Samgöngu- og fjarskiptamál

  • Stórauka þarf fjármagn til viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi landsins
  • Fækkum einbreiðum brúm og aukum umferðaröryggi á þjóðvegum
  • Ferjuleiðir verði hluti af þjóðvegakerfinu
  • Ljósleiðaratenging landsins tryggð
  • Stuðla að öflugu innanlandsflugi og millilandaflugi
  • Áhersla lögð á viðhald flugmannvirkja í samræmi við alþjóðastaðla
  • Reykjavíkurflugvöllur verður í Vatnsmýri

Samgöngur eru æðakerfi landsins og mikilvæg undirstaða atvinnulífs,
ferðaþjónustu og samkeppnishæfni byggðarlaga landsins. Fjárfestingar í innviðum
samfélagsins eru almennt arðsamar, enda þjóna þær Íslendingum, ferðaþjónustu og
styrkja bæði atvinnulíf og búsetu. Því ber að efla almenningssamgöngur jafnt í
þéttbýli sem og í hinum dreifðari byggðum. Skoða þarf sérstaklega annars konar
fjármögnun samgöngumannvirkja en bein framlög af fjárlögum, svo sem
samstarfsfjármögnun.

Allar framkvæmdir í samgöngumálum hafi aukið öryggi að leiðarljósi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins
sem hefur látið á sjá á undanförnum árum. Aukin burðargeta og stytting
vegalengda verði þar markmiðið.

Átak hefur verið gert í því að fækka einbreiðum brúm. Vinna þarf áfram ötullega að
fækkun þeirra, bæði til þess að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð.
Ferjuleiðir verði skilgreindar sem hluti af þjóðvegakerfinu og sem liður í eflingu
ferðaþjónustu.

Ljósleiðaratengingu landsins hefur miðað vel en Sjálfstæðisflokkurinn mun gera
gangskör að því að breiða háhraðatengingar út til hinna dreifðu byggða. Það er
mikilvægt lífsgæðamál en jafnframt lykill að styrkingu fjölbreytts atvinnulífs á
landsbyggðinni. Verkefnið Ísland ljóstengt hefur að markmiði að koma á 4000
ljóstengingum fyrir árslok 2020. Þar verður um eina mestu innviðabyltingu
fjarskipta í landinu að ræða.

Hlúð verður að öflugu innanlandsflugi, sem er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina
alla. Hafin er vinna við að fara yfir núverandi fyrirkomulag og er henni ætlað að
bæta aðgengi landsmanna og ferðaþjónustunnar að hagkvæmu innanlandsflugi og 
styrkja atvinnurekstur á landsbyggðinni. Lögð verður áhersla á viðhald flugvalla og
varaflugvalla í samræmi við alþjóðastaðla.

Reykjavíkurflugvöllur er og verður í Vatnsmýri þar til betri kostur finnst.
Flugvöllurinn er þýðingarmikil miðstöð íslensks áætlunarflugs, áfangastaður til
bráða- og hátæknisjúkrahúss landsins og mikilvægur varaflugvöllur
millilandaflugs. Jafnframt verði áfram hugað að uppbyggingu flugvalla til þess að
styrkja millilandaflug til fleiri staða en Keflavíkurflugvallar.