Stjórnmálaályktun

Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins 24. september sl. var samþykkt eftirfarandi stjórnmálaályktun.

Svigrúm til uppbyggingar

Alger viðsnúningur varð í rekstri ríkisjóðs á kjörtímabilinu. Hallarekstri var snúið við og skuldir greiddar niður. Því gefst nú aukið svigrúm til enn frekari uppbyggingar grunnþjónustu ásamt áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, haftalosunar, hagræðingar í ríkisrekstri og að hamla útþenslu ríkisútgjalda.

Heilbrigðis- og velferðarmál

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu aukið framlög til heilbrigðismála verulega. Á þessu ári verða útgjöld um 38,5 milljörðum hærri en 2013. Samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis hefur verið styrkt, auknu fé varið til tækjakaupa, heilsugæslustöðvum fjölgað, rekstur hjúkrunarheimila styrktur, hjúkrunarheimilum fjölgað og síðast en ekki síst hefur fjármögnum nýs Landspítala verið tryggð.

Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Við teljum mikilvægt, í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs, að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar með því að lækka hámarksgreiðslur sjúklingar bæði í lyfjagreiðslukerfi og greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu, sem og kostnaði við notkun hjálpartækja. Auka þarf greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna ferðakostnaðar sjúklinga.

Fjölga þarf heilsugæslustöðvum, styrkja þar þjónustu við börn og auka þjónustu hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.

Fjölga þarf hjúkrunarýmum. Áfram þarf að efla heimahjúkrun og stytta biðlista. Viðmiðið þarf að vera að enginn bíði lengur en 3 mánuði frá tilvísun læknis. Eins þarf að leggja aukið kapp á að halda í og laða til okkar heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða.

Við leggjum áherslu á að tryggja eldri borgurum og örykjum fjárhagslegt sjálfstæði. Frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem liggur fyrir Alþingi er stórt skref í þá átt.

Endurskoða þarf viðmiðunargjaldskrá sjúkratrygginga vegna tannlækninga lífeyrisþega.

Við teljum mikilvægt að nýta áfram möguleika á fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu.

Með breyttum lögum verður eftirlaunaaldur hækkaður í áföngum, sveigjanleiki í starfslokum aukinn, þannig að hægt verði að fresta töku lífeyris að hluta eða öllu leyti og flýta töku lífeyris.

Tryggja þarf að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma og/eða slysa, fái tækifæri til starfsendurhæfingar. Tekið verði upp starfsgetumat og hlutabótakerfi örorkulífeyris með frítekjumarki lögfest. Leitast þarf við að að fötlun og/eða sjúkdómar komi ekki í veg fyrir atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði.

Mennta- og menningarmál

Tengsl rannsókna, menntunar og vísinda við nýsköpun eru grundvöllur hagvaxtar. Fagna ber aukinni áherslu á rannsóknir og vísindi á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar og mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut.

Menntakerfið þarf að bregðast hratt við þeim áskorunum sem felast í tækniframförum upplýsingaaldar. Mannauður skiptir höfuðmáli í þjóðfélagi sem í síauknum mæli byggir á þekkingu.

Leggja á aukna áherslu á gæðamál og skilvirkni á grunn- og framhaldsskólastigi og fjölga sjálfstætt starfandi skólum. Auka á framlög til háskólastigs til meðaltals OECD- landa. Jafnframt þarf að efla iðn- og verknám. Mikilvægt er að lögfesta frumvarp um nýjan lánasjóð sem byggir á styrkjakerfi og afnámi eftirágreiðslu námslána.

Áfram verði unnið að eflingu íþróttastarfs um land allt og tryggt að öll börn og ungmenni eigi þess kost að stunda íþróttir.

Það þarf að hlúa að menningu og listum með markvissum hætti.

Húsnæðismál

Við viljum að ungu fólki verði auðveldað að kaupa fyrstu húseign en eigi jafnframt kost á leiguhúsnæði á virkum leigumarkaði. Þess vegna ætlum við að festa séreignarsparnaðarleiðina varanlega í sessi. Einfalda þarf byggingareglugerð þannig að stærð og gerð húsnæðis sé háð þörfum og vilja kaupenda,  seljenda og húsbyggjenda, en ekki hins opinbera. Þannig má bæði fá fjölbreyttari íbúðamarkað og lækka íbúða- og leiguverð, ekki síst fyrir ungt og efnaminna fólk. Við viljum afnema afskipti hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum á lánum vegna húsnæðiskaupa.

