Efnahags- og viðskiptamál

  • Tillaga um stofnun stöðugleikasjóðs
  • Almenningsvæðing bankanna
  • Stöðugleiki tryggður áfram og verðbólgu haldið niðri
  • Peningastefnan endurskoðuð
  • Sveigjanleiki í lífeyriskerfið
  • Öflugt samkeppnisumhverfi

Sjálfstæðisflokkurinn mun viðhalda þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem tekist hefur að koma á. Mikilvægur þáttur í því verður að halda verðbólgunni niðri.

VIð höfum nú tækifæri til að ráðast í undirbúning og stofnun stöðugleikasjóðs. Í sjóð þennan rynni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn yrði sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftraði ofhitnun er vel áraði og tryggði komandi kynslóðum hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái álitlegan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur, samhliða skráningu bankanna á markað.

Peningastefnu landsins þarf að taka til endurskoðunar með langtíma efnahagslegan stöðugleika sem meginmarkmið.

Mikilvægt er að ríkisfjármál, peningastefna og kjarasamningar spili saman til að takast megi að draga úr vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Mestu skiptir að halda stöðugu verðlagi og lágmarka vaxtakostnað heimila og fyrirtækja.

Til framtíðar þurfa lánakjör hér að vera í samræmi við það sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

Leita þarf allra leiða til að tryggja öfluga samkeppni á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, þar með talið í fjármála-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Bæta skal samkeppnisumhverfi fyrirtækja með hagsmuni almennings að leiðarljósi ásamt því að tryggja öfluga og skilvirka neytendavernd.

Í framhaldi af losun hafta þarf að opna íslenskt athafnalíf og markaði með það fyrir augum að Ísland standist samanburð á helstu alþjóðlegum mælikvörðum á efnahagsgrósku, samkeppnishæfi, og viðskiptafrelsi.