Albert Guðmundsson

Albert Guðmundsson er 25 ára og formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundar nú laganám við Háskóla Íslands. Albert starfar sem flugþjónn hjá Icelandair samhliða námi. Hann er í sambúð með tveimur konum, móður sinni og ömmu sinni og stundar fótbolta í frístundum.

„Ég tel mikilvægt og dýrmætt að fjöldahreyfing á borð við Sjálfstæðisflokkinn hugi að hugmyndafræðilegri breidd þegar kemur að vali fulltrúa sinna. Ég tel helsta styrk Sjálfstæðisflokksins felast í því að rúma ólíkar skoðanir og mikilvægt er að flokkurinn eigi málsvara úr öllum aldurshópum og þjóðfélagsstigum.

Ég vil endurspegla skoðanir ungs fólks en jafnframt vera málsvari allra landsmanna. Ég tel að ungt fólk kjósi borgaralegt frelsi öðru fremur. Þau gildi skinu í gegn í málflutningi ungra á landsfundi og þeim vil ég fylgja eftir sem fastast. Ásamt því að vera málsvari frjálslyndra gilda vil ég beita mér fyrir úrbótum í húsnæðismálum og framþróun í menntamálum. Þar að auki legg ég sérstaka áherslu á eftirfarandi málefni.

Heilbrigðismál
Heilbrigði þjóðarinnar er undirstaða velferðar. Mikilvægt er að koma á úrbótum í heilbrigðismálum. Jafnframt er nauðsynlegt að gera öllum þáttum heilbrigðisþjónustu jafn hátt undir höfði. Sálræn veikindi eru ein stærsta lýðheilsuógn sem steðjar að íslensku samfélagi, þá sérstaklega ungu fólki. Stór hópur ungs fólks glímir við geðræn vandamál í einhverri sinna fjölþættu birtingarmynda. Eins og staðan er í dag þá eru sjálfsvíg algengasta dánarorsök karla á mínum aldri. Vegna alvarleika þessa máls hef ég vakið athygli á þessum málaflokki áður og mun halda því ótrauður áfram.

Velferð
Margt má bæta þegar kemur að málefnum öryrkja og aldraðra og tel ég brýnt að ungt fólk láti til sín taka í þeim málaflokki. Enginn veit sína framtíð og margt óvænt getur komið fyrir á lífsleiðinni, við eigum að tryggja kjör þeirra sem lenda í skakkaföllum og hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Við getum öll gert ráð fyrir því að eldast og við eigum, sem samfélag, að tryggja fjárhagslegt frelsi þeirra sem alla tíð hafa lagt til þjóðfélagsins. Í því samhengi er nauðsynlegt að efla samstarf milli ríkis og sveitarfélaga, svo hægt sé að gera kjör þessara einstaklinga sem best.

Atvinnufrelsi
Sjálfstæðisflokkurinn verður að þora að líta á þekkingarfyrirtæki sem undirstöðu atvinnugrein og mögulegan burðarstólpa í hagkerfi Íslendinga. Þar sem þekkingarfyrirtæki treysta ekki á takmarkaðar auðlindir hættir okkur til að líta á nýsköpun sem óáþreifanlega atvinnugrein. Við þurfum þó ekki annað en að líta til þekkingarfyrirtækja sem hafa blómstrað hérlendis líkt og CCP, Össurar, Marels og annarra til að sjá tækifærin sem fólgin eru í að búa enn betur að umhverfi til nýsköpunar.

Frelsi er forsenda framþróunar. Heimurinn er drifinn áfram af nýjungum og örri tækniþróun. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að vera óhræddur við að leita nýrra leiða, tækifæra og lausna með atvinnu- og athafnafrelsi að leiðarljósi.“