Ríkisfjármál

  • Frekari lækkun skulda, hagræðing og hömlur á útgjaldavöxt
  • Skynsamleg nýting opinberra fjármuna og aga í fjárlagagerð
  • Áframhaldandi fjármögnun á uppbyggingu samfélagslegra innviða
  • Hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar árið 2025
  • Sala ónauðsynlegra ríkiseigna og fasteigna
  • Opnun bókhalds ríkisins fyrir almenningi

Góður árangur í ríkisfjármálum hefur veitt tækifæri til að byggja upp og búa í
haginn fyrir komandi kynslóðir með niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, lækka álögur á
fólk og treysta grunnþjónustu ríkisins. Þannig tryggjum við aukna velferð allra.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri ríkisjóðs.
Tryggja verður að ríkissjóður sé ekki rekinn með halla. Jafnframt verður lögð
áhersla á áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, hagræðingu í ríkisrekstri og hömlur
á útþenslu ríkisútgjalda.

Skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar verulega undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Við höfum lækkað vaxtakostnað um tugi milljarða á ári.

Nauðsynlegt er að koma böndum á frekari útþenslu hins opinbera. Við viljum draga
úr umsvifum ríkisins og setja grunnþjónustu í forgang. Markmiðið er að opinber
útgjöld vaxi ekki umfram vöxt landsframleiðslunnar og að hreinar skuldir ríkissjóðs
verði engar árið 2025. Auka verður aga og ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna og
tryggja það að heildarútgjöld samkvæmt ríkisreikningi verði aldrei hærri en fjárlög
leyfa.

Sjálfstæðisflokkurinn vill losa ýmsar ríkiseignir s.s. eignarhlut í
fjármálafyrirtækjum, ÁTVR og í öðrum samkeppnisrekstri, en ríkið hefur eignast
mörg fyrirtæki alls óviðkomandi hlutverki ríkisvaldsins. Sjálfstæðisflokkurinn
stefnir að því að drjúgur hluti eignarhluta ríkisins í stóru bönkunum verði
almenningssvæddur og eignarhald almennings í þeim verði milliliðalaust. Þá þarf
einnig að losa hið opinbera við ónauðsynlegar fasteignir.

Sjálfstæðisflokkurinn mun gangast fyrir því að opna bókhald ríkisins, svo það verði
aðgenglegt hverjum sem er, jafnharðan og það er fært inn. Þannig eykst gegnsæið í
opinberum fjármálum. Í framhaldinu vill Sjálfstæðisflokkurinn að sveitarfélög opni
bókhald sitt með sama hætti.