Arnbjörg Sveinsdóttir

Ég er fædd 18.febrúar 1956. Foreldrar mínir voru Sveinn Guðmundsson frá Mýrarlóni við Akureyri og Guðrún Björnsdóttir frá Seyðisfirði. Ég er alin upp á Seyðisfirði ásamt þremur systkinum mínu.Faðir minn rak þar Söltunarstöðina Ströndina, síðar verktakafyrirtæki og var umboðsmaður Eimskips. Móðir mín starfaði að þessum rekstri ásamt húsmóðurstörfum og barnauppeldi, en hún lést ung eða 1.sept. 1971.

Ég giftist árið 1975 Garðari Rúnari Sigurgeirssyni matreiðslumanni frá Staðarhóli Eyjafirði. Við erum nú skilin. Brynhildur og Sigurgeir á Staðarhóli eignuðust tíu börn, svo að þar eignaðist ég stóra fjölskyldu. Við eignuðumst dótturina Guðrúnu Rögnu 1976 og Brynhildi Berthu 1980. Guðrún Ragna er gift Jóni Val Sigurðssyni og eiga þau börnin Mikael, Breka og Magneu. Maki Brynhildar Berthu er Elvar Snær Kristjánsson og eiga þau sonin Aron. Allt er þetta dásamlegt fólk og skiptir mig miklu.

Skólagangan hófst í Seyðisfjarðarskóla. Ég tók landspróf frá Eiðum, þriðja bekk í MA, en fjórða til sjötta í MR og lauk þaðan stúdentsprófi 1976. Ég stundaði laganám í tvö ár í HÍ, en þá kölluðu fjölskyldu skyldur mig frá námi og ég flutti á Seyðisfjörð. Ég lauk MBA-gráðu frá Háskóla Íslands 2012.

Á námsárum starfaði ég við ýmislegt á Seyðisfirði, fiski, sundlauginni, við afgreiðslu Eimskips og Smyril. Veturinn eftir stúdentspróf bjó ég á Seyðisfirði og kenndi í Seyðisfjarðarskóla. Við fluttum suður og ég var fulltrúi í launadeild Ríkisspítalanna til 1980 þegar ég fór í fæðingarorlof og háskólann. Við fluttum á Seyðisfjörð 1983 og ég starfaði á skrifstofu Fiskvinnslunnar og Gullbergs hf. og svo hjá Fiskvinnslunni Dvergasteini sem fjármála- og skrifstofustjóri þar til ég var kjörin á Alþingi 1995. Ég sat á Alþingi 1995 til 2003 fyrir Austurlandskjördæmi og frá 2004 til 2009 fyrir Norðausturkjördæmi. Eftir það hef ég sinnt ýmsum stjórnarsetum í fyrirtækjum og stofnunum. Ég hóf rekstur á gistiheimilinu Post-Hostel 2011. Það hefur verið að stækka og dafna með auknum húsakosti og fjölgun ferðamanna.

Ég var kjörin í bæjarstórn Seyðisfjarðar 1986 og sat þar í þrjú kjörtímabil og svo aftur 2010. Ég hef verið forseti bæjarstjórnar mikið af þessum tíma. Ég hef setið í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi SSA og verið þar formaður um tíma. Ég hef setið í fjölda stefnumótunarnefnda fyrir sveitarstjórnarstigið og stofnanir ríkisins, meðal annars um framhaldsnám á Austurlandi, tekjustofna sveitarfélaga, jöfnunarsjóð sveitarfélaga, jafréttismál, fjarskiptamál, flugvallamál, jarðgöng, húshitunarmál, húsnæðismál og fleira.
Ég var formaður þingflokks Sjálfstæðismanna frá 2005 til 2009. Á Alþingi sat ég mörgum nefndum þingsins og formaður í sumum.

  • Sækist eftir 3. sæti í Norðausturkjördæmi
  • Starfsheiti: Bæjarfulltrúi og fyrrv þingmaður

Stefnumál:

Við þurfum að standa vörð um þann stöðugleika sem tekist hefur að ná í efnahagsmálum. Þaðverður ekki gert nema með Sjálfstæðisflokkinn í forystu landsmála. Þau áherslumál sem ég tel að þurfi að vera í forgrunni hjá okkur sjálfstæðismönnum í NA-kjördæmi á næsta kjörtímabili eru einkum þau sem snúa að innviðum, grunnþjónustu og atvinnumálum.

Samgöngur

Fyrir okkur sem búum í hinum dreifðu byggðum landsins eru góðar samgöngur forsenda búsetu og atvinnulífs. Því er það helsta baráttumál okkar að þeir innviðir verði byggðir upp, hvort sem um er að ræða vegi, hafnir eða flugvelli. Sú atvinnugrein sem nú er í hvað mestum vexti – ferðaþjónustan – byggir á að þessir innviðir séu í ásættanlegu horfi. Í okkar kjördæmi er allt of mikið eftir af stórum og aðkallandi verkefnum. Hér verða vegir ekki lagðir nema að ráðast í áframhaldandi jarðgangagerð á þó nokkrum stöðum. Flugvellirnir í kjördæminu hafa allir þörf fyrir meiri fjármuni til viðhalds og uppbyggingar. Við þurfum jafnframt að beita okkur fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni.

