Atvinnuvegamál

  • Fjölbreytni, framtak og sjálfbærni í atvinnulífi; forsenda framfara, undirstaða velferðar
  • Aðlaðandi atvinnuumhverfi fyrir fólk og fyrirtæki er fjölskyldustefna til framtíðar
  • Efling sprotaumhverfis og nýsköpunar
  • Stöðugleika í sjávarútvegi og markaðsvæðing landbúnaðar
  • Náttúruvæna og hagkvæma auðlindanýtingu

Sjálfstæðisflokkurinn vill að á Íslandi þrífist fjölbreytt og alþjóðlegt atvinnulíf, þar
sem atvinnuvegirnir styðja hverjir aðra og stuðla að blómlegu þjóðlífi. Sjálfbær
atvinnustefna er fjölskyldustefna til framtíðar, en öflugt atvinnulíf er forsenda
framfara og undirstaða velferðar.

Við viljum auka nýsköpun, framleiðni og hagvöxt með ábyrgum og varanlegum
hætti, svo að Ísland sé aðlaðandi fyrir fólk sem fyrirtæki. Sjálfstæðisflokkurinn
leggur sérstaka áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu, sprotastarfsemi og fjölbreytni til
þess að nýta betur mannauðinn. Eins eru hreinleiki og heilnæmi íslenskrar náttúru
og afurða hennar grunnur frekari sóknar á margvíslegum sviðum atvinnulífsins.

Skapandi greinar eru vaxandi og gróskumikill hluti atvinnulífsins sem þarf að
samþætta öðrum greinum til að auka nýsköpun, fjölbreytileika og styrk íslensks
atvinnu- og menningarlífs. Sjálfstæðisflokkurinn lítur á hugverk, nýsköpun og listir
sem sífellt mikilvægari og vaxandi atvinnugreinar sem ber að efla.

Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á heimsvísu, jafnt hvað varðar gæði,
sjálfbærni, þróun og arðsemi. Við viljum tryggja stöðugleika í sjávarútvegi svo hann
geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun og lagt drjúgan og sanngjarnan skerf af
mörkum til lífsgæða landsmanna.

Við viljum nýta svigrúmið sem landbúnaðinum hefur verið gefið og leggja drög að
nýjum og fjölbreyttari búskaparháttum á grundvelli einkaframtaks og frjálsra
markaðshátta og samkeppni milli landa sem innanlands. Við viljum að
landbúnaðar- og byggðastefna styðji við náttúruvernd og taki mið af sögu og
menningu þjóðarinnar. Tilgangurinn er að samþætta hagsmuni þéttbýlis og
dreifbýlis og skapa tækifæri um allt land þannig að ungt fólk hafi raunverulegt
valfrelsi um að velja sér búsetu.

Verslun og þjónusta þarf að búa við samkeppnishæft umhverfi líkt og aðrar greinar,
en niðurfelling ríkisstjórnarinnar á tollum og vörugjöldum hefur gert verslunina

lífvænlega og bætt kjör neytenda verulega. Við viljum ganga enn lengra í átt til
fríverslunar í þeim efnum.

Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnuuppbyggingu með sjálfbærri nýtingu
orkuauðlinda, en virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt skilyrði. Í því skyni er
brýnt að bæta raforkuflutningskerfi landsins. Við þurfum að nýta
samkeppnisforskot það sem felst í vistvænni orku og leggja okkar af mörkum í þágu
alþjóðlegs orkubúskapar og aðgerða í loftslagsmálum.