Við ætlum að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þar með talið skattlagningu leigutekna, sem leiðir fyrst og fremst til hærra leiguverðs og meiri skattaundanskota.

Mannréttindi

Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Við viljum tryggja jöfn tækifæri allra. Trúar-, tjáningar- og skoðanafrelsi eru grundvallar mannréttindi, sem standa verður vörð um.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram vera leiðandi í málefnum hinsegin fólks, enda hefur hann staðið að lagabreytingum um aukin réttindi þeirra m.a. varðandi samvist og ættleiðingar.

Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Móttaka flóttamanna frá stríðshrjáðum ríkjum er sjálfsögð. Við fögnum ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar. Alltaf skal hafa að leiðarljósi að aðstoð við flóttamenn leiði til tækifæra til sjálfsbjargar.

Efnahags- og fjármál

Vaxtagjöld vegna skulda ríkissjóðs eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga, svipuð og öll útgjöld ríkisins til mennta og menningarmála. Því er lykillinn að áframhaldandi uppbyggingu að halda áfram að greiða skuldir.

Losun fjármagnshafta er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda. Þar hafa stór og mikilvæg skref verið stigin, en Ísland verður ekki samkeppnishæft fyrr en gjaldeyrishöftunum hefur verið aflétt að fullu.

Við viljum almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað.

Við viljum ráðast í undirbúning og stofnun stöðugleikasjóðs. Í sjóð þennan rynni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn yrði sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftraði ofhitnun er vel áraði og kæmi í veg fyrir pólitískar freistingar með arðinn.

Við viljum nýta svigrúmið, sem landbúnaðinum hefur verið gefið með búvörusamningunum, og leggja drög að nýjum og fjölbreyttari búskaparháttum á grundvelli einkaframtaks og frjálsra markaðshátta og samkeppni milli landa sem innanlands.

Leita þarf allra leiða til að tryggja samkeppnishæfni og öfluga samkeppni á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, þar með talið í fjármála, heilbrigðis- og menntakerfinu. Bæta skal samkeppnisumhverfi fyrirtækja með hagsmuni almennings að leiðarljósi ásamt því að tryggja öfluga og skilvirka neytendavernd.

Leggja þarf rækt við nýsköpun, sprotafyrirtæki og skapandi greinar.

Til framtíðar þurfa lánakjör hér að vera í samræmi við það sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

 

 

Skattar

Við viljum halda sköttum í lágmarki og að fólk haldi sem mestu af því sem það aflar. Við viljum fækka undanþágum í virðisaukaskattkerfinu, enn frekari lækkun skatta á almenning og atvinnulíf, afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga og halda áfram að afnema vörugjöld og tolla af fleiri vöruflokkum, t.d. af ýmsum matvælum.

Umhverfismál

Við styðjum atvinnuuppbyggingu með hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda, en sjálfbærni hennar og virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt skilyrði. Heimila þarf gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila.

Utanríkismál

Ísland á að beita sér fyrir frjálsum viðskiptum á alþjóðavettvangi  – forsendur bættra kjara íbúa fátækustu ríkja heims eru aukin utanríkisviðskipti. Sjálfstæðisflokkurinn telur að öryggi landsins sé best tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Við áréttum að hagmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins.

Innviðir

Við viljum veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins. Fjárfesta þarf í samgöngumannvirkjum, flutningskerfi raforku, fjarskiptabúnaði og löggæslu. Skoða þarf sérstaklega annars konar fjármögnun en bein framlög af fjárlögum, svo sem samstarfsfjármögnun.

Reykjavíkurflugvöllur er og verður óskertur í Vatnsmýri þar til betri kostur finnst.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og séreignarrétt í hávegum, með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Hann hefur sýnt að með ábyrgum rekstri ríkissjóðs er bæði hægt að vinda ofan af skuldasöfnun ríkissjóðs og sligandi vaxtagreiðslum og á sama tíma lækka skatta og renna stoðum undir grunnþjónustu. Þannig ætlum við að bæta hag alls almennings í landinu.