Húsnæðismál

  • Ungu fólki verði auðvelduð fyrstu íbúðarkaup
  • Stuðlað verði að virkari sölu- og leigumarkaði
  • Byggingarreglugerð verði einfölduð og byggingarkostnaður þannig lækkaður
  • Afskiptum hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum verði hætt
  • Ríki og sveitarfélög stuðli að jafnvægi á fasteignamarkaði

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja fólki valfrelsi og fjárhagslegt sjálfstæði til að taka
ákvörðun um hvort það vill leigja eða eignast húsnæði. Sjálfstæðisflokkurinn leggur
áherslu á að ungt fólk geti eignast eigið íbúðarhúsnæði.

Við viljum auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð en tryggja jafnframt að
það eigi kost á leiguhúsnæði á virkum leigumarkaði. Lækka verður
byggingarkostnað og tryggja aukið framboð á lóðum og íbúðum. Um leið verði ungu
fólki auðvelduð fyrstu íbúðarkaup með bæði skattalegum og vaxtalegum hvötum til
sparnaðar, sem standi undir útborgun við fyrstu kaup. Með það að markmiði festi
Sjálfstæðisflokkurinn séreignarsparnaðarleiðina í sessi.

Jafnframt verði byggingarreglugerðin einfölduð þannig að stærð og gerð húsnæðis
sé háð þörfum og vilja húsbyggjenda, seljenda og kaupenda, en ekki hins opinbera.
Þannig má bæði fá fjölbreyttari íbúðamarkað og lækka íbúðaverð, ekki síst fyrir
ungt og efnaminna fólk.

Stuðla þarf að því að virkur leigumarkaður byggist upp á Íslandi eins og í flestum
nágrannalöndum okkar. Það er gert með því að gera leigumarkað fýsilegan fyrir
fasteignafélög og jafnframt tryggja betur hag leigjanda hvað varðar leigukjör.
Leigumarkaður er nauðsynlegur til að tryggja sveigjanleika sérstaklega fyrir ungt
fólk, sem vill ekki binda fé í fasteign og fyrir erlenda starfsmenn sem hafa ekki hug
á að festa sér íbúðarhúsnæði.

Við viljum afnema afskipti hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum á lánum
vegna húsnæðiskaupa.

Sjálfstæðisflokkurinn vill leita allra leiða — bæði hjá ríki og sveitarfélögum — í
húsnæðismálum, svo tryggja megi aukið framboð lóða og lægri byggingarkostnaður.
Þannig næst stöðugleiki og eðlilegt jafnvægi á fasteignamarkaði.