499 Sjálfstæðismenn á 34 D-listum um land allt

Framboðsfrestur til sveitarstjórnarkosninganna 2018 rann út í dag og stendur Sjálfstæðisflokkurinn að framboðum í 34 sveitarfélögum af 72 undir merkjum D-lista, en af þeim eru 9 framboð þar sem flokkurinn býður fram með óháðum frambjóðendum.

Alls sitja 499 flokksbundnir Sjálfstæðismenn á listum flokksins í ár, auk óháðra frambjóðenda.

Þetta eru jafn mörg framboð og fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014, en þær breytingar hafa þó orðið að þá voru boðnir fram sitthvor listinn í Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ. Nú hafa þau sveitarfélög samþykkt að sameinast í upphafi nýs kjörtímabils og þar fækkar framboðslitum um einn, en við hefur bæst framboð D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Hrunamannahreppi, þar sem flokkurinn hefur ekki áður staðið að framboðslista. Þá hafa þær breytingar einnig orðið að Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð munu sameinast. Í Breiðdalshreppi hefur ekki verið boðinn fram D-listi áður, en nú gefst íbúum á því svæði kostur á að kjósa D-lista nýs sameinaðs sveitarfélags í fyrsta skipti.

Hægt er að nálgast upplýsingar um alla framboðslista flokksins hér, þar sem einnig má finna hlekki inn á facebooksíður framboðanna, upplýsingar um kosningastjóra og einnig upplýsingar um kosningamiðstöðvar flokksins jafnóðum og þær opna.

Hér má svo finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi kosningarnar, um fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Íslandi og um heim allan, eyðublöð vegna umsóknar um kosningu í heimahúsi og fleira.