fjármuni.
VII.
Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar eru jafnvægi og framsýni.
Ríkisstjórnin stundar ábyrg stjórnmál. Hún leggur áherslu á öfluga uppbyggingu innviða og velferðarmála, góðan rekstur ríkisins og að Ísland sé virkur og vel metinn þátttakandi í alþjóðasamfélaginu.
Í augum umheimsins er Ísland fyrirmyndarsamfélag þar sem efnahagsleg velferð er mikil, gæðunum jafnar skipt en annars staðar og jafnrétti og umbyrðarlyndi ríkir.
Ég hlakka til vetrarins og fjölbreyttra viðfangsefna sem bíða. Til samstarfs við fólkið í landinu, við vinnumarkaðinn, við stjórnmálaflokkana og þingmenn þeirra.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að verja þennan góða árangur sem við höfum náð.
Á næsta ári fögnum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Við ætlum að sækja fram og um leið búa í haginn fyrir framtíðina – grípa tækifærin sem hún ber í skauti sér, með viðlíka hætti og þeir sem í upphafi lögðu grunninn að fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.
Þannig tryggjum við bestu mögulegu lífskjör fyrir alla Íslendinga í bráð og lengd.