Heilbrigðismál

  • Heilbrigðisþjónusta óháð efnahag
  • Lækka þarf kostnað sjúklinga enn frekar
  • Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir
  • Efla þarf heilsugæsluna
  • Fjölga verður hjúkrunarrýmum og auka þjónustu við aldraða
  • Við ætlum að innleiða tækninýjungar í heilbrigðisþjónustu
  • Forvarnir og heilsuefling almennings

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu sem er
einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags og mikilvægur þáttur í að tryggja
góð lífskjör og samkeppnishæfni við aðrar þjóðir. Efnahagur fólks má ekki vera
nokkrum hindrun í að leita sér lækninga og ná bata. Nýju greiðsluþátttökukerfi
hefur verið komið á, þar sem sett hefur verið þak á kostnað einstaklinga vegna
heilbrigðisþjónustu og börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn
telur mikilvægt að lækka kostnað sjúklinga enn frekar.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður uppbyggingu heilbrigðiskerfisins haldið
áfram. Fjármögnun nýs Landspítala hefur verið tryggð og nauðsynlegt er að
framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hans gangi eftir. Fjölga þarf
hjúkrunarrýmum, efla heimahjúkrun og stytta biðlista. Eins þarf að leggja aukið
kapp á að halda í og laða til okkar heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða. Þá
verður að tryggja betur aðgengi landsbyggðarinnar að hvers konar
sérfræðiþjónustu. Áfram verður að hlúa að heilsugæslunni sem fyrsta
viðkomustaðar í heilbirgðiskerfinu. Fjölga verður heilsugæslustöðvum og auka
þjónustu þeirra, ekki síst á sviði geðheilbrigðis.

Ljúka þarf gerð langtíma heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. Skilgreina þarf
kjarnahlutverk Landspítalans frekar og tryggja spítalanum fjármagn til að sinna því
mikilvæga hlutverki að vera þjóðarsjúkrahús. Styrkja þarf stöðu Landspítalans sem
rannsókna- og kennslusjúkrahús. Horfa verður til þess hvort hægt sé að nýtta
skattfé betur og auka þjónustu með því að nýta áfram möguleika á fjölbreyttu
rekstrarformi með áherslu á skýrar gæðakröfur samhliða jafnræði í greiðslum óháð
rekstrarformi. Við viljum efla fjarheilbrigðisþjónustu, nýta upplýsinga- og
samskiptatækni betur.

Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Greina verður og takast á við vandamál á fyrstu stigum og tryggja aðgengi allra að
sálfræðiþjónustu, óháð búsetu. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í
geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk

með geðræn vandamál. Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu
sviði.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á forvarnir og heilsueflingu almennings og að
stuðlað verði að heilbrigðari lífsháttum m.a. með fræðslu um ávinning hreyfingar
og hollra lifnaðarhátta.