Guðmundur Edgarsson

Meistarpróf í enskum málvísindum auk árs náms í stærðfræði. Haft kennslu að aðalstarfi í aldarfjórðung á framhalds- og háskólastigi. Kenni nú við HR og EHÍ. Verið pistlahöfundur í Fréttablaðinu undanfarin ár og skrifað um mikilvægi markaðslausna umfram ríkislausna. Er eindreginn talsmaður aukins frelsis og lægri skatta. Fjölskyldumaður.

Ég er talsmaður aukins einstaklingsfrelsis og lágra skatta. Ég vil því horfa í ríkari mæli til markaðslausna en ríkislausna en gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Í húsnæðismálum tek ég t.a.m. undir þær hugmyndir ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins að auka lóðaframboð í samræmi við aukna eftirspurn, lækka ýmis gjöld og skatta og slaka á byggingarreglugerðum til að hafa hemil á síhækkandi fasteignaverði fremur en að auka niðurgreiðslur eða setja þak á leiguverð.  Þá tel ég óhætt að ganga lengra í einkavæðingu í menntakerfinu en raunin hefur orðið fram að þessu. Verulegt svigrúm er til frekari einkarekstrar á framhaldsskólastigi auk þess sem ég tel eðlilegt að Háskóla Íslands verði breytt í sjálfseignarstofnun líkt og Háskólinn í Reykjavík. Í samgöngumálum hafa sjálfstæðismenn þegar lagt fram hugmyndir um einkaframkvæmd á tilteknum leiðum t.a.m. við lagningu Sundabrautar. Slík leið var farin við byggingu Hvalfjarðarganga sem heppnaðist einstaklega vel. Hvað heilbrigðiskerfið varðar álít ég að fara þurfi sérstaklega varlega enda um líf og limi fólks að tefla. Ég tel engu að síður að aukinn samkeppnisrekstur geti átt við á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar t.d. í heilsugæslunni og við smærri og ódýrari aðgerðir. Slíkur einkarekstur er nú þegar til staðar t.d. við vissar augn- og lýtaaðgerðir.Ég vil sjá fleiri verkefni færð frá ríki til markaðar. Þrennt ber þó að hafa í huga varðandi slíkar tilfærslur. Í fyrsta lagi að vandað sé til verka á öllum stigum ferlisins. Í öðru lagi að drjúgum tíma sé varið í að upplýsa fólk um væntanlega kosti einkavæðingarinnar. Í þriðja lagi að sá sparnaður sem næst fram við einkavæðingu verði að jafnaði nýttur til að lækka skatta og álögur á fólk ellegar greiða niður skuldir ríkissjóðs.