Kristín Thoroddsen

Kristín Thoroddsen er fyrsti varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði og flugfreyja hjá Icelandair. Hún er með BS í ferðamálafræði frá HÍ.
Kristín er fædd 20. nóvember 1968. Eiginmaður hennar er Steinarr Bragason, flugstjóri hjá Icelandair og eiga þau 4 stráka. Foreldrar Kristínar eru Þórunn Christiansen og Björn Thoroddsen og er hún elst 5 systkina.

  • Sækist eftir 2-4. sæti í Suðvesturkjördæmi
  • Starfsheiti: Varabæjarfulltrúi, flugfreyja, ferðamálfræðingur

Kristín útskrifaðist með BS í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands árið 2013 þar sem lokaverkefni hennar fjallaði um þolmörk ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á Íslandi. Hún hefur tekið virkan þátt í skólasamfélaginu og gegnir nú formennsku í foreldrafélagi, staðið vörð um hagsmuni barna ásamt því að virkja foreldra í skólasamfélaginu, hún situr einnig í foreldraráði Hafnarfjarðar. Kristín hefur á undanförnum árum verið virk í Sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði og setið meðal annars í stjórn Vorboða, Fram og fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði .

Kristín tók 6. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu sveitastjórnarkosningum og skipar sæti fyrsta varabæjarfulltrúa í Hafnarfirði. Hún er aðalmaður í Fjölskylduráði Hafnarfjarðar og hefur staðið vörð um fjölskyldumál og hagsmuni þeim tengdum. Kristín er einnig varamaður í menningar – og ferðamálaráði. Atvinnumál og einkarekstur hafa verið henni hugleikin og stóð hún að stofnun Markaðsstofu Hafnarfjarðar 2015, þar sem hún situr í stjórn. Markaðsstofa Hafnarfjarðar er sjálfseignarstofnun einkafyrirtæka í Hafnarfirði ásamt aðkomu bæjarins.

Hún telur að styrkja þurfi stöðu neytenda á markaði enn frekar, gera neytendavitund þjóðarinnar sterkari og meðvitaðri þannig að lögmál markaðarins virki sem skildi, fjölskyldum til hagsbóta. Þannig helst vöruverð niðri og fjölskyldur hafi frelsi til að velja. Endurskoða þarf neytendalöggjöfina með hag fjölskylda að leiðarljósi. Einkavæða þarf fjölmörg ríkisfyrirtæki og lækka skatta.

Kristín telur mikilvægt að ferðaþjónustan sé skoðuð ofan í kjölin, kostir hennar og gallar metnir. Hlúa þarf að náttúru landsins, stoðþjónustu og nýtingu svo bæði við sem þetta land byggjum getum notið góðs af auknum ferðamannastraum og einnig svo íslensk ferðaþjónustan geti haldið áfram að vaxa og dafna.