Birgir Ármannsson

Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, lögfræðingur að mennt og hef setið á þingi frá árinu 2003. Á þeim tíma hef ég sinnt ýmsum málaflokkum en á yfirstandandi kjörtímabili hef ég mest starfað að utanríkismálum, umhverfis- og samgöngumálum og stjórnarskrármálum.

  • Sækist eftir einu af efstu sætunum í Reykjavík
  • Starfsheiti: Alþingismaður

Ég er fæddur í Reykjavík 12. júní 1968, sonur Helgu Kjaran grunnskólakennara og Ármanns Sveinssonar laganema, sem lést ungur. Stjúpfaðir minn er Ólafur Sigurðsson verkfræðingur. Ég er fráskilinn og á þrjár dætur á aldrinum 6 til 13 ára, Hildi, Helgu Kjaran og Ernu. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, lagaprófi frá Háskóla Íslands og aflaði mér réttinda til málflutnings fyrir héraðsdómi. Seinna stundaði ég um eins árs skeið framhaldsnám í lögfræði í London. Samhliða háskólanámi starfaði ég sem blaðamaður á Morgunblaðinu í 6 ár og sem lögfræðingur síðar aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Verslunarráði Íslands í samtals 7 ár. Ég hef setið á Alþingi frá 2003 og hef þar í gegnum tíðina tekið að mér ýmis verkefni, m.a. verið varaforseti þingsins, formaður allsherjarnefndar, formaður utanríkismálanefndar, formaður tveggja sérnefnda um stjórnarskrármál, sat lengi í efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og ýmsum alþjóðanefndum, svo nokkuð sé nefnt. Þessi nefndastörf gefa ágæta mynd af helstu áhugamálum mínum og áherslum í pólitíkinni á undanförnum árum. Framundan eru margvísleg viðfangsefni og jafnvel hörð átök á þessum málefnasviðum, ekki síst stjórnarskrármálum, og er ég tilbúinn að leggja mitt lóð á vogarskálarnar í þeirri baráttu hér eftir sem hingað til. Þá eru líka fyrirsjáanleg mikilvæg verkefni við að tryggja þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum árum á sviði efnahags- og atvinnumála. Þar er markmiðið auðvitað að skapa skilyrði til að bæta áfram launakjör og lífsgæði allra hópa samfélagsins.