Ríkisfjármál

  • Lækkun skulda, haftalosun, hagræðing og hömlur á útgjaldavöxt
  • Skynsamleg nýting opinberra fjármuna og aga í fjárlagagerð
  • Áframhaldandi fjármögnun á uppbyggingu samfélagslegra innviða
  • Hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan 10 ára
  • Sala ónauðsynlegra ríkiseigna og fasteigna
  • Opnun bókhalds ríkisins fyrir almenningi

Góður árangur í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu veitir tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir með niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, lækka álögur á fólk og treysta grunnþjónustu ríkisins. Þannig tryggjum við aukna velferð allra.

Alger viðsnúningur varð í rekstri ríkisjóðs á kjörtímabilinu. Hallarekstri var snúið við og undir stjórn Sjálfstæðisflokksins verður ríkissjóður áfram rekinn með afgangi. Jafnframt verður lögð áhersla á áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, haftalosun, hagræðingu í ríkisrekstri og hömlur á útþenslu ríkisútgjalda.

Góður árangur hefur náðst við að lækka skuldir ríkissjóðs. Þær eru þó enn of miklar, um 61% af landsframleiðslu í lok árs 2015 (var 84% í lok árs 2012). Samkvæmt áætlun fer hún í 32% árið 2021, en betur má ef duga skal. Vaxtagjöld eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga, svipuð og öll útgjöld ríkisins til mennta og menningarmála.

Losun fjármagnshafta er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda. Þar hafa stór og mikilvæg skref verið stigin, en Ísland verður ekki samkeppnishæft fyrr en gjaldeyrishöftunum hefur verið aflétt að fullu. Þau hafa reynst þjóðarbúinu afar þungbær, skaðleg og hafa skert athafnafrelsi fólks.

Nauðsynlegt er að koma böndum á frekari útþenslu hins opinbera. Við viljum draga úr umsvifum ríkisins og setja grunnþjónustu í forgang. Markmiðið er að opinber útgjöld vaxi ekki umfram vöxt landsframleiðslunnar og að hreinar skuldir ríkissjóðs verða engar innan 10 ára.

Sjálfstæðismenn vilja að framkvæmd fjárlaga verði agaðri en venjan hefur verið, þannig að heildarútgjöld samkvæmt ríkisreikningi verði aldrei hærri en fjárlög leyfa. Auka verður aga og ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna.

Sjálfstæðisflokkurinn vill losa ýmsar ríkiseignir s.s. eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, ÁTVR og í öðrum samkeppnisrekstri, en ríkið hefur að undanförnu eignast mörg fyrirtæki alls óviðkomandi hlutverki ríkisvaldsins. Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að drjúgur hluti eignarhluta ríkisins í stóru bönkunum verði almenningssvæddur og eignarhald almennings í þeim verði milliliðalaust. Þá þarf einnig að losa hið opinbera við ónauðsynlegar fasteignir.

Sjálfstæðisflokkurinn mun gangast fyrir því að opna bókhald ríkisins, svo það verði aðgenglegt hverjum sem er, jafnharðan og það er fært inn. Þannig eykst gegnsæið í opinberum fjármálum. Í framhaldinu vill Sjálfstæðisflokkurinn að sveitarfélög opni bókhald sitt með sama hætti.