Ingibjörg Jóhannsdóttir

Ég heiti Ingibjörg Jóhannsdóttir, er 58 ára gömul og fæddist í Hafnarnesi, Fáskrúðsfjarðarhreppi.
Foreldrar mínir eru þeir Jóhann Jónsson sjómaður og bóndi og hún Kristín Þórarinsdóttir
fiskverkunarkona og húsmóðir. Faðir minn dó langt um aldur fram vegna hjartasjúkdóms en vegna veikinda hans hættu þau búskap og fluttu á Fáskrúðsfjörð. Í dag bý ég á Haugarnesi ásamt þremur börnum mínum sem eru 18, 23 og 27 ára og einu barnabarni mínu sem er fjögurra ára. Elsta barnið mitt sem er 30 ára, býr í Reykjavík ásamt sambýlismanni sínum. Einnig á ég annað barnabarn sem býr í Reykjavík og er á þriðja ári. Ég tók stúdentspróf og sjúkraliðan í fjölbrautaskólanum í Breiðholti og vann svo á bæði Landspítalanum og Borgarspítalanum um nokkurt skeið. Þegar ég eignast mitt fyrsta barn flutti ég austur aftur og ól öll börn mín þar. Fyrir austan vann ég við hin ýmsu störf eins og t.d. umönnun aldraða, keyrði skólabíl, keypti mér trillu, stundaði sjómennsku í tvö ár og beitningu ásamt barnföður mínum. Árið 2005 sleit ég og barnsfaðir minn samvistum og ég flutti norður á Akureyri ásamt börnum mínum. Hér fyrir norðan hef ég unnið við heimahjúkrun, umönnun fatlaðra og
aldraða. Ég komst að því að mig langaði að mennta mig meira svo ég byrjaði á því að skrá mig í hjúkrun við Háskólan á Akureyri. Eftir eitt ár þar áttaði ég mig á því að hugur minn leitaði sífellt í lögfræði svo ég skipti því yfir og tók B.A. gráðu í lögfræði sem ég útskrifaðist með í vor 2016. Þar sem mikill skortur er á atvinnu fyrir lögfræðinga í dag ákvað ég að stoppa við B.A. gráðunna og leita á nýjar slóðir. Í dag er ég því skráð í sálfræðinám en þó í fjarnámi til að geta hugsað um barnabarn mitt meðan móðir þess klárar framhaldskólan en yngstu börn mín stunda bæði nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri og er stefnan á útskrift næsta vor. Það má því segja að ég sé vel sjóuð í lífsins skóla og hef ég haft það einstaka tækifæri til að prófa svo ótalmarga hluti því þetta er aðeins brot af því sem ég hef gert um ævinna. Þetta hefur gefið mér þá gjöf að ég get auðveldlega sett mig í spor annarra sama á hvaða svið þeir starfa. Hvað varðar félagstörf þá hef ég lítið geta sinnt þeim vegna mikilla anna hvað snertir vinnu og svo að ala upp fjölskyldu.

  • Sækist eftir 2-5. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Nemi

Stefnumál:

Dómskerfið í dag er eitthvað sem við þurfum að huga að en að mínu mati þá finnst mér alltof
langur tími sem líður frá því að dómur falli í máli þar til einstaklingurinn þarf að taka út refsinguna. Komið hefur fyrir að einstaklingur hefur snúið við blaðinu, stofnað fjölskyldu en er þá svo allt í einu kippt inn í fangelsi og við tekur þá gamla lífið. Sú breyting sem ég myndi vilja sjá er sú að einstaklingur afpláni sína refsingu sem fyrst. Ef þetta úrræði er ekki fyrir hendi eins og t.d. vegna skorts á plássi og biðtíminn er orðin meira en ár mætti endurskoða stöðu hans. Ef svo hefur gerst að einstaklingurinn hefur staðið sig vel og snúið við blaðinu mætti breyta dómnum í samfélagsþjónustu og skilorð. Þessu myndi þá auðvitað fylgja ákveðin skilyrði og brot á þeim myndi þýða fangelsisvist og ef til vill lengingu á dómnum. Annað mál er varðar fanga sem mætti ráða bót á er það sem tekur við eftir afplánun. Það þyrfti að vera ákveðið ferli sem tæki við og myndi þá hjálpa þeim út í samfélagið á ný. Þeir sem myndu vilja vinna þyrftu að fá hjálp til að sækja um vinnu og allt sem viðkemur því, þar sem það getur reynst erfitt vegna skorts á hreinni sakaskrá. Einnig þurfa þeir að fá tækifæri til að mennta sig ef þeir óska eftir því. Með þessu yrði þá ef til vill hægt að sporna við því að þeir leiðist aftur út í glæpi. Bótakerfið í þeirri mynd sem við sjáum í dag er ekki að ganga eins og það hefur sannað sig að mínu mati. Ég myndi vilja sjá að það yrði stokkað upp í bótakerfinu eins og t.d. hjá öryrkjum. Þeir ættu að fá tækifæri til að komast út á vinnumarkað aftur án þess þó að þurfa hafa áhyggjur af því að missa bæturnar ári eftir að þeir byrja að vinna. Því oft telur einstaklingur sig geta farið út að vinna og getur það í fimm mánuði en svo gefur líkaminn sig á sjötta mánuðinum. Þá er sá einstaklingur búin að missa tekjur sínar næsta árið á eftir sem veldur því að fólk er kannski á bótum sem gæti unnið en þorir því einfaldlega ekki. Því væri hægt að leysa þetta þannig að einstaklingur getur skráð sig í vinnu og látið þá tryggingastofnun vita að hann sé byrjaður að vinna og myndu þá bætur hans falla niður. Ef svo fer að hann þarf að hætta eftir sex mánuði vegna veikinda eða meiðsla getur hann látið vita og dettur þá aftur inn á örorkubætur. Ef einstaklingurinn
getur hinsvegar enn unnið eftir tvö ár og hefur ekki þegið bætur á meðan myndi hann sjálkrafa detta út. Þetta eru hinsvegar einfaldaðar myndir af þeim lausnum sem ég myndi vilja sjá og auðvitað þyrfti að þróa þær betur og út frá öllum sjónarhornum.

Lokaorð:

Að lokum vil ég segja að ef svo fer að ég yrði kosin þá lofa ég því að reyna gera ávallt mitt
besta og gæta þess að hafa hagsmuni þjóðarinnar ávallt í fyrirrúmi. Þar sem maður veit aldrei nákvæmleg að hverju maður gengur þegar kemur að þingstörfum þá get ég ekki og mun ekki lofa neinu. Þau stefnumál sem ég hef nefnt hér að ofan get ég hinsvegar lofað að verði mér efst í huga. Sanngirni og réttlæti eru kostir sem ég met mikils og reyni því sem best ég get að tileinka mér þá. Ég er ákveðin manneskja, á erfitt með að horfa upp á ranglæti og hef aldrei verið hrædd við áskoranir. Ég hef aldrei gefist upp sama hversu sterkur mótbyr hefur dunið á mér. Ég vil því þakka fyrir þetta tækifæri sem mér er gefið og vona að þið nýtið rétt ykkar til að kjósa þann sem ykkur líst best á og treystið best til að vera fulltrúi ykkar.