Glæsilegur árangur um allt land

Sjálfstæðisflokkurinn fékk flest atkvæði allra framboða í sveitarstjórnakosningunum á laugardag og er langstærsti flokkurinn á landsvísu. Hann er forystuflokkur í öllum stærri sveitarfélögum og í Reykjavík unnu sjálfstæðismenn stórsigur og meirihluti vinstrimanna féll.

Sveitarstjórnamenn Sjálfstæðisflokksins eru nú 118 talsins, aðeins tveimur færri en 2014. Í þeim 34 sveitarfélögunum, sem flokkurinn bauð fram í, fékk hann flest atkvæði í 23 þeirra og hefur hreinan meirihluta í níu sveitarfélögum.

Glæsileg frammistaða Sjálfstæðisflokksins endurspeglast vel í því að hann er með yfir 30% fylgi í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn var með yfir 60% atkvæða í þremur sveitarfélögum — Garðabæ, Rangárþingi ytra og Skaftárhreppi — og með yfir 51% í átta sveitarfélögum. Í sjö sveitarfélögum er flokkurinn með 40-50% fylgi.

Þegar horft er til atkvæða fékk Sjálfstæðisflokkurinn 52.807 atkvæði á landsvísu nú, sem er 3.676 fleiri atkvæði en í kosningunum 2014. Það eru 34% gildra atkvæða, sem er sama hlutfall og 2014.

Ef litið er til meðaltals atkvæðahlutfalls flokksins í þeim 34 sveitarfélögum, þar sem hann bauð fram, þá var það 40% nú, hið sama og 2014. Sú glæsilega niðurstaða er sérstaklega merkileg í ljósi þriggja klofningsframboða og ekki síður að fram eru komnir tveir nýjir stjórnmálaflokkar á hægri væng, sem náð hafa nokkrum árangri.

Mikið jafnræði var með kynjunum á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins, sem endurspeglast vel í því að nú sitja 57 konur í sveitarstjórnum fyrir flokkinn vítt og breytt um landið, fjórar fleiri en á síðasta kjörtímabili. Hlutfall þeirra af sveitarstjórnamönnum flokksins er nú 48,3% og hækkaði um 2,5 prósentustig frá fyrra kjörtímabili.

Sætir sigrar

Ein helstu tíðindi sveitarstjórnakosninganna var stórsigur hans í Reykjavík undir forystu Eyþórs Arnalds. Þar fékk flokkurinn nær 31% atkvæða, bætti við sig 5,1 prósentustigi, meirihluti vinstrimanna féll og Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti stöðu sína sem stærsti flokkur höfuðborgarinnar með 8 borgarfulltrúa af 23. Sjálfstæðismenn bættu við sig ríflega fjögur þúsund atkvæðum frá 2014, sem hartnær þriðjungsaukning.

Flokkurinn náði víða miklum árangri í kosningunum. Mesta aukningin varð í Hrunamannahreppi, þar sem flokkurinn bauð fram í fyrsta sinn og hlaut 47,7% sem er frábær árangur í fyrstu atrennu.

Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir í sveitarstjórn náðist langmestur árangur í Ölfusi, þar sem Gestur Þór Kristjánsson leiddi listann,  sem bætti 26,7% við sig og fór í 51,9%. Í Fjallabyggð, þar sem Gunnar I. Birgisson var áfram bæjarstjóraefnið, bættu menn hlutfallið um 15,3% og fóru í 44,7%; í Snæfellsbæ, þar sem Björn Haraldur Hilmarsson leiddi listann, um 13,4% í 59,4%; og Rangárþingi eystra, þar sem Anton Kári Halldórsson var í efsta sæti, um 12,1% í 46,1%. Þá má ekki gleyma Garðbæingum, sem bættu við sig 3,2% og fóru í 62% undir traustri forystu Áslaugar Huldu Jónsdóttir í efsta sæti og bæjarstjórans Gunnars Einarssonar, sem náði inn í bæjarstjórn sem áttundi maður listans.

Í Grundarfirði vann listi Sjálfstæðismanna og óháðra hreinan meirihluta undir forystu Jósefs Ó. Kjartanssonar, fór úr minnihluta í 56,2%. Í Skaftárhreppi hafa sjálfstæðismenn verið í meirihlutasamstarfi, en unnu nú 60,5% hreinan meirihluta undir forystu Evu Bjarkar Harðardóttur. Að ógleymdu Hveragerði, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk 52,4% og hélt hreinum meirihluta fjórðu kosningarnar í röð, sem hlýtur að teljast einstaklega vel af sér vikið.

Rétt er einnig að nefna frækna varnarsigra, svo sem í Kópavogi, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt velli með 36,1% þrátt fyrir ódrengilega atlögu að Ármanni Ólafssyni bæjarstjóra, eða í Norðurþingi þar sem flokkurinn, undir forystu Kristjáns Þórs Magnússonar bæjarstjóra, bætti við sig 1,9% þrátt fyrir klofningsframboð, sem náði inn manni. Á Seltjarnarnesi hélt meirihluti sjálfstæðismanna undir stjórn Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra með 46,3% atkvæða, þrátt fyrir klofningsframboð sem náði 10,6% fylgi.

Lakara gengi

Á örfáum stöðum gekk ekki jafnvel, en þar munar sjálfsagt mestu um að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, einu helsta höfuðvígi flokksins um áraraðir, féll eftir klofningsframboð. Bæjarstjórinn Elliði Vignisson náði ekki inn í bæjarstjórn, en tapið var einstaklega naumt, þar sem aðeins sex atkvæði vantaði upp á að flokkurinn héldi meirihluta. Þar fór hann úr 73,2% fylgi niður í 45,4%, þó sumir vilji hugga sig við að samanlagt náðu Sjálfstæðisflokkurinn og klofningsframboðið 79,6% atkvæða meðan fylgi vinstrimanna féll um fimmtung niður í 20,3%.

Í Árborg missti Sjálfstæðisflokkurinn 51% hreinan meirihluta sinn og fékk 38,3% atkvæða.

Í Fjarðabyggð féll meirihlutinn eftir að Sjálfstæðisflokkurinn dalaði talsvert, en aðeins vantaði tvö atkvæði upp á að flokkurinn héldi þremur mönnum inni og meirihlutinn stæði.