Nýsköpun, rannsóknir og vísindastarf

  • Nýsköpun, rannsóknir og vísindi eru grundvöllur framþróunar og framleiðni
  • Nýtum tækni- og samfélagsbyltingu upplýsingaaldar
  • Menntakerfið þarf að tileinka sér breytingar
  • Aukum rannsóknaframlag til háskólastigsins
  • Greiða þarf götu sprotafyrirtækja

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að efla nýsköpun og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Lykillinn að því er bætt menntun, rannsóknir og markviss þróun. Vel hefur gengið að þroska ýmsar frumframleiðslugreinar í átt að þekkingariðnaði, sem hefur aukið verðmætasköpun og nýtt mannauðinn betur. Á þeirri braut þarf að halda áfram. Meira vinnur vit en strit.

Tækniframfarir upplýsingaaldar, deilihagkerfi og annað af þeim toga munu valda gríðarlegum þjóðfélagsbreytingum á Íslandi á næstu áratugum. Miklu skiptir að Íslendingar geti tileinkað sér þær og ekki eftirbátar samkeppnisþjóða okkar. Það mun kalla á umfangsmiklar breytingar í opinberum rekstri, einkageiranum, menntakerfinu, fjölmiðlun og öðrum sviðum samfélagsins.

Menntakerfið þarf að bregðast hratt og örugglega við þessum áskorunum, markmið þess og stefnumótun að liggja fyrir og stjórnvöld að greiða fyrir þeim breytingum, sem gera þarf. Ekki síst á það við um rannsóknir og þróun, bæði í háskólasamfélaginu og atvinnulífi.

Augljóst og brýnt verkefni tengist uppbyggingu í ferðaþjónustu, þar sem takmarkaðar rannsóknir fara fram og menntakerfið hefur ekki brugðist við, á sama hátt og skýr stefna og stýring í sjávarútvegsmálum leiddi til aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar þar.

Menntakerfið og þá ekki síst háskólakerfið þarf að hafa fjárhagslegan styrk til að sinna vísindastarfi og rannsóknum, sem eru grundvöllur nýsköpunar og atvinnuþróunar um land allt. Það á bæði við innan auðlindahagkerfisins og skapandi greina á sviði þekkingar, meðal annars á sviði menningar, lista og tækniþróunar. Hvetja þarf til aukinnar nýsköpunar, rannsókna og vísindastarfs í atvinnulífinu á sama tíma og auka þarf rannsóknarframlag til rannsóknarsjóða og háskólastigsins. Vísindin efla alla dáð.

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að greiðara aðgengi frumkvöðla og sprotafyrirtækja að fjármagni. Jafnframt þarf að einfalda regluverk fyrir nýsköpun í atvinnulífi, bæta opinbera þjónustu og úrræði til stuðnings við sprotastarfsemi, ekki síst í samhengi við losun fjármagnshafta, sem mun opna margvísleg tækifæri fyrir sprotafyrirtæki á alþjóðavettvangi, bæði hvað varðar samstarf, markaðssókn og starfskraft.