Kristján Þ. Júlíusson

Ég er fæddur á Dalvík 15. júlí 1957. Foreldrar mínir eru þau Júlíus Kristjánsson og Ragnheiður Sigvaldadóttir. Ég er kvæntur Guðbjörgu Baldvinsdóttur Ringsted myndlistarmanni Við eigum börnin Maríu, Júlíus, Gunnar og Þorstein og einn sonarson, Krisján Árna, sem er augasteinn afa síns og ömmu

Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1977. Skipstjórnarpróf (1. og 2. stig) frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1978. Auk þess stundaði ég nám í íslensku og almennum bókmenntum við HÍ 1981–1984. Ég lauk kennsluréttindaprófi frá HÍ árið 1984.

Stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík 1978–1981 og á sumrin 1981–1985. Kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981–1986. Kennari við Dalvíkurskóla 1984–1986. Bæjarstjóri Dalvíkur 1986–1994. Í stjórn Útgerðarfélags Dalvíkinga hf. 1987–1990. Formaður stjórnar Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1987–1992. Í stjórn Söltunarfélags Dalvíkur hf. 1987–1993. Í stjórn Sæplasts hf. 1988–1994. Bæjarstjóri Ísafjarðar 1994–1997. Í stjórn Togaraútgerðar Ísafjarðar hf. 1996–1997. Formaður stjórnar Samherja hf. 1996–1998. Bæjarstjóri Akureyrar 1998–2006. Í stjórn Landsvirkjunar 1999–2007. Í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999–2000. Í Ferðamálaráði Íslands 1999–2003. Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000–2007. Í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000–2007. Í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002–2009.

Í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1989–1990. Í Héraðsráði Eyjafjarðar 1990–1994.
Formaður stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga 1994–1997. Formaður stjórnar Eyþings
1998–2002. Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998–2007. Í bæjarstjórn Akureyrar
1998–2009. Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2002–2013. Formaður sveitarstjórnarráðs
Sjálfstæðisflokksins 2002–2009. 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2012–2013.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis síðan 2007 og heilbrigðisráðherra frá árinu 2013.

  • Sækist eftir 1. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Ráðherra

Stefnumál:

Í mínum huga er grundvallaratriði að leggja áherslu á styrkingu innviða. Uppbyggingu á sviði samgangna, heilbrigðisþjónustu og í menntamálum. Auk þess verður áfram að hlúa að atvinnulífinu, enda er það undirstaða velferðar og vaxtar. Málefni ferðaþjónustunnar eru mér einnig hugleikin, enda tel ég mikil tækifæri til áframhaldandi vaxtar á því sviði. Það á að vera markmið okkar að erlendir ferðamenn heimsæki allt Ísland allan ársins hring.

Efnaghagsmál

Efnahagsmál eru stærsta velferðarmálið. Með bættri afkomu ríkissjóðs skapast svigrún til styrkingar á velferðarþjónustunni. Það er algjör forsenda uppbyggingar á öllum sviðum að skuldir ríkis og sveitarfélaga verði innan skynsamlegra marka. Einungis þannig er hægt að tryggja sterkari innviði. Öflugt atvinnulíf og stöðugt efnahagsumhverfi er forsenda góðra lífsgæða. Við eigum að nýta styrka stöðu ríkissjóðs til þess að efla búsetuskilyrði almennings um allt land.

Heilbrigðismál

Stærstu verkefni á sviði heilbrigðismála á komandi árum eru uppbygging grunnstoða, styrking heilsugæslunnar, lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga og bætt aðgengi landsbyggðarinnar að hvers konar sérfræðiþjónustu.

Afar brýnt er að efla heilsugæsluna enn frekar og tryggja stöðu hennar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga. Öflug heilsugæsla er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar og krefjandi og nauðsynlegt er að bæta aðgang að heimilislæknum víða um land.

Hækkandi hlutfall aldraðra er áskorun sem mikilvægt er að takast á við. Áfram verður að efla heimahjúkrun, þannig að fólki gefist kostur á að búa heima sem lengst. Uppbygging hjúkrunarheimila þarf einnig að halda í við fjölgun aldraðra.

Samgöngumál

Mörg brýn verkefni bíða um allt land á sviði samgangna. Hér í Norðausturkjördæmi er viðhald vega brýnt forgangsverkefni. Tryggja verður áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri. Fækkun einbreiðra brúa , jarðgöng og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum eru verkefni sem verður að ráðast í. Síðast en ekki síst verður að koma öllum landsmönnum í gott samband við umheiminn með öflugum fjarskiptum. Það skiptir miklu máli að allir landsmenn hafi aðgang að interneti, meðal annars til þess að stunda atvinnurekstur, nýsköpun, fjarnám o.s.frv. Við höfum gert átak í þessu á kjörtímabilinu og viljum klára að tengja öll heimili á næstu árum.

Atvinna og fjárfesting

Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar og vaxtar. Stjórnvöld verða áfram að vinna að einföldun regluverks og jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja. Norðausturkjördæmi er ríkt af gæðum og býður íbúum sínum góð búsetuskilyrði. Matvælaframleiðsla er hvergi meiri á landinu og því ber að standa vörð um þann öfluga atvinnurekstur sem stundaður er á því sviði. Ennfremur er ferðaþjónusta ört vaxandi grein með gríðarlegum sóknarfærum sem bera að nýta. Afar brýnt er að fjárfesting í innviðum á sviði heilbrigðisþjónustu, samgangna, fjarskipta og menntunar styðji við og stuðli að öflugu atvinnulífi í kjördæminu.

Menntamál

Greiður aðgangur að menntun er lykilatriði í nútímasamfélagi. Efnahagur og búseta fólks á ekki að standa í vegi fyrir því að það geti sótt sér þá menntun sem það kýs og er í þágu þess að mæta miklum breytingum í atvinnulífi þjóðarinnar.

Málefni ferðaþjónustunnar

Á undanförnum árum hefur orðið mikill vöxtur í ferðaþjónustunni sem hefur skilað mikilli fjárfestingu víða í kjördæminu. Við eigum enn mörg sóknarfæri á sviði ferðaþjónustu, ekki síst með því að hvert svæði skilgreini sig enn betur, líkt og stefnt er að í Vegvísi í ferðaþjónustu. Með því draga svæðin fram sérstöðu sína og nýta hana í markaðssetningu sinni. Þau verða betur samkeppnisfær og við getum stuðlað enn betur að því að ferðamenn sæki allt Ísland heim allt árið um kring. Með því nýtast betur þær fjárfestingar sem lagt hefur verið í víða í kjördæminu, þannig að atvinnugreinin verði enn burðugri sem heilsársatvinnugrein á svæðinu.

Mikilvægt er að leita leiða til að koma á beinu, reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll og eru miklar vonir bundnar við nýstofnaðan flugþróunarsjóð sem ætlað er að styðja við þessa þróun.

Lokaorð:

Ég vil þakka sjálfstæðisfólki í Norðausturkjördæmi fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt á undanförnum árum. Það er heiður og um leið mikil áskorun að hafa fengið að vera oddviti flokksins í kjördæminu.

Ég hef í störfum mínum kappkostað að standa vörð um hagsmuni íbúa kjördæmisins í þágu heildarhagsmuna þjóðarinnar.

Kjördæmið okkar er ríkt af auðlindum hvort heldur er á sviði náttúrugæða eða þekkingar og hugvitssemi íbúa. Þessi gæði gefa okkur sem að gefum kost á okkur til þess að starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn færi á því að sækja fram á ýmsum sviðum og ýta þannig undir aukna velsæld þjóðarinnar.