Daníel Sigurður Eðvaldsson

Ég er á mínu 30. aldursári og er búsettur á Akureyri ásamt Ingibjörgu unnustu minni, níu ára stjúpsyni mínum Birni Halldóri og fjögra ára dóttir minni Árnýju Helgu. Fæddur er ég þó í Reykjavík þar sem ég ólst upp fyrir utan nokkur ár erlendis, þó lengst af í Þýskalandi. Ég er menntaður fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri en starfa hjá Becromal á Íslandi þar sem ég sé um framsleiðsluskipulagið. Lengst af hef ég þó starfað sem vefforritari bæði sem verktaki og nú með sjálfstæðan rekstur.

Það skemmtilegasta sem ég hef gert var að skrá mig í skátana enda var ég mjög virkur í skátastarfi á mínum yngri árum. Eftir að hafa fengið forsetamerkið sótti ég nýliðafund hjá björgunarsveit á höfuðborgarsvæðinu og varð strax hrifinn af því stafi. Í næstum tólf ár hef ég verið virkur björgunarmaður á útkallsskrá og tekið þátt í verkefnum að öllu stærðargráðum bæði sem björgunarmaður og sem fagmenntaður aðgerðastjórnandi.

Félagsstörf almennt hafa verið mér kær en ég hef tekið virkan þátt í nemendafélögum bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi og gengt þar ýmsum störfum. Allt frá auglýsingagerð til formanns. Innan Sjálfstæðisflokksins hef ég setið bæði í stjórn og varastjórn hjá Verði, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri.

  • Sækist eftir 5-6. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Fjölmiðlafræðingur

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurnýja það traust sem hefur glatast undanfarin ár. Margar aðgerðir á undanförnu hafa verið jákvæðar og munu stuðla að meira vali og frelsi einstaklinga án þess þó að ráðast nægilega fast að rót vandamálana sem kallað er eftir að leysa. Ég hef þá sýn að ríkisvaldið eigi að vera lítið í sniðum og afmarkað við ákveðin málefni en við höfum haft mjög auðvelt með að auka miðstýringu sem lausn við vandamálum okkar sem hefur oftar en ekki skapað fleiri vandamál í staðinn. Er því mikilvægt að stjórnsýsla landsins sé endurskoðuð og farið kerfisbundið í það að einfalda hana sem skilar sér í betri nýtingu á almannafé.

Komist ég inn á þing eða verði kallaður inn sem varamaður mun ég standa vörð um réttindi fólks og hugmynda og vinna að því að stuðla að bæta stjórnsýslu landsins. Ég hef ýmsar hugmyndir sjálfur sem ég muni vilja halda á lofti og reyna að láta til mín taka en þau eru meðal annars eftirfarandi.

  •  Ég tel mikilvægt að ríkið stundi ekki fyrirtækjarekstur og er fyrst og fremst kaupandi á þjónustu þegar við á. Því er mikilvægt að opinberir aðilar festi sig ekki of mikið í rekstrarkostnaði á föstum hlutum eins og húsnæði sem getur verið full nýtt á einum tímapunkti en verið með lélega nýtingu á öðrum tímum sem skapar óþarfa kostnað. Þetta tel ég vera mikla sóun á almannafé og hægt að leysa með auknum, vel skilgreindum útboðum. Jafnframt eykur slík aðgerð verðmætasköpun í samfélaginu sem skilar sér síðan aftur í betri kjörum og bættum lífstíl.
  • Endurskoða þarf samspil sveitastjórna og ríkisvaldsins. Með auknu álagi vegna ferðamannaiðnaðarinns og örum tæknibreytingum er sífellt erfiðara fyrir ríkisvaldið að sinna verkefnum sínum þannig að þau komi sem jafnt niður á öllu landinu. Því vill ég stuðla að því að sveitastjórnir fái aukna heimildir á kostnað ríkis til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um uppbyggingu og að skatttekjur renni í meira mæli í sjóði þess sveitafélags þar sem þau verða til. Þannig er hægt að einbeita sér betur að frekari innviðauppbyggingu og auka um leið jákvæða samkeppni milli sveitarfélaga.
  • Halda þarf áfram þeirri vinnu í mennta- og heilbrigðismálum með það að marki að gera grunnþjónustuna aðgengilegri og skilvirkari. Við sem samfélag viljum að allir geta sótt sér þjónustu á því sviði óháð efnahag og því nauðsynlegt að vanda til verka.
  • Taka þarf til gagngerðar endurskoðunar þá skattastefnu sem komin er til ára sinna. Fyrir utan að reyna að innheimta hógværa skatta er mikilvægt að einfalda og gera skattheimtu mun gegnsæjara þannig að hægt er að sjá betur áhrif þeirra á rekstur þeirra grunnstoða samfélagsins en einnig á veski hvers launþega. Hvað fyrirtækjaskatta varðar þá er nauðsynlegt að skapa umhverfi þar sem einni atvinnugrein er ekki gert hærra undir höfði og allir sitji við sama borð.
  • Netöryggi er mikið í umræðu og því miður er mikill vilji til að skerða réttindi og frelsi fólks á netinu. Þurfum að stíga mjög varlega í þeim efnum þannig að við aukum öryggi notenda en skerðum ekki frelsi og réttindi fólks.

Lokaorð:

Það að tíu manns hafa gefið kost á sér í sex efstu sætin er mjög jákvætt og um leið spennandi. Að sama skapi er mjög jákvætt að sjá þá breidd sem virðist einkenna prófkjör í öðrum kjördæmum og því spennandi tímar framundan hvernig sem úrslitin verða. Ég vona innilega að sem flestir sem hafa seturétt mæti á kjördæmisþingið næstu helgi og kjósi listan okkar og sýni honum stuðning. Nýtum kosningarétt okkar og höfum áhrif.