Elvar Jónsson

Ég er 26 ára gamall og fæddur og uppalinn á Akureyri. Ég er í sambúð með Karítas Ólafsdóttur, tölvunarfræðingi, sem starfar hjá Meniga. Ég fluttist til Reykjavíkur fyrir fimm árum til að stunda nám við lagadeild Háskóla Íslands og er klára meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands næstu áramót. Ég hef sinnt ýmsum störfum meðfram námi en ég hef starfað hjá Ferðamálastofu, Íslenskum Verðbréfum og farið á sjó. Í dag meðfram námi starfa ég hjá lögfræðiráðgjöf Seðlabanka Íslands.
Ég hef verið mjög virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) frá árinu 2013. Þá hef ég gegnt stöðu varaformanns SUS frá árinu 2015. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015 var ég kjörinn í atvinnuveganefnd flokksins. Einnig sit ég í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðausturkjördæmi.

  •  Sækist eftir 4. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Laganemi og varaformaður SUS

Stefnumál:

Húsnæðismálin skipta miklu máli en það er erfitt fyrir ungt fólk að festa kaup á sinni fyrstu fasteign eða standa undir leigu á almennum leigumarkaði. Hið opinbera getur leyst þennan vanda með því að hvetja til byggingu lítilla, ódýrra og hagkvæmra íbúða með því að einfalda byggingarreglugerðina og aflétta íþyngjandi kröfum sem lækka byggingakostnað og þar af leiðandi íbúðaverð.

Það þarf að efla atvinnulífið. Öflugt atvinnulíf skapar störf við hæfi fyrir vel menntað fólk. Til að ungt fólk sjái hag sinn í því að búa og vinna á Íslandi þá verður að skapa þannig umhverfi að atvinnutækifærin séu næg og fjölbreytt. Þetta næst með því að lækka skatta og opinber gjöld ásamt því að einfalda regluverkið sem atvinnulífið býr við.

Mikilvægt er að ráðast í fjárfestingar í innviðum landsins en það hefur setið á hakanum frá árinu 2008. Það dylst engum sem ferðast hefur utan höfuðborgarinnar að bráðnauðsynlegt er að hefja uppbyggingu vegakerfisins og þannig auka umferðaröryggi. Tryggar og öruggar samgöngur eru lykilatriði til að landsbyggðin haldist sterk og blómstri.

Draga verður úr umsvifum hins opinbera. Ríkisvaldið teygir anga sína of víða og sinnir of mörgum verkefnum sem einstaklingar eru fullfærir um að sinna. Mikilvægt er að lækka skatta og einfalda skattkerfið enn frekar. Ríkisvaldið á að forgangsraða fjármunum sínum í þágu grunnþjónustunnar.

Við þurfum að standa vörð um sjávarútveginn og núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi sem er grundvöllur verðmætasköpunar í greininni. Á sama tíma og sjávarútvegur flestra OECD ríkja er rekinn með tapi er rifist um hvað eigi að gera við hagnaðinn af sjávarútveginum á Íslandi.

Standa þarf vörð um frelsi einstaklingsins til orða, athafna og viðskipta. Einstaklingar eiga sjálfir að fá að ráða því hvernig þeir haga lífi sínu í skjóli frá ríkisvaldinu. Það er til dæmis ekki hlutverk ríkisins að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar velja börnum sínum eða hvar fullorðið fólk verslar áfengar en löglegar vörur.

Tryggja þarf óskerta og áframhaldandi starfsemi Reykjavíkurflugvallar sem er miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Á meðan ekki er búið að finna jafngóðan eða betri stað undir nýjan flugvöll þá er ótækt að skerða starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Lokaorð:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð miklum árangri á liðnu kjörtímabili en betur má ef duga skal. Ég vil leggja mitt að mörkum og nýta tækifærin sem við stöndum frammi fyrir til frekari uppbyggingar og frjálsara samfélags. Sjálfstæðisflokkurinn þarf einnig að bjóða fram fjölbreyttan hóp fólks til setu á Alþingi, vera óhræddur við að veita ungu fólki brautargengi og sýna þannig að flokkurinn eigi samleið með ungu fólki.

Ég óska því eftir þínu atkvæði í 4. sætið, ekki aðeins vegna þess að ég er ungur, heldur vegna þess ég hef sterkan málefnalegan grunn, mun standa vörð um frelsi einstaklingsins til athafna og viðskipta ásamt því að leggja mitt að mörkum til að tryggja Sjálfstæðisflokknum sem besta kosningu í kjördæminu okkar í komandi Alþingiskosningum.