Heilbrigðismál

 • Lækkun lyfja- og sjúkrakostnaðar einstaklinga. Lög sett sem tryggja þak á kostnað einstaklinga
 • Uppbygging Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut, fjármögnun hefur verið tryggð
 • Heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað en styrkja verður grunn heilbrigðisþjónustunnar enn frekar
 • Áframhaldandi átak í styttingu biðlista
 • Aukin þjónusta við aldraða
 • Fjölgun hjúkrunarrýma. Nýbyggingar með ríflega 400 hjúkrunarrýmum fram til ársins 2019
 • Rekstur hjúkrunarheimila tryggður með rammasamningi. Langtímauppbygging innviða og aukin hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfisins
 • Heildstæð heilbrigðisstefna mótuð og henni hrint í framkvæmd
 • Geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd
 • Forvarnir og heilsuefling almennings
 • Stefna um fjarheilbrigðisþjónustu
 • Stefna í lyfjamálum

Efnahagur fólks á ekki ráða aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Greiðsluþátttaka má ekki vera nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt, í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs, að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar og færa hana til til jafns við það sem þekkist á Norðurlöndum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu aukið framlög til heilbrigðismála verulega. Á þessu ári verða útgjöld um 38,5 milljörðum hærri en 2013 samkvæmt fjárlögum, að meðtöldum launa- og verðlagsuppbótum. Samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis hefur verið styrkt, auknu fé varið til tækjakaupa, heilsugæslustöðvum fjölgað, rekstur hjúkrunarheimila styrktur, hjúkrunarheimilum fjölgað og síðast en ekki síst hefur fjármögnun nýs Landspítala verið tryggð.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður endurreisn heilbrigðiskerfisins haldið áfram. Nauðsynlegt er að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu Landspítalans gangi eftir. Áfram verður að hlúa að heilsugæslunni sem fyrsta viðkomustaðar í heilbirgðiskerfinu. Fjölga verður heilsugæslustöðvum og auka þjónustu þeirra, ekki síst á sviði geðheilbrigðis.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á forvarnir og heilsueflingu almennings og að stuðlað verði að heilbrigðari lífsháttum. Við viljum leggja áherslu á fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta á öllum skólastigum og stuðla að þeim með beinum hætti í skólastarfi. Við viljum móta heildræna stefnu í geðheilbrigðismálum, þar sem áhersla er lögð á að greina og taka á vandamálum á fyrstu stigum, bæði í heilbrigðiskerfinu og með félagslegum úrræðum. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál. Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu sviði.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að unnið verði eftir langtímastefnu í heilbrigðismálum á grunni heilbrigðisáætlunar sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fram til kynningar. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu sem er einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og mikilvægur þáttur í að tryggja góð lífskjör og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Jafn aðgangur og réttur til heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, skal vera ófrávíkjanlegur hluti af heilbrigðisstefnunni.

Helstu markmið heilbrigðisstefnunnar eru eftirfarandi:

 • Tryggja aðgengi og jafnan rétt allra landsmanna að nauðsynlegri, öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu.
 • Allir eigi greiðan aðgang að sinni heilsugæslustöð og fái tíma hjá heimilislækni innan fimm daga ef þörf krefur.
 • Bið eftir þjónustu sérfræðilækna, sem ekki telst bráðaþjónusta, verði ekki lengri en 30 dagar.
 • Meðferð, lyfja- og/eða skurðaðgerð, hefjist innan 90 daga frá sjúkdómsgreiningu.
 • Aðgengi einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum sé tryggt.
 • Árangur þjónustunnar sé sýnilegur og mælanlegur.

Þessum markmiðum verður meðal annars náð með:

 • Styrkari heilsugæslu, þannig að hún verði fyrsti viðkomustaður allra sem ekki þurfa á bráðaþjónustu að halda.
 • Aukinni samvinnu stofnana heilbrigðiskerfisins.
 • Fjarheilbrigðisþjónustu.
 • Greiðslukerfi sem ekki mismunar rekstrarformum og styður við markvissari árangur.
 • Sameiginlegri símaráðgjöf um heilbrigðisþjónustu fyrir allt landið ásamt gagnvirkri vefsíðu með fræðslu um heilbrigðisþjónustu og upplýsingum um hvert skuli leita.
 • Tengingu sjúkraskráa í eina rafræna sjúkraskrá fyrir allt landið.
 • Skipulegri nýtingu gagnagrunna erfðafræðilegra upplýsinga.
 • Fjárfestingum í innviðum þar sem bygging háskólasjúkrahúss í nánum tengslum við háskólasamfélagið er í forgangi.

Fjölga þarf heilsugæslum og hjúkrunarýmum. Áfram þarf að efla heimahjúkrun og stytta biðlista. Viðmiðið þarf að vera að enginn bíði lengur en 3 mánuði frá tilvísun læknis. Eins þarf að leggja aukið kapp á að halda í og laða til okkar heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að nýta áfram möguleika á fjölbreyttu rekstrarformi með áherslu á skýrar gæðakröfur samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Áfram skal bjóða út rekstur heilsugæslu þar sem það hentar, og heilbrigðisstarfsfólki innan heilsugæslunnar verði í auknum mæli gert kleift að starfa sjálfstætt með samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þá verður að tryggja betur aðgengi landsbyggðarinnar að hvers konar sérfræðiþjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn vill auk ofangreindra atriða horfa til hvernig nýta megi upplýsingatækni og nýta samskiptatækni betur.

Endurskoða þarf viðmiðunargjaldskrá sjúkratrygginga vegna tannlækninga lífeyrisþega.