Vörður efnir til leiðtogaprófkjörs

Vörður – fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík samþykkti á fjölmennum fundi í Valhöll í kvöld tillögu um að efna til leiðtogaprófkjörs og í kjölfarið stilla upp á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í samræmi við skipulagsreglur og prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins.

Um var að ræða breytingartillögu, við tillögu stjórnar Varðar, sem lögð var fram af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra en breytingartillagan fól jafnframt í sér að skipaður yrði starfshópur um framkvæmd prófkjörs og uppstillingar sem einnig mun gera tillögu að dagsetningu. Niðurstaða hópsins verður borin undir fulltrúaráðsfund í lok september.