Ljósleiðaravæðing

Mikil tækifæri tengjast því að landið allt verði ljósleiðaravætt. Í fyrsta lagi krefjast nútímaatvinnuhættir í hvaða atvinnugrein sem er þess að vera í góðu netsambandi. Þar sem ekki er komið sæmilegt netsamband líða atvinnugreinar fyrir það. Jafnframt er netsamband nauðsynlegur hluti nútímalifnaðarhátta. Það er því algjör nauðsyn að grunnkerfi fjarskipta verði endurnýjað með ljósleiðara um allar byggðir landsins. Það átak sem nú er í gangi í samstarfi Fjarskiptasjóðs og sveitarfélaganna verður að ganga fram með nægum fjármunum svo ljúka megi ljósleiðaravæðingunni á næstu tveimur árum.

Grunnþjónusta

Menntakerfið þarf að vera öflugt til að fjölskyldur sjái sér fært að ákveða búsetu í kjördæminu okkar. Því þurfa framhaldsskólarnir að búa við öruggt starfsumhverfi og fá tækifæri til að þróast eðlilega miðað við nútímakröfur um miðlun þekkingar. Háskólinn á Akureyri er lykilstofnun í kjördæminu og þarf að geta sinnt kennslu- og rannsóknum af krafti. Því þarf að standa vörð um að fjárveitingar til hans séu í eðlilegu samræmi við það sem aðrir háskólar búa við. Jafnframt þarf að leita leiða til að háskólakennsla geti farið fram á Austurlandi. Hægt er meðal annars að leita fyrirmynda í Skotlandi fyrir dreifsettan háskóla þar sem rannsóknarsetrin og náttúrstofurnar geta verið þáttur í öflugu rannsóknarstarfi hans.

Heilsugæslu-, öldrunar- og sjúkrahúsþjónustu þarf sífellt að vera að endurskoða með tilliti til breyttra þarfa og tæknibreytinga. Markmiðið er að fólk hafi aðgang að skilvirkri og vel skipulagðri þjónustu. Sjúkraflug er nauðsynlegur öryggisþáttur sem hefur verið vel skipulagður og mikilvægt að skilningur sé fyrir að svo verði áfram. Húsnæðismál ungs fólks hafa verið í brennidepli og finna þarf farsæla lausn á því að unga fólkið eigi möguleika á því að koma sér þaki yfir höfuðið.

Húsnæðismál í hinum dreifðu byggðum er einnig mikið vandamál þar sem byggingarkostnaður og markaðsverð fara ekki saman. Víða er húsnæðisskortur sem hamlar þróun byggðanna. Finna þarf leiðir til að lækka byggingarkostnað til að koma til móts við þessa þörf. Samdráttur í opinberri þjónustu á landsbyggðinni hefur haft alvarlegar afleiðingar og komið er að endimörkum þar. Á þetta við meðal annars löggæslu og þjónustu sýslumanna. Stjórnvöld verða að móta stefnu um dreifingu opinberrar þjónustu með sanngirni og jafnræði að leiðarljósi. Opinber þjónusta þarf að vera til staðar víðar en í höfuðborginni.

Atvinnumál

Kjördæmið byggir í grunninn á sjávarútvegi og landbúnaði. Jafnframt er nú stóriðnaður og ferðaþjónusta orðin mjög umtalsverður þáttur í atvinnulífinu. Þessar greinar eru allar blómlegar um þessar mundir og það er okkar hlutverk að standa vörð um að svo geti verið áfram. Það að hafa þessar greinar öflugar er svo forsenda þess að aðrar greinar þrífist jafnframt, svo sem verslun og þjónusta og skapandi greinar ýmiskonar.

Lokaorð:

Að undanförnu hefur verið á það bent að mikil reynsla og þekking sé að glatast á Alþingi með örum mannaskiptum. Ég er meðal annars að bregðast við því ákalli. Mín tæp 14 ára reynsla af þingstörfum og löng reynsla við störf að sveitarstjórnarmálum hefur þýðingu í þessu sambandi.

Ég hef alltaf brunnið fyrir málefnum landsbyggðarinnar og okkar góða kjördæmis. Mörg og mikil tækifæri eru framundan. Víða þarf að taka til hendinni og ekki síst í samgöngumálum, þar sem kjördæmið okkar hefur átt undir högg að sækja. Ég hef áhuga á að takast á við þessi verkefni að nýju.

Það skiptir miklu að Sjálfstæðisflokkurinn nái góðri kosningu í haust. Fyrir okkur í Norðausturkjördæmi skiptir máli að við stillum upp sigurstranglegum lista með því góða og öfluga fólki sem ákveðið hefur að gefa kost á sér til setu á honum. Ég vona að ég fái tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að svo geti orðið.