Valgerður Gunnarsdóttir

Ég er fædd á Dalvík 17. júlí 1955. Elst fimm systkina og alin upp við að taka ábyrgð. Síðan 2013 hef ég verið alþingismaður fyrir Norðausturkjördæmi. Frá 1999-2013 var ég skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum, sem er heimavistarskóli, en það hefur í för með sér að skólameistarinn er vakinn og sofinn öllum stundum yfir starfinu og nemendum. Mikil uppbygging átti sér stað í minni stjórnunartíð á Laugum, bæði faglega,kennslufræðilega og stjórnunarlega og hvað varðar allan aðbúnað innan og utan húss þar. Ég var formaður Skólameistarafélags Íslands frá 2009-2013 og í stjórn og varastjórn þess samfellt frá 2001. Ég var jafnframt formaður Samstarfsnefndar framhaldsskóla á Norðurlandi frá 2006-2013. Ég sat í bæjarstjórn á Húsavík frá 1986-1998 og var forseti bæjarstjórnar 1994-1996 í tæp þrjú ár. Auk þess sat ég í ýmsum nefndum tengdum atvinnu- , skóla- og menningarmálum. Ég var kennari við Framhaldsskólann á Húsavík frá stofnun hans 1986, þar til ég fór sem skólameistari að Laugum 1999. Ég tók mjög mikinn þátt í uppbyggingu og mótun þess skóla.

Ég er gift Örlygi Hnefli Jónssyni, héraðsdómslögmanni á Húsavík. Við eigum 3 uppkomin börn og fimm barnabörn. Við búum að Hrísateigi 2, Húsavík. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1975 og B.A. gráðu í íslenskum fræðum og bókmenntum frá HÍ 1982 og kennslu- og uppeldisfræði frá Háskólanum á Akureyri 1996. Ég hef lokið fjölmörgum námskeiðum, tengdum störfum mínum.

  • Sækist eftir 2. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Þingmaður

Stefnumál:

Lengst af vinnuævi minni hef ég starfað að skólamálum og sem slík hef ég mikinn áhuga á að vel sé búið að starfi í skólum landsins og þeim sem þar starfa, nemendum og starfsfólki. Ég tel það mikilvægt að við stöndum nágrannaþjóðum okkar jafnfætis í að mennta þjóðina í samræmi við þarfir og möguleika til að byggja upp öflugt samfélag. Það er mikilvægt að atvinnugreinarnar geti sótt krafta sína til vel menntaðra einstaklinga og það þarf að vera góð tenging milli atvinnulífsins og skólanna. Verk- og iðnnám þarf að efla enn frekar, það er vanfjármagnað, meðal annars vegna þess að bóknám er ódýrara. Ég hef alltaf haldið því fram, að námsframboð á framhalds- og háskólastigi ætti í mun meira mæli að taka mið af þörfum atvinnulífsins hverju sinni og laga sig að breytingum. Eins og staðan er í dag er vissulega mikil þörf á að að beina sjónum að ferðaiðnaðinum í allri sinni fjölbreyttu mynd.

Ég tel afar mikilvægt og í raun undirstaða annars, að atvinnulífið búi við hagstæð skilyrði til vaxtar og uppbyggingar. Það þarf að vera jafnvægi í efnahagslífinu og skattaumhverfi sanngjarnt. Fyrirtæki, stór og smá og einstaklingar sem leggja tíma og fjármagn í að byggja upp atvinnu fyrir samfélag sitt og taka oft mikla fjárhagslega áhættu, þurfa að geta treyst því að ekki sé sífellt verið að leggja nýjar og nýjar álögur á eða að aðstæðum sé breytt. Þeir sem leggja í atvinnuuppbyggingu og hafa áræðni til þess, eiga ekki aðþurfa að vera í sífelldu hindrunarhlaupi.

Við sem búum úti á landi erum afar stolt af því og viljum hag okkar byggðarlaga og sveita sem mestan. Við viljum geta sótt alla þjónustu og vinnu sem næst heimilum okkar og við viljum að samgöngur séu greiðar við önnur héruð. Ég tel að það sé eitt af verkefnum okkar að taka ákvörðun um byggðastefnu til framtíðar og að undan því verði ekki skorast. Það er óásættanlegt að eignir þeirra sem kjósa að búa á landsbyggðinni rýrni jafnt og þétt í verði og verði á endanum ekki sú eignamyndun til efri ára, sem stefnt var að. Ég vil að unga fólkið okkar sjái það sem raunhæfan kost að fjárfesta í húsnæði og að ungu fólki séu búin skilyrði til þess, hvar sem er á landinu.

Ég tel afar mikilvægt að flugsamgöngur séu greiðar og öruggar og ég stend að þingsályktunartillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um flugvöllinn í Vatnsmýri. Það er mjög brýnt að það liggi fyrir með óyggjandi hætti að flugvöllurinn verði áfram þar. Á þessu kjörtímabili sat ég annars vegar í nefnd, sem hafði það hlutverk að leita leiða til að lækka verð á fargjöldum í innanlandsflugi og hins vegar í nefnd sem vann að því að gera mögulegt að opna fleiri fluggáttir inn í landið, sérstaklega að millilandaflug færi um Akureyri og Egilsstaði.

Lokaorð:

Kæru vinir.

Undanfarin 3 ár hafa verið mér afar dýrmætur tími. Ég hef verið í kröfuhörðum skóla og reynt að standa mig sem best. Ég hef setið í fjárlaganefnd Alþingis allan tímann og sem slík haft áhrif til góðs fyrir okkar kjördæmi. Ég veit að félögum mínum hefur stundum fundist ég frek, en það verður bara að hafa það. Ég hef líka verið einn af varaforsetum þingsins og kynnst þannig öllum innviðum vel, sem er mikilvægt, því það stekkur enginn alskapaður inn í þetta mikla starf sem þingmennskan er. Ég hef einnig gengt störfum á erlendum vettvangi, það víkkar sjóndeildarhringinn og veitir tækifæri til landkynningar. Síðast en ekki síst var mér falið ásamt 8 öðrum fulltrúum það vandasama starf að endurskoða stjórnarskrána okkar og þær tillögur eru nú komnar inn í þingið. Fyrir allt þetta er ég mjög þakklát og með þessa reynslu tel ég mig færari í dag til að takast á við áframhaldandi þingmennsku, fái ég stuðning ykkar til að skipa 2. sæti á lista okkar í komandi alþingiskosningum.