Hafdís Gunnarsdóttir

36 ára gömul, búsett á Ísafirði ásamt fjölskyldu og er mikil landsbyggðarmanneskja. Menntaður kennari og vann sem íþrótta-, raungreina- og umsjónarkennari í 10 ár. Er íþróttakona sem hefur áhuga á nýsköpun, pólitík og að gera gott samfélag betra.

  • Sækist eftir 3 sæti í Norðvesturkjördæmi
  • Starfsheiti: Forstöðumaður liðveislu hjá Ísafjarðarbæ
  • Ferilskrá

Ég er 36 ára gömul, gift Shiran Þórissyni og eigum við saman tvo syni. Ég er búsett á Ísafirði og starfa sem forstöðumaður liðveislu hjá Ísafjarðarbæ. Mér finnst mikilvægt að fram komi sjónarmið ungrar konu, sem býr í kjördæminu og þess vegna gef ég kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Það er áskorun að vinna fyrir svona víðfeðmt kjördæmi með ólíkar þarfir eftir svæðum, en ég hika ekki við að taka þeirri áskorun. Ég tók við formennsku fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ árið 2014 og gegni því enn. Tók nýlega sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins. Ég hef sinnt fjölbreyttum störfum frá unga aldri sem oft á tíðum eru ansi vanþakklát í okkar samfélagi, svo sem störf í fiskvinnslu, löggæslu, grunnskólakennslu og ráðgjöf í barnavernd. Öll eiga það sameiginlegt að vera gríðarlega lærdómsrík og þroskandi. Ég legg fyrst og fremst áherslu á öryggi í kjördæminu okkar sem er grunnforsenda þess að við getum búið hér. Það þýðir að hér þarf að veita góða heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Einnig eigum við að geta ferðast með öruggum hætti milli svæða. Jafnframt legg ég áherslu á frelsi einstaklingsins sem er grunnurinn að góðu samfélagi, þar sem við hjálpum öðrum að hjálpa sér sjálfir. Síðast en ekki síst legg ég áherslu á jöfn tækifæri fyrir alla, óháð búsetu eða efnahag. Það þýðir m.a. að við eigum öll að eiga tækifæri til að sækja okkur menntun á háskólastigi sama hvar við búum á landinu. Menntun eykur þekkingu og fjölbreytni í okkar samfélögum sem og gegnir stóru hlutverki í byggðaþróun. Því þarf að auka framboð fjarnáms. Ekki skortir tæknina, heldur viljann.