Ferðamál

  • Horfa til skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda sem ferðaþjónustan byggir á
  • Virða ber eignarrétt og heimila gjaldtöku til að stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum
  • Uppbygging innviða, svo sem varðandi samgöngumannvirki, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi, þarf að haldast í hendur við þarfir ferðaþjónustunnar
  • Eðlileg gjaldtaka þarf að vera af ferðamönnum og ferðaþjónustufyrirtækjum án þess að auka skattlagningu á atvinnugreinina
  • Einfalda þarf og samþætta betur stjórnsýslu við málefni ferðaþjónustu
  • Aukin dreifing ferðamanna um landið allt, allt árið í kring
  • Bjóða út þjónustu á ferðamannastöðum í eigu ríkisins

Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega á liðnum árum og er nú orðin ein af meginstoðum atvinnulífsins, þar sem gróska og gjaldeyrisöflun haldast í hendur. Hin öra þróun má ekki verða til þess að umhverfið glati sérkennum sínum og sérstöðu sem höfðar ekki síður til ferðamanna en heimamanna.

Halda þarf áfram að byggja upp innviði ferðaþjónustu í takt við vöxt hennar. Eitt helsta verkefni næsta kjörtímabils verður að nýta skynsamlega auðlindir ferðaþjónustunnar eins og aðrar auðlindir til lands og sjávar. Þar þarf að samhæfa aðgerðir og stefnumótun hins opinbera og ferðaþjónustufyrirtækja með langtímamarkmið í huga. Fjárfesting í samgöngumannvirkjum, flutningskerfi raforku og fjarskiptabúnaði nýtist fleirum en ferðaþjónustu.

Virða ber eignarétt á landi. Gæta þarf að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum. Skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila, en nýtingin þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka með sama hætti og gilt hefur um sjávarútveg.

Skatttekjur af greininni eru verulegar og þær skapa svigrúm til fjárfestingar í innviðum svo sem í samgöngumannvirkjum, heilbrigðisþjónustu eða menntakerfinu. Við uppbyggingu innviða þarf að hafa öryggi að leiðarljósi. Ferðaþjónustan og ferðamenn eiga að greiða fyrir aðstöðu og þjónustu.

Sjálfstæðismenn vilja stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um allt land, svo laða megi ferðamenn að fleiri stöðum landsins. Það er til þess fallið að vekja frekari áhuga á Íslandi sem áfangastað og fjölga endurkomu ferðamanna. Ríkið á að bjóða út starfsemi nauðsynlegrar þjónustu á þeim ferðamannastöðum sem eru í eigu þess.

Landkynning hefur mikið að segja fyrir ferðaþjónustuna en tengist ýmsum öðrum greinum, svo sem matvælaframleiðslu, vistvænni orku, menningu og listum svo dæmi séu tekin. Þá strengi þarf að stilla saman, enda er stefið jafnan byggt á umhverfisvernd, hreinleika, rekjanleika og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Hugvit og nýsköpun einstaklinga og fyrirtækja er drifkraftur aukinnar framleiðni og hagvaxtar í ferðaþjónustu sem og á öðrum sviðum.