Félags- og tryggingamál

  • Ellilífeyrir hækkaður, frítekjumark tekið upp og kerfið einfaldað
  • Sveigjanleg starfslok og lífeyrisaldur hækki í áföngum í 70 ár
  • Heimaþjónusta efld samhliða fjölgun hjúkrunarrýma
  • Starfsgetumat örorku verði innleitt í lög og
  • hlutabótakerfi tekið upp með frítekjumarki sem innifelur hvata til atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsorku
  • Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) lögfest og sjálfstæði fólks með fötlun tryggt

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja eldri borgurum fjárhagslegt sjálfstæði. Frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem liggur fyrir Alþingi er stórt skref í þá átt, en nauðsynlegt er að taka upp frítekjumark og/eða hækka grunn ellilífeyris.

Með breyttum lögum verður eftirlaunaaldur hækkaður í áföngum, sveigjanleiki í starfslokum aukinn, þannig að hægt verði að fresta töku lífeyris að hluta eða öllu leyti og flýta töku lífeyris.

Samhliða fjölgun hjúkrunarrýma er mikilvægt að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara. Heimaþjónusta taki mið af aldri og þörf og verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst og að aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Tryggja þarf að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma og/eða slysa, fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Tekið verði upp starfsgetumat og hlutabótakerfi örorkulífeyris með frítekjumarki lögfest.

Leitast þarf við að fötlun og/eða sjúkdómar komi ekki í veg fyrir atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, verði innleidd sem eitt af meginformum þjónustu við fatlað fólk. Leitast skal við að fatlaðir einstaklingar hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálfir. Sjálfstæðisflokkurinn vill auka sjálfstæði fólks með mikla fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur.