Jónas Þór Birgisson

Ég er kvæntur fjögurra barna faðir og bý í Hnífsdal. Ég er lyfsali hjá Lyfju Ísafirði, stundakennari við Menntaskólann á Ísafirði og bæjarfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ. Ég fæddist á sjúkrahúsinu á Akranesi, var í leikskóla í Borgarnesi, grunnskóla á Hvammstanga og framhaldsskóla á Sauðárkróki. Ég flutti til Ísafjarðar árið 2000 en hef búið í Hnífsdal frá því árið 2001. Þar að auki var ég í sveit á Snæfellsnesi svo ég þekki ágætlega til í mjög stórum hluta af kjördæminu.

  • Starfsheiti:Lyfsali og stundakennari

Ég heiti Jónas Þór Birgisson og er kvæntur Önnu Katrínu Bjarnadóttur sem er fædd og uppalin í Dýrafirði. Við eigum saman fjögur börn. Þórólf Marel, Magðalenu, Bjarna Pétur Marel og Önnu Marý. Sjálfur bjó ég fyrstu ár ævinnar í Borgarnesi en fluttist á Hvammstanga um það leyti sem ég byrjaði í grunnskóla. Að grunnskóla loknum fór ég Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki þar sem ég kynntist eiginkonu minni, og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf árið 1992. Að námi loknu fluttum við til Reykjavíkur og ég lauk námi sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999. Vorið 2000 fluttum við til Ísafjarðar og svo í Hnífsdal árið eftir þar sem við höfum búið síðan. Ég hef alltaf talið mikil forréttindi að fá að alast upp út á landi vegna frelsisins, nálægðar við náttúruna og annað fólk. Ég er lyfsali hjá Lyfju Ísafirði, kenni efnafræði við Menntaskólann á Ísafirði og er bæjarfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ.
Ég vil að allir landsmenn búi við gott heilbrigðis- og menntakerfi. Við þurfum að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft en jafnframt hjálpa þeim sem ekki geta hjálpað sér sjálfir, en það er ekki hægt nema við höfum öflugt einkarekið atvinnulíf og gætum aðhalds í rekstri ríkissjóðs. Atvinnulíf verður svo aldrei öflugt nema aðstæður séu hvetjandi fyrir einstaklingana til að skapa sína eigin framtíð, svo fremur sem þeir brjóta ekki á öðrum. Ríkið skapar ekki verðmæti heldur einstaklingarnir og þeir leggja ekki á sig mikið erfiði ef ríkið tekur til sín megnið af árangri erfiðis þeirra með óhóflegri skattheimtu.
Ég er sannfærður um að landsbyggðirnar geta blómstrað ef ríkið gætir þess að þær búi við sambærilega heilbrigðisþjónustu og menntakerfi eins og aðrir og samgöngur í víðum skilningi eru í lagi. Með því á ég við öryggi í flutningi á rafmagni, gæði fjarskipta og samgöngur í hefðbundnum skilningi þess orðs.