Fjárlagafrumvarp 2017 lagt fram

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 hefur verið lagt fram á Alþingi, í samræmi við fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára, sem samþykktar voru í ágúst sl. og byggjast á nýrri löggjöf um opinber fjármál.

Í frumvarpinu fyrir árið 2017 er áfram byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með hallalausum fjárlögum undanfarin þrjú ár. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað ár frá ári eftir að sjálfvirk skuldasöfnun var stöðvuð með fjárlögum ársins 2014 og er fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 það fjórða í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarafkoman skili afgangi sem nemi 28,4 ma.kr. Það er nær óbreytt útkoma fyrir ríkisreksturinn og frá fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sem lögð var fram sl. vor, eða um 1% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Afgangur á frumjöfnuði er verulegur eða 90,9 ma.kr.

Frumvarpið er byggt á fjármálastefnu 2017-2021, sem Alþingi samþykkt í ágúst sl., en að auki er í því tekið tillit til eftirfarandi:

  • Fjárhagsáhrifa sem leiða af nýjum eða breyttum lögum, sem Alþingi hefur samþykkt.
  • Ákvarðana ríkisstjórnarinnar um nokkur ný málefni sem taka þurfti afstöðu til eftir að fjármálaáætlun var lögð fram sl. vor og fram að kosningum til Alþingis.
  • Annarra áætlaðra útgjaldabreytinga sem ríkissjóður er að óbreyttu skuldbundinn til að fjármagna.

Áhersla á heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál

Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur auknum framlögum úr ríkissjóði verið varið til að efla og bæta þjónustu velferðarkerfisins og er vöxtur útgjalda á árinu um 5%. Á föstu verð­lagi eru frumgjöld orðin 7% hærri í ár en árið 2006.  Í fjármálaáætlun var myndað sérstakt útgjaldasvigrúm fyrir rekstur og tilfærslur sem nema um 14 ma.kr. Sérstakan forgang fá heilbrigðis-, menntamál og löggæsla.

Helstu útgjaldamál í fjárlagafrumvarpi 2017:

  • Heildarframlög á nafnvirði til löggæslumála fara úr 11,8 ma.kr. árið 2015 í 13,7 ma.kr. á næsta ári.
  • Breytingar á lögum um almannatryggingar, sameining bótaflokka ellilífeyrisþega í einn grunnlífeyri o.fl. – samtals 11,1 ma.kr.
  •  Aukin rekstrarframlög til heilbrigðismála, þar af aukin framlög til styrkingar á rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslu hátt í 4 ma.kr. og 1,5 ma.kr. vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila – samtals 7,3 ma.kr.
  • Hækkun iðgjalda launagreiðenda til A-deildar LSR úr 11,5% í 15,1% frá og með næstu áramótum – samtals 4,5 ma.kr.
  • Aukning útgjalda til mennta- og menningarmála, s.s. vegna styrkingar á rekstrargrunni háskóla og framhaldsskóla, auk þess sem veitt er framlag til listaframhaldsskóla til eflingar tónlisarfræðslu – samtals  2,5 ma.kr.
  • Nýr rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins –  samtals 1,1 ma.kr 
  • Nýtt húsnæðisbótakerfi sem tekur gildi frá og með næstu áramótum – heildarumfang kerfisins verður um 6,5 ma.kr. en aukin framlög nema 785 m.kr. í frumvarpinu –  samtals 0,8 ma.kr.
  • Byggðar- og sóknaráætlanir landshluta – samtals 0,5 ma.kr.
  • Fjárhæðir og tekjuviðmiðunarmörk barnabóta ásamt eignamörkum vegna vaxtabóta hækkuð þannig að framlög milli áranna 2016 og 2017 haldist áfram óbreytt.

Þessu til viðbótar er á árunum 2018-2021 gert ráð fyrir frekara árlegu útgjaldasvigrúmi og fer það stighækkandi um 7 ma.kr. á ári. Samanlegt er svigrúmið á árunum 2017-2021 42 ma.kr.

Þá koma til ný og aukin fjárfestingar- og framkvæmdaverkefni í fjárlagafrumvarpi 2017 til samræmis við fjárfestingarsvigrúm fjármálaáætlunar. Þar má nefna:

  • Framlög vegna byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila á árunum 2016-2018 –  samtals 1,2 ma.kr.
  • Bygging nýrrar Vestmannaeyjaferju – samtals 1,1 ma.kr (4,4 ma.kr. heildarkostnaður á 3 árum).
  • Aukin framlög til almennra vegaframkvæmda – samtals 1 ma.kr.

Árangur í efnahags- og ríkisfjármálum 2014-2016

Stefna stjórnvalda undanfarin ár hefur byggst á ábyrgri stýringu ríkisfjármála og langtímasýn, með ráðdeild og skynsamlega nýtingu sam­eiginlegra fjármuna landsmanna að leiðarljósi. Með markvissum aðgerðum hefur tekist að ná jafnvægi í ríkisfjármálum:

  • Samanlagður heildarafgangur ríkissjóðs fyrir árin 2014-2016 verður um 96 ma.kr. (án stöðugleikaframlaga).
  • Heildarskuldir ríkissjóðs fara úr 60% af VLF árið 2015 í 39% í árslok 2017. Hlutfallið verði 29% í árslok 2021.
  •  Vaxtagjöld ríkissjóðs lækka úr 79 ma.kr. árið 2015 í 69 ma.kr. árið 2017. Það er lækkun árlegra vaxtagjalda um 10 ma.kr. á ári á aðeins tveimur árum.

Á síðustu árum hafa skapast forsendur fyrir skatta­lækkunum og breytingum til að auka skilvirkni skattkerfisins. Stefnan hefur verið að ein­falda skattkerfið, draga almennt úr undanþágum og auka jafnræði. Eftirfarandi ráðstafanir hafa á undanförnum miss­erum stutt við kaupmáttaraukningu almennings og skilað sér til heimilanna:

  • Tekjuskattur einstaklinga lækkaður í tveimur áföngum árin 2014-2017.
  • Áhersla á að létta skattbyrði af tekjulægri einstaklingum og fækka skattþrepum.
  • Almenn vörugjöld afnumin árið 2015.
  • Allir tollar nema af tilteknum matvörum lagðir niður á tveimur áföngum á þessu ári og því næsta.
  •  Tryggingagjald lækkað um 0,84%.
  • VSK-kerfinu breytt í átt að meiri skilvirkni og einföldun.

Forgangsraðað í þágu almannatrygginga, heilbrigðis- og menntamála       

Á árunum 2014 og 2015 var hóflegt aðhald í vexti frumútgjalda. Auknum fjármunum var sérstak­lega forgangsraðað í þágu almannatrygginga, heilbrigðis- og menntamála í kjölfar umtals­verðra aðhaldsráðstafana á útgjaldahlið ríkissjóðs á árunum 2009–2012. Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur auknum framlögum úr ríkissjóði verið varið til að efla og bæta þjónustu velferðarkerfisins og er vöxtur útgjalda á árinu um 5%. Á föstu verð­lagi eru frumgjöld orðin 7% hærri í ár en árið 2006.

  • Útgjöld til heilbrigðismála aukin um 38,5 ma.kr. á árunum 2014-2016 – 16% raunaukning.
  • Heildarútgjöld framhaldsskólastigsins hafa aukist um 25% að raungildi á árunum 2013-2016.
  • Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskóla aukist um 36% að raungildi frá árinu 2013 fram til ársins 2021 – það jafngildir ríflega 70% aukningu á hvern nemanda á tímabilinu.
  • Rekstrarframlög háskóla­stigsins hækki að raunvirði um 37% á hvern ársnemanda á árunum 2013–2021.
  • Framlög til rannsókna og tæknimála í sam­keppnissjóðum jukust um ríflega 60% að raunvirði á tímabilinu 2013–2016.
  • Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að þau aukist áfram um 5% að raunvirði frá 2017–2021.
  • Ný lög um almannatryggingar hækka ellilífeyrisgreiðslur umtalsvert. Þau fela einnig í sér sveigjanlegri starfslok, stuðla að virkari atvinnuþátttöku og einfalda og sam­ræma réttindi og reglur í almannatryggingum og almenna lífeyrissjóðskerfinu.
  • Breytingar á almanna­tryggingum og frítekjumarki ellilífeyrisþega auka útgjöld ríkissjóðs um samtals 11 ma.kr. á næsta ári og eru viðbótarskuldbinding sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni.

 Efnahagsleg endurreisn vel á veg komin

Efnahagsleg endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins haustið 2008 er vel á veg komin og hagspár fyrir næstu ár eru hagfelldar. Þó eru þenslumerki í hagkerfinu sem krefjast agaðrar hagstjórnar og kalla á réttar áherslur í opinberum fjármálum í heild. Áfram verður því þörf fyrir aðhaldssama stefnu um vöxt ríkisútgjalda til að auka afganginn og greiða niður skuldir.

Á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og jafnvægis í ríkisfjármálum verður áfram hægt að sækja fram á við til bættra lífskjara og frekari styrkingar velferðarsamfélagsins í þágu allra landsmanna. Það er megininntak fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2017.

Frumvarp við óvenjulegar aðstæður

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 er lagt fram við óvenjulegar aðstæður.  Samkvæmt 42. grein stjórnarskrárinnar ber að leggja frumvarpið fyrir Alþingi þegar þing kemur saman. Þá segir í 1. grein þingskapalaga Alþingis að samkomudagur þingsins sé annar þriðjudagur í september. Í vor var ákveðið  að flýta kosningum til Alþingis til haustsins og voru kosningar haldnar 29. október. Frá þeim tíma hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn. Fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp fyrir hönd starfsstjórnar en ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum, að því er stjórnarskráin kveður á um.  Því er nauðsynlegt að fjárheimildir fyrir komandi ár verði afgreiddar fyrir áramót.

 Frumvarpið og ný löggjöf um opinber fjármál

Í ágúst sl. samþykkti Alþingi í fyrsta sinn fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál. Stefnan og áætlunin eru þingsályktanir sem áskilið er í lögunum að lagðar séu til grundvallar við fjárlagagerð. Þar endurspeglast markmið og áherslur ríkisstjórnarinnar um hagstjórnarleg áhrif opinberra fjármála, skattastefnu og forgangsröð útgjalda. Í fjármálaáætlun er útgjöldum skipt eftir málefnasviðum miðað við fyrirliggjandi forsendur og hagspár.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 byggist í öllum meginatriðum á þeirri fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti.

Vakin er athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins er www.fjarlog.is (http://www.fjarlog.is).