Valdimar O. Hermannsson

Valdimar O. Hermannsson er 56 ára og hefur búið og starfað í Fjarðabyggð, á Austurlandi frá
2004, er í staðfestri sambúð með Vilborgu Elvu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingi, og börnum hennar 15 og 17 ára sem eru í grunnskóla í Neskaupstað og í Menntaskólanum á Akureyri. Sjálfur á ég tvö uppkomin börn.

Er menntaður markaðsfræðingur, en hef auk þess lagt stund á stjórnun, stefnumótun og leiðtogaþjálfun, bæði hérlendis og erlendis, (Evrópu, Japan og USA). Þá hef ég einnig búið og starfað erlendis, í nokkur ár.

Á Austurlandi hef ég starfað sem rekstrarstjóri, lengst af hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, (HSA) en frá síðustu áramótum hjá Brammer/Alcoa. Þá hef ég samhliða því verið bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð frá 2006.

Var oddviti framboðs í eitt kjörtímabil 2006 ­2010, og þá aðalmaður í bæjarráði, en fyrsti
varamaður frá 2010 en í bæjarstjórn Fjarðabyggðar frá 2006. Sat í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2009 – 2014, og formaður SSA frá 2010. Var formaður í undirbúningshópi um sameiningu stoðstofnana á Austurlandi og fyrsti formaður stjórnar Austurbrúar. Var formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands (HAUST) í 8 ár, og er nú formaður stjórnar Náttúrustofu Austurlands. Sit í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Hjá Sjálfstæðisflokknum hef ég tekið virkan þátt í innra starfi, með þátttöku í nefndum á ráðum, en er nú m.a. varaformaður í stjórn kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis, og fulltrúi þess í miðstjórn flokksins.

Önnur félagsstörf hafa m.a., verið á yngri árum á vegum JCI, en starfa nú í Oddfellowstúku á
Austurlandi, eftir að hafa tekið þátt í að byggja það starf upp á Austurlandi.

  • Sækist eftir 3. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Bæjarfulltrúi

Stefnumál:

Helstu stefnumál mín, í þessu framboði, eru margvísleg, en ég mun skipta þeim hér í 5 málaflokka:

Atvinnu­ og byggðamál: Ef landið á að haldast í byggð, þá þarf að vera atvinna fyrir íbúana, og atvinna skapar íbúunum lífsviðurværi og sveitarfélögunum m.a., skatttekjur. Því eru atvinnumál, byggðamál. Það þarf að huga að atvinnusköpun á landsbyggðinni, og einnig halda og fjölga þar hinum opinberu störfum.

Heilbrigðismál: Heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja, að ýmsum ástæðum. Það hefur þó verið sýnt fram á það, að í mjög mörgum tilfellum er þjóðhagslega hagkvæmara að hafa veita ákveðna heilbrigðisþjónustu út um land, bæði grunn og sérfræðiþjónustu, frekar en að íbúar landsbyggðar sækji þjónustuna eingöngu til Reykjavíkur eða Akureyrar, með ærnum tilkostnaði fyrir íbúa og atvinnulífið.

Menntamál: Það skiptir mála að hafa gott aðgengi að góðri menntun, sérstaklega þegar kemur að framhaldsskólum og skólum á háskólastigi. Einnig að nýta fjar­ og farandkennslu ásamt námsverum.

Samgöngu­ og ferðamál: Það verður að gera stórátak í að bæta samgöngur, til að efla innviði samfélaga og einnig á milli landshluta. Sérstaklega þarf að huga að stóraukinni umferð ferðamanna út um allt land. Þá er það mjög brýnt að eyða allri óvissu um Reykjavíkurflugvöll, og gera innanlandsflug að skipulögðum almenningasamgöngum fyrir íbúana, t.d., með sérstökum íbúakortum, eða með öðrum mögulegum hætti. Þá þarf að gera sérstaka langtímamáætlun í jarðgangnamálum, sem væru fjármögnuð með blandaðri leið.

Samskipti ríkis­ og sveitarfélaga: Sem bæjarfulltrúi, formaður landshlutasamtaka, og í störfum fyrir, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og Samband íslenskra sveitarfélaga, auk vinnu í heilbrigðismálum, þá hefur mér orðið ljóst, hvað má bæta á mörgum stöðum, verkaskiptingu, ábyrgð, skiptingu skatttekna og margt fleira.

Lokaorð:

Með framboði mínu vil ég nýta þá reynslu og þekkingu sem ég hef aflað mér, m.a., með þátttöku í “hinu” stjórnsýslustiginu, sem er á vettvangi sveitarfélaga, og beyta mér fyrir breyttum áherslum þar.

Þá hef ég líka brennandi áhuga á byggðamálum, almennt, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og málefnum ríkisins, er varðar m.a., þjónustu við almenning í landinu, án tillits til búsetu þeirra.

Það er svo margt sem hægt að að bæta og breyta, og þar þarf einnig að taka til í ríkisrekstrinum.

Ég vil leggja þar lóð á vogaskálina, og sækist eftir því að skipa 3. sæti á framboðslista flokksins í NA.