Sigríður Á. Andersen segir nýju flokkana eiga erfitt með að gera málamiðlanir

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir nýjustu flokkana á Alþingi eina ástæðu þess hve erfiðlega hafi gengið að mynda stjórn. Um sé að ræða nokkurs konar eins máls flokka sem eigi erfitt með að gera málamiðlanir.

„Þegar menn fara í framboð bara með eitthvað eitt mál, sem þeir auðvitað kalla „mikilvægt mál“ eða þungamál, þá er erfitt að fara í málamiðlanir,“ sagði Sigríður, en hún var til viðtals í Bítinu í morgun ásamt Björtu Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar.

Sigríður sagði að eina mál Pírata væri að „rústa“ stjórnarskránni, og að Viðreisn hefði lagt upp með Evrópusambandsmál í kosningabaráttunni, en snúið sér að sjávarútvegsmálum þegar flokkurinn hafi áttað sig á að Evrópumál hafi ekki verið til vinsælda fallin. Þá sé Björt framtíð klofningsflokkur út úr Samfylkingunni sem hafi lagt áherslu á Evrópusambandið til að byrja með.

„Niðurstaða kosninganna er alveg ljós. Menn voru ekki að kalla eftir einhverjum róttækum byltingum á einu sviði eða öðru. Og menn eru örugglega ekki að kalla eftir Evrópusambandsmálinu og menn eru örugglega ekki að kalla eftir því að það sé verið að rústa stjórnarskránni,“ segir hún.

Viðtalið má nálgast hér.