Donald Trump, Nató og Ísland

Verði Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember næstkomandi má búast við stefnubreytingu Bandaríkjanna hvað varðar Nató sem eru mjög óheillavænlegar að mínu mati.  Trump lýsti því yfir við dagblaðið The New York Times og var því slegið upp í fjölmiðlum vestahafs að hann myndi hugsa sig tvisvar um áður en hann fyrirskipaði bandaríska hernum að verja bandalagsríki NATÓ.  Hann myndi til dæmis fyrst gera athugun á því hvað viðkomandi aðildarríkjanna legði fram til bandalagsins áður en Bandaríkjamenn skærust í leikinn, væri hann forseti.

Megin grein Nató sáttmálans í uppnámi 
Þessi ummæli hafa óneitanlega komið illa við margar ríkisstjórnin innan Nató, enda óttinn við frekari yfirgang Rússa mikill, sérstaklega í nágrannríkjunum eins og  Eystrasaltslöndunum.  Yfirlýsingar Trump ganga þvert gegn fimmtu grein stofnsáttmála Nató frá árinu 1949, þar sem Ísland var eitt 12 stofnríkjanna. Fimmta grein segir að árás á á eitt bandalagsríki í Evrópu eða Norður-Ameríku jafngildi árás á þau öll. Þetta er mikilvægasta grein sáttmálans, hornsteinn samvinnu vestrænna ríkja í varnarmálum.  Það  gefur auga leið að greininni var sérstaklega beint gegn yfirgangi Sovétríkjanna á þeim tíma.  Innrás inn í Vestur-Evrópu jafngilti stríðsyfirlýsingu við Bandaríkjin með allan hernaðarmátt þeirra.  Dagana eftir yfirlýsingar Trump stigu mjög margir málsmetandi menn í Bandaríkjunum fram og fordæmdu yfirlýsingar hans.  Bandaríkjamenn hefðu sömu hagsmuni og fyrr að styðja og styrkja Nató með öllum sínum mætti.
Trump og tvíhliða varnarsamstarf við Ísland

Væri Trump forseti Bandaríkjanna og Rússar reyndu innrás í Eystrasaltsríkin, svo dæmi sé tekið, mynd Trump, samkvæmt yfirlýsingum hans sjálfs,  meta fyrst hvort hann teldi framlag Eystrasaltslandanna nægilegt til sameiginlegra varna Nató áður en hann teldi sig þurfa að heiðra 5. grein sáttmálans.  Í framhaldinu hlýtur sú spurning að vakna hvað Ísland varðar hvort Trump myndi sem forseti vilja framhalda tvíhliða varnasamstarfi landanna? Það er alls óvíst miðað við þessar yfirlýsingar hans.

Ég heimsótti nýlega höfuðstöðvar Nató í Brussel ásamt nokkrum öðrum þingmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis. Áttum þar viðræður við hásetta ráðamenn bandalagsins frá ýmsum löndum. Öllum er ljóst að Bandaríkin eru hryggjarstykkið í Nató og með kjöri Trump skapaðist mikil óvissa um grundvallar öryggismál álfunnar.  Sú óvissa næði að sjálfsögðu einnig til okkar Íslendinga, eins og áður er getið.