Saga flokksins

Saga Sjálfstæðisflokksins – saga frelsis og þjóðar
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí 1929 við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Fyrsti formaður flokksins var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar borgarstjóri í Reykjavík. Hann gegndi því embætti til 1934 þegar Ólafur Thors tók við. Því næst var formaður dr. Bjarni Benediktsson 1961-1970, þá Jóhann Hafstein til 1973, næstur Geir Hallgrímsson til 1983, Þorsteinn Pálsson til 1991, Davíð Oddsson til 2005 og Geir H. Haarde var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2005-2009.  Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 29. mars 2009.  Hann var endurkjörinn formaður á landsfundum 2010, 2011, 2013, 2015, 2018 og 2022.

Í 22 ríkisstjórnum af 31
Flokkurinn hefur frá stofnun verið sú stjórnmálahreyfing landsins sem notið hefur mests fylgis og komið að landsstjórninni í 22 af þeirri 31 ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá stofnun hans og veitt 15 þeirra forystu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka átt mikinn stuðning í bæjar- og sveitarfélögum eða tæplega 45% meðalfylgi frá stofnun og kjörnir fulltrúar hans hafa látið verulega að sér kveða á þeim vettvangi. Í Reykjavík hafði flokkurinn hreinan meirihluta um áratuga skeið, allt til 1978 og aftur 1982 til 1994.

Frelsi og alþjóðleg samvinna
Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi barist fyrir atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins, afnámi hvers kyns hafta, samvinnu við aðrar þjóðir og fleiri framfaramálum sem hafa haft afgerandi áhrif á hag þjóðarinnar og lagt grunn að þeirri hagsæld sem hún býr við í dag.

Barátta gegn óréttlátri kjördæmaskipan
Fyrstu 10 árin var Sjálfstæðisflokkurinn lengst af í stjórnarandstöðu, ef undanskilið er tímabilið frá miðju ári 1932 til miðs árs 1934, þegar flokkurinn tók þátt í ríkisstjórn í fyrsta sinn. Aðalviðfangsefni hennar var að koma á umbótum á kjördæmaskipan landsins, er var orðin mjög úrelt og óréttlát. Flokkurinn hefur ítrekað síðan barist fyrir umbótum og auknu réttlæti í þeim efnum.

Fyrsta ríkisstjórn Ólafs Thors
Sjálfstæðisflokkurinn féllst á að taka þátt í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum, þjóðstjórninni, undir forsæti Hermanns Jónassonar í aprílmánuði árið 19 39. Miklar deilur urðu innan flokksins um myndun stjórnarinnar og þátttöku í henni. Þegar heimsstyrjöldin síðari skall á kom í ljós að það varð þjóðinni til láns að allir helstu flokkar hennar höfðu sameinast um stjórn landsins. Þá þurfti að taka margar örlagaríkar ákvarðanir, sem mikilsvert var að sem mest eining ríkti um, svo sem er Íslendingar tóku í sínar hendur meðferð konungsvaldsins og utanríkismála við hernám Þjóðverja á Danmörku í aprílmánuði 1940. Upp úr þjóðstjórnarsamstarfinu slitnaði 1942 og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndaði fyrstu ríkisstjórnina undir forsæti Sjálfstæðisflokksins.

Lýðveldi stofnað 1944
Þegar minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins lét af völdum í desember 1942 eftir hálfs árs starf, hafði, auk kjördæmabreytingarinnar, náð fram að ganga breyting á stjórnarskránni, sem greiddi fyrir stofnun lýðveldisins. Með stofnun þess hinn 17. júní 1944 var náð því markmiði, sem sett var í fyrstu stefnuskrá flokksins. Óhætt er að fullyrða að í aðdraganda þess hafi Sjálfstæðisflokkurinn gegnt forystuhlutverki og af hans hálfu lögðu þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson þyngstu lóðin á vogarskálarnar.

Uppbygging fiskveiða
Í október 1944 leiddi Ólafur Thors Sjálfstæðisflokkinn til forystu í nýsköpunarstjórninni svokölluðu en aðalverkefni hennar var uppbygging framleiðslutækja landsins með höfuðáherslu á aukningu fiskveiða og iðnaðar.

Aðild að NATO 1949 undir forystu Bjarna Benediktssonar
Eitt þýðingarmesta málið í stjórnmálum landsins á 20. öld var ákvörðunin um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949. Bjarni Benediktsson, sem fór með utanríkismálin í stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, formanns Alþýðuflokksins, er var mynduð 1947, hafði forgöngu um undirbúning og athugun málsins af hálfu Íslendinga. Með ákvörðuninni um aðild að Atlantshafsbandalaginu skipuðu Íslendingar sér í sveit vestrænna lýðræðisþjóða.

Barátta gegn höftum og skerðingu athafnafrelsis
Ríkisstjórnin náði ekki árin 1947-1949 jafnfarsælum árangri í efnahagsmálum sem utanríkismálum. Haftastefna í innflutnings- og fjárfestingarmálum var í hámarki. Allur innflutningur til landsins var háður leyfum. Allar helstu neysluvörur almennings voru skammtaðar og fólk þurfti að standa í biðröðum til að fá skömmtunarvörurnar. Sjálfstæðisflokkurinn bar að sínu leyti ábyrgð á þessari stjórn en við kosningar í október 1949 skar hann upp herör gegn haftastefnunni og þeirri skerðingu á athafnafrelsi einstaklinganna, sem af henni leiddi.

Leiðrétting á gengi krónunnar
Þegar ekki tókst að mynda meirihlutastjórn eftir kosningarnar 1949, tók Ólafur Thors að sér myndun minnihlutastjórnar Sjálfstæðisflokksins, sem undirbjó róttækar ráðstafanir til að hrinda í framkvæmd stefnu flokksins. Samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins undir forsæti Steingríms Steinþórssonar, sem tók við völdum í mars 1950, lagði einna mesta áherslu á leiðréttingu á gengisskráningu íslensku krónunnar.

Stækkun landhelginnar og viðurkenning Breta
Merkasta verk stjórnartímabilsins eftir 1950 var tvímælalaust stækkun fiskveiðilandhelginnar árið 1952 með friðun fjarða og flóa og útfærslu úr þremur mílum í fjórar. Næsta stækkun landhelginnar var svo í tíð vinstri stjórnar Framsóknarflokksins, Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins árið 1958, er fiskveiðitakmörkin voru færð út í 12 mílur. Árið 1961 tókst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks að afla viðurkenningar Breta á 12 mílna fiskveiðilandhelginni og tryggja hana þannig í framkvæmd. Þetta samkomulag við Breta hefur verið kallað einn mesti stjórnmálasigur Íslendinga bæði fyrr og síðar.

Rafvæðing, veðlánakerfi og aflétting fjárfestingarhamla
Eftir kosningarnar 1953 myndaði Sjálfstæðisflokkurinn enn samsteypustjórn með Framsóknarflokknum, nú undir forystu Ólafs Thors. Höfuðverkefni þessarar stjórnar var m.a. 10 ára rafvæðingaráætlun og komið var á fót almennu veðlánakerfi til íbúðabygginga. Fjárfestingarhömlum var létt að nokkru en órói var á vinnumarkaðnum og verkföll 1955 stofnuðu til þeirra vandamála, sem erfitt reyndist að leysa í því stjórnarsamstarfi sem um var að ræða. Framsóknarflokkurinn rauf stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn á árinu 1956 og vinstri stjórn tók við.

Efnahagsmál í öngþveiti 1956-1959
Á valdatíma vinstri stjórnar 1956-1958 seig verulega á ógæfuhlið. Gjaldeyrisskortur var mikill og höft voru aukin. Þegar hún lét af völdum eftir rúmlega hálfnað kjörtímabil voru efnahagsmál þjóðarinnar komin í algjört öngþveiti. Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Emils Jónssonar, sem Sjálfstæðisflokkurinn féllst á að verja vantrausti, tókst að halda í horfinu í efnahagsmálum meðan unnið var að breytingum á kjördæmaskipulaginu og þar til viðreisnarstjórnin tók við völdum í nóvember 1959.

Aukið viðskipta- og athafnafrelsi
Viðreisnarstjórninni, undir forsæti Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, tókst að stórauka viðskipta- og athafnafrelsið í landinu svo að fullyrða má að ekki hafi ríkt jafnmikið frjálsræði í þessum efnum hér á landi í marga áratugi. Þá hófst uppbygging stórvirkjana og orkufreks iðnaðar í samstarfi við erlenda aðila og Íslendingar gengu í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, 1970. Þegar viðreisnarstjórnin fór frá völdum 1971 og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins, tók við var það talið eitt helsta afrek hennar að hafa siglt klakklaust í gegnum efnahagserfiðleikana frá 1967 til 1969.

Fiskveiðilögsagan í 50 mílur 1972
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn væri í harðri stjórnarandstöðu studdi hann útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur 1. september 1972 en hafði ýmislegt við málsmeðferð ríkisstjórnarinnar að athuga. Þingflokkur sjálfstæðismanna markaði þá afdráttarlausu stefnu 1974 að fiskveiðilögsagan skyldi færð út í 200 mílur. Ágreiningur um úrræði í efnahagsmálum varð síðan til þess að stjórn Ólafs Jóhannessonar missti þingmeirihluta sinn og boðað var til þingkosninga 30. júní 1974.

200 mílur, lækkun verðbólgu, varnarsamstarf treyst
Sjálfstæðisflokkurinn vann mikinn sigur, fékk 42,7% atkvæða og 25 þingmenn kjörna í kosningunum 1974 og mynduð var ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Þessi ríkisstjórn hófst þegar handa við þrjú meginverkefni: að færa landhelgi Íslands út í 200 mílur og afla útfærslunni alþjóðlegrar viðurkenningar, treysta varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn og koma á meira jafnvægi í efnahagsmálum með aðhaldi í verðlags- og kaupgjaldsmálum. Sá árangur náðist að koma verðbólgunni úr um 50% í 25%. Samningar tókust við Breta og Þjóðverja í júní 1976 um stækkun landhelginnar eftir miklar deilur og hafði stjórnmálasambandi við Breta jafnvel verið slitið um tíma vegna átaka á miðunum. Þann mikla árangur sem náðist í málinu má m.a. þakka aðild Íslands að NATO. Án hennar hefði verið mun erfiðara að fá Breta og Þjóðverja að samningaborðinu. Ríkisstjórnin hvarf frá áformum vinstri stjórnar um uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og treysti varnarsamstarfið með nýjum ákvörðunum um framkvæmd þess.

Skammlíf vinstri stjórn
Vinstri stjórn sem Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, myndaði með Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki í september 1978 varð skammlíf. Rúmu ári eftir valdatöku hennar sleit Alþýðuflokkurinn stjórnarsamstarfinu. Kosningar voru haldnar í desember 1979 og myndaði Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórn 8. febrúar með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi og stuðningi fjögurra annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Aðrir þingmenn flokksins voru í stjórnarandstöðu og flokksráð og síðar landsfundur samþykktu andstöðu við ríkisstjórnina.

Ráðist gegn óðaverðbólgu, einokun RÚV afnumin, ríkisfyrirtæki seld
Válega horfði sumarið 1983 í efnahagsmálum og óðaverðbólga, á milli 85 og 90%, geisaði. Þá sóttu ný stjórnmálasamtök mjög að vinstri flokkunum, Kvennalistinn að Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki og Bandalag jafnaðarmanna að Alþýðuflokki. Við þær aðstæður leituðu margir kjósendur aftur til Sjálfstæðisflokksins, sem nú kom fram samhentari en áður, fékk 38,7% atkvæða í þingkosningum vorið 1983 og fór í ríkisstjórn með Framsóknarflokki undir forystu Steingríms Hermannssonar. Ragnhildur Helgadóttir menntamálaráðherra lagði haustið 1984 fram frumvarp um afnám ríkiseinokunar í útvarpsrekstri. Eftir harðar deilur innan þings og utan hlaut það samþykki í þinglok 1985 og lagagildi í ársbyrjun 1986. Sjálfstæðismenn fögnuðu flestir mjög þessu skrefi í átt til aukins frjálsræðis. Þá vakti það ánægju að ráðherrar flokksins beittu sér fyrir því á árunum 1983 -1987 að færa fyrirtæki úr höndum ríkisins til einstaklinga og samtaka þeirra. Þá var losað um margvísleg höft á fjármagnsmarkaði.

Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987
Fyrir kosningar 1987 kom fram klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Borgaraflokkurinn, og náði Sjálfstæðisflokkurinn ekki nægilegum þingstyrk til þess að mynda tveggja flokka stjórn. Aðrir flokkar gátu ekki komið sér saman, svo að loks myndaði Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks 8. júlí 1987. Um haustið 1988 rufu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur samstarfið við sjálfstæðismenn vegna ágreinings um úrræði í efnahagsmálum. Voru sjálfstæðismenn ófáanlegir til að taka aftur upp þá styrkjastefnu við atvinnulífið sem hér hafði verið fylgt frá því í kreppunni og fram undir 1950.

Bann við hækkunum og verkföllum 1988
Steingrímur Hermannsson myndaði í september 1988 samstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags en Sjálfstæðisflokkur fór í stjórnarandstöðu. Naut stjórnin stuðnings Samtaka um jafnrétti og félagshyggju og Borgaraflokks sem ári síðar fékk formlega aðild að stjórninni. Ekki tókst að hafa hemil á ríkisútgjöldum og í hönd fór tímabil mikilla verð- og launahækkana. Svo fór að gripið var til óvenjulegra og harkalegra aðgerða sem fólust í tímabundnu banni við hækkunum á þjónustu hins opinbera, launum og vöruverði umfram hækkanir á innkaupsverði og banni við verkföllum. Þjóðarframleiðsla dróst saman næstu ár og kaupmáttur minnkaði.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991, dregið úr ríkisumsvifum, EES-samningur 1993
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 38,6% atkvæða í alþingiskosningum 1991 og myndaði ríkisstjórn með Alþýðuflokki. Skömmu fyrir kosningar var Davíð Oddsson kjörinn formaður flokksins á landsfundi. Næstu árin þurfti ríkisstjórnin að glíma við mikla erfiðleika, m.a. vegna minnkandi afla og lækkandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum en upp úr miðju kjörtímabili fór að þokast í rétta átt. Einkavæðingarnefnd var sett á laggirnar og byrjað að losa ríkið út úr atvinnurekstri sem átti betur heima í höndum annarra. Ýmis þjónusta var boðin út og þannig dregið úr umfangi ríkisrekstrar, EES-samningurinn tók gildi 1994 og ríkisfjármál voru tekin föstum tökum. Í alþingiskosningum 1995, 1999 og 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn góðan stuðning og var frá 1995 í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum undir forystu Davíðs Oddssonar. Haustið 2004 tók Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, við forsætisráðuneytinu en Davíð Oddsson varð utanríkisráðherra. Rúmu ári síðar, í október 2005, hvarf hann síðan úr stjórnmálum eftir farsælan feril. Sumarið 2006 sagði Halldór einnig skilið við vettvang stjórnmálanna og færðist ríkisstjórnarforystan til Geirs H.Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Stöðugleiki, aukinn hagvöxtur, lækkun skatta, bætt umhverfi fyrirtækja
Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins tók íslenskt efnahagslíf stakkaskiptum. Horfið var frá atvinnulífi sem bundið var á klafa ríkisafskipta og miðstýringar og í staðinn skapað umhverfi þar sem frjáls viðskipti og athafnasamir einstaklingar og fyrirtæki fengu að njóta sín. Hagvöxtur jókst og kaupmáttur hefur aldrei vaxið jafnmikið á Íslandi og hann gerði á síðari hluta tíunda áratugar 20. aldar. Áhersla var lögð á stöðugleika, minnkandi ríkisumsvif og bætt starfsumhverfi fyrirtækja, m.a. með lækkun skatta. Þau áherslumál gengu öll eftir. Kjördæmaskipan landsins var breytt, kjördæmum fækkað og atkvæðavægi jafnað á milli þeirra.

Íslendingar í fremstu röð
Ríkissjóður var rekinn hallalaus í mörg ár og skuldir hans greiddar niður. Stoðir efnahagslífsins voru styrktar, efnahagsbatinn festur í sessi, kaupmáttur og hagur almennings batnaði stórkostlega, ekki síst þeirra sem lökust kjör höfðu, atvinnulífið var fjölbreyttara en nokkru sinni fyrr og tækifæri einstaklinga og fyrirtækja fleiri en áður. Sjálfstæðismenn, með sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi, eru stoltir af því að hafa átt hvað drýgstan þátt í þessum miklu framförum: að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar og koma henni í fremstu röð í flestu tilliti.

Lækkun skatta
Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um að ríkisstjórnin sem tók við eftir alþingiskosningar árið 2003 hefði að einu meginviðfangsefna sinna að lækka skatta á almenning. Skattaumhverfi atvinnulífsins var gert samkeppnishæft við það sem best gerist erlendis og nú var röðin komin að einstaklingunum. Eignaskattur var lagður niður og tekjuskattur lækkaður í áföngum. Niðurfelling eignarskatts kemur sér einkar vel fyrir þá sem skulda lítið eða ekkert í íbúðarhúsnæði sínu en margir eldri borgarar eru í þeim hópi. Tekjuskattslækkun eykur ráðstöfunartekjur allra launþega og er því sú kjarabót sem kemur flestum til góða.