Eva Björk Harðardóttir

Eva Björk Harðardóttir situr í miðstjórn sem fulltrúi Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og var kosin á aðalfundi 2018.

Hún er 50 ára og gift Þorsteini Matthíasi Kristinssyni. Þau búa að Efri-Vík í Skaftárhreppi þar sem þau reka Hótel Laka.

Eva og Þorsteinn eiga 6 börn, 4 tengdabörn og 3 barnabörn.

„16 ára fór ég að heiman í MK. Eignaðist fyrstu börnin mín, tvíbura um leið og ég útskrifaðist stúdent. Ég er kennaramenntuð frá KHÍ síðan 1992. Hef lært ýmislegt tengt rekstri og mannauðsstjórnun, er í dag í námi hjá HÍ í opinberri stjórnsýslu til að reyna að bæta þekkingu mína á sveitarstjórnarmálum sem taka hug minn allan í dag. Ég kenndi í nokkur ár í Kópavogi eftir útskrift, nokkur ár á Hvammstanga og síðan í Mosfellsbæ áður en ég flutti aftur heim í Skaftárhrepp. Kenndi í nokkur ár í Kirkjubæjarskóla og ákváðum þá hjónin að byggja upp hótel með foreldrum mínum og sjá hvort við gætum lifað af ferðaþjónustu. Ég er hér fædd og uppalin við hefðbundin sveitastörf, kindur, kýr og hesta. Finnst forréttindi að hafa fengið að ala hér upp börnin mín og eiga þátt í að byggja hér upp lifibrauð fyrir 35 manns að meðaltali. Ég hef áhuga á lestri góðra bóka, útiveru og ferðalögum. Elska að leika mér við barnabörnin, umgangast fólk og vera úti í náttúrunni.“

Eva hefur gengt ýmsum félags og trúnaðarstörfum í gegnum tíðina. Hún er í dag varaformaður Ferðamálaráðs, formaður stjórnar SASS, er í stjórn Kötlu Jarðvangs, stjórn Náttúrustofu Suðausturlands, stjórn FAS og Byggðasafnsins að Skógum ásamt því að sinna oddvitastörfum fyrir Skaftárhrepp. Hún hefur einnig sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisfélag Vestur Skaftafellssýslu undanfarin ár sem gjaldkeri ásamt þvi að sitja í umhverfis og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins.