Borgin hefur svikið Kjalnesinga

Marta Guðjónsdóttir, 5. sæti í Reykjavík:

Við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur árið 1997 var íbúum Kjalarness talin trú um að sameiningin fæli í sér aukna og bætta þjónustu á öllum sviðum með tilheyrandi betri lífsgæðum. Með þessa von í brjósti kusu Kjalnesingar með sameiningunni og sameinuðust þar með Reykjavík. Framtíðarsýnin var glæsileg og ný tækifæri í skipulags- og búsetumálum áttu að styrkja og efla byggðina og samgöngur. Ein af meginforsendum sameiningarinnar var lagning Sundabrautar.

Nú rúmum tuttugu árum síðar hefur lítið gerst. Engin Sundabraut, byggðin hefur ekki verið elfd og þjónustan lakari en í öðrum hverfum borgarinnar.  Fyrirheitin runnu út í sandinn og margir hafa talið að  forsenda sameiningarinnar væri í raun brostin.

Ekki hægt að snuða íbúa Kjalarness lengur

 Það er staðreynd að Kjalarnesið hefur ekki setið við sama borð og önnur hverfi borgarinnar hvað varðar almenna og sjálfsagða grunnþjónustu. Í þeim efnum nægir að nefna almenna umhirðu, garðslátt, snjómokstur, viðhald gatna og leiksvæða  og strætisvagnasamgöngur svo fátt eitt sé nefnt.

Ef Kjalarnesið á að fá að dafna sem eftirsótt og blómleg byggð þurfa borgaryfirvöld að gera sér grein fyrir því að ekki er lengur hægt að snuða íbúa Kjalarness um þá sjálfsögðu þjónustu sem þeim ber jafnt og öðrum borgarbúum.

Efnum samninginn við Kjalarnesið

Kjalarnesið er einstök náttúruperla í borgarlandinu sem ég kynntist vel þegar ég var formaður hverfisráðs Kjalarness árin 2006 til 2010. Á þeim tíma komum við m.a. upp battavelli, börðumst fyrir hraðamyndavél við Vesturlandsveg, komum upp glæsilegri útikennslustofu í samvinnu við íbúasamtökin og fegruðum og snyrtum hverfið.

Fáum við sjálfstæðsmenn brautargengi í kosningunum í vor munum við efna samninginn við Kjalarnesið: Bæta þjónustuna, styrkja og efla byggðina með úthlutun lóða og fjölgun íbúa og flýta lagningu Sundabrautar sem er ein mikilvægasta samgöngubótin fyrir Kjalarnesið.

Greinin birtist fyrst í Kjalnesingi 24. maí 